Beint í efni

Ræða formanns LK á aðalfundi

06.04.2018

Aðalfundur Landssambands kúabænda var settur í dag kl.10 á Hótel Selfossi. Við setningu hélt Arnar Árnason, formaður LK, setningarræðu um störf stjórnar síðastliðið starfsár. Í ræðunni kom hann meðal annars inná stefnumótunarvinnu LK, sem tekin verður fyrir á fundinum, viðbrögð við niðurstöðu EFTA-dómstólsins í hráakjötsmálinu svokallaða, tollamál, samstöðu bænda og fleira. Ræðuna má lesa í heild sinni hér.

Kæru fundargestir,

Það hefur verið bjart í íslenskum kúabúskap síðustu árin. Met var slegið á síðasta ári í innvigtun mjólkur, 151 milljónir lítra voru mótteknir hjá afurðastöðvunum okkar og útlit er fyrir að það verði enn meiri mjólk framleidd á Íslandi á þessu ári. Meðalnyt eykst stöðugt, mikið er byggt og aðstaða gripa og manna batnar ár frá ári.

Það olli nokkrum áhyggjum á sínum tíma þegar nýr búvörusamningur tók gildi að búum myndi halda áfram að fækka og að hugsanlega kæmi upp sú staða að íslenskir kúabændur gætu ekki annað eftirspurn eftir mjólk á markaði. Það hefur svo sannarlega komið í ljós að þær áhyggjur reyndust óþarfar og er nú framleitt sem aldrei fyrr í íslenskum sveitum og ekki annað að heyra en að bændur séu almennt bjartsýnir á framhaldið.

Ýmislegt hefur á dagana drifið í starfi Landssambands kúabænda á því ári sem liðið er frá síðasta aðalfundi og er formannsstarfið svolítið eins og búskapurinn sjálfur, verkefnin klárast aldrei og á hverjum tíma þarf maður að velja sér þau verk sem maður telur mikilvægust.

Við misstum reyndar framkvæmdastjórann okkar hana Margréti í fæðingarorlof síðastliðið vor og réðum þess vegna tímabundið hann Axel Kárason, nýútskrifaðann dýralækni, í 50% starfshlutfall í hennar stað. Samstarfið við Axel gekk vel og langar mig fyrir hönd stjórnar að þakka honum kærlega fyrir vel unnin störf. Það er ekkert sjálfgefið að fá einhvern til að stökkva svona í djúpu laugina en Axel er Skagfirðingur í húð og hár lét það ekki aftra sér.

Samstarf okkar í stjórn hefur gengið með miklum ágætum og áttum við 15 bókaða fundi á starfsárinu sem allir gengu vel, þó stundum hafi verið skipst á skoðunum. Vil ég því þakka stjórnarfólki kærlega fyrir mjög gott samstarf, það er dýrmætt í félagsskap sem þessum að hafa gott samstarfsfólk.

Mér telst til að ég hafi farið 20 ferðir til Reykjavíkur síðan við héldum aðalfund síðast.  Árið á undan fór ég 44 ferðir. Ástæðan fyrir mikið færri ferðum að þessu sinni er aðallega sú að í fyrra fór mikill tími í að innleiða nýjan búvörusamning.  Í flestum þessara ferða næst að koma á fleiri en einum fundi og þannig reynir maður eftir megni að nýta tímann í borginni.

Nokkur tími fór á árinu í að reyna að halda merki íslensks landbúnaðar á lofti hvar sem því var fyrir komið. Ég fór í nokkur útvarpsviðtöl ásamt sjónvarpsviðtölum, en það sem ég hef lært af þessu stjákli er að það er engin sérstök eftirspurn eftir því að ræða landbúnaðarmál á breiðum og jákvæðum grunni. Það eru satt að segja engar tilviljanir sem ráða því hvar og hverjir komast að í fjölmiðlum til að ræða sín mál, allavega ekki ef menn tilheyra þeirri starfsstétt sem við gerum. Það þurfti nokkuð að hafa fyrir því að láta rödd okkar heyrast og kostaði í sumum tilfellum nokkra eftirgangssemi að fá að komast að. Þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er að við bændur eigum aðild að hagsmunafélagi sem hefur burði og getu til að sinna slíkum málum, því eins og ég met hlutina þá skiptir það öllu máli að vera sýnilegur og að halda á lofti öllu því jákvæða sem á sér stað í íslenskum landbúnaði. Þetta kemur ekki að sjálfu sér eins og vorið gerir, nei þetta er vinna sem við verðum að sinna því það er fullkomlega öruggt að það sinnir þessari vinnu enginn fyrir okkur, þetta verðum við að gera sjálf. Það lendir á höndum embættismanna ráðuneyta að taka ákvarðanir fyrir okkar hönd ef við gerum það ekki  og hver ætlast til að það komi eitthvað útúr því?  Nú er ég ekki að halda því fram að í ráðuneytunum vinni fólk sem er eitthvað sérstaklega á móti bændum eða búskap, þvert á móti, en í alvöru! hvernig er hægt að ætlast til þess að fólk taki ákvarðanir án þess að þeim sé haldið upplýstum af aðilum sem þekkja málin frá fyrstu hendi?

 

Undanfarið hafa tveir hópar á vegum LK verið að vinna að stefnumótun fyrir greinina til næstu tíu ára og verður unnið áfram í þeim málum hér á fundinum. Annars vegar er það hópur sem við höfum kallað mjólkurhóp og hins vegar er það kjöthópur. Ákveðið var að vinna stefnumótun að þessu sinni í tvennu lagi til að gefa kjötmálunum aukið vægi í vinnunni. Það hefur mjög færst í vöxt síðustu árin að bændur einbeiti sér að framleiðslu nautakjöts í stað þess að hafa þá framleiðslu eingöngu sem hliðargrein við kúabúskapinn, þess vegna var ákveðið að fara þessa leið í stefnumótunarvinnunni.

 

Nokkur hrollur fór um kjötgreinarnar allar á Íslandi þegar EFTA dómstóllinn úrskurðaði það óheimilt að takmarka innflutning á fersku kjöti til landsins. Skemmst er frá því að segja að nokkur óvissa ríkir enn um það hvernig brugðist verði við þessum úrskurði en óhætt er að segja að drjúgur tími starfsmanna hagsmunagæsufélags kúabænda, LK, hefur farið í að greina og þrýsta á ráðamenn varðandi að gefa nú skýr svör um viðbrögð við þessu.

Þessu tengt hafa bæði formaður og framkvæmdastjóri hitt ráðamenn og ráðherra nokkrum sinnum og átt góðar umræður um málið. Vonandi skilar það sér en í máli sem þessu sýnir það sig best hversu mikilvægt það er að bændur eigi sér öflugt hagsmunafélag sem hefur bolmagn til að sinna málum sem þessum.

Tollamálin eru bændum greinilega nokkuð hugleikinn þessi misserinn enda tekur margumræddur Tollasamningur við Evrópusambandið gildi nú í byrjun maí. Það er með miklum ólíkindum hvernig það gat átt sér stað að samningurinn líti út eins og hann gerir og ráðamenn hafa undanfarið keppst við að benda á hvern annan í þeim efnum, segjast ekkert hafa vitað og þar fram eftir götunum. Það er magnað ef það er þannig að hægt sé að gera milliríkjasamninga fyrir Íslands hönd og enginn veit af því. Hvernig sem þeim söguskýringum er háttað þá er ábyrgðin klárlega þeirra sem stóðu í brúnni á þeim tíma sem samningurinn var gerður. Annað er ótrúverðugur málflutningur.

Eins er með tollamálin og hráakjötsmálið, enginn veit nákvæmlega hvaða áhrif samningurinn kemur til með að hafa enda hefur engin vitsmunaleg tilraun verið gerð af hálfu opinberra aðila til að meta áhrifin. Bændasamtökin hafa nú, ásamt flestum búgreinafélögunum, hafið vinnu í samstarfi við innlent ráðgjafafyrirtæki og norska lögfræðistofu við að meta áhrifin og að setja fram töluleg gögn í málinu. Við bindum miklar vonir við þetta starf og ákvað stjórn LK að taka fullan þátt í verkefninu enda um gríðarlegt hagsmunamál að ræða.

Þá komum við að nokkurs konar siðferðisspurningu. Það er ljóst að þetta samstarf BÍ og búgreinafélaganna ásamt aðkomu afurðastöðvanna kostar Landssamband kúabænda 800.000 krónur og þá spyrjum við okkur, í ljósi þess að rétt um tveir þriðju hluti kúabænda á aðild að LK, er eðlilegt að þessi hluti bænda borgi hagsmunagæsluna fyrir alla bændur?

Í mínum huga er svarið einfalt og það er nei. Það er ekki eðlilegt að einn þriðji hluti starfandi kúabænda taki ekki þátt í leiknum og séu nokkurs konar farþegar í hagsmunagæslunni. Það er reyndar af ýmsum ástæðum sem bændur ákveða að vera ekki með og enn hittir maður bændur sem halda að þeir séu með af því að þeir hafi alltaf verið  það og átta sig ekki á þeim breytingum sem orðið  hafa á félagskerfinu okkar.

Ég bind nokkrar vonir við ályktun sem samþykkt var á nýliðnu Búnaðarþingi þar sem ákveðið var að skipa vinnuhóp til að endurskoða félagsmál okkar bænda í heild sinni. Nýkjörin stjórn BÍ fékk semsagt verkefnið í hendur og ég veit að þar á bæ er fullur skilningur á málinu.

En hvað er til ráða? Nú er ég ekkert að skammast, hér inni eru flestir væntanlega félagsmenn í LK en samt sem áður verðum við að finna útúr því með sterkari hætti hvernig við gerum það meira aðlaðandi að taka þátt í félagsstarfinu. Ég held að þetta verði ekki unnið nema af okkur félagsmönnum sjálfum. Við þurfum öll að halda því að nágrönnum okkar hversu mikilvægt þetta starf er, höfða til samvisku manna og og spyrja:  Af hverju á ég að borga hagsmunagæsluna fyrir þig?

 

Tvö mál koma til með að bera hæst í vinnunni á þessum aðalfundi.

Annað er atkvæðagreiðsla um endurskoðun á búvörusamningnum sem  mun fara fram á næsta ári en ég reikna með að sú vinna fari að stórum hluta fram á þessu ári. Endurskoðunarnefnd búvörusamninga hefur nú verið skipuð í þriðja sinn og ætlar sér að skila áliti sínu í lok þessa árs.

Hitt málið er atkvæðagreiðslan um kvótakerfið. Starfandi mjólkurframleiðendur koma til með að greiða um það atkvæði í byrjun næsta árs hvort þeir vilji halda í framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslunni. Í könnun sem stjórn LK lét gera fyrir aðalfund samtakanna 2017 kom í ljós að mikill meirihluti kúabænda á Íslandi vill viðhafa framleiðslustýringu í greininni.  Það er ætlunin að nota aðalfundinn til að ræða þessi mál, skiptast á skoðunum, og komast að niðurstöðu í málinu. Ég reikna með að aðalfundurinn feli stjórn LK að vinna málið í samræmi við umræður og koma með tillögur sem kynntar verði á haustfundum LK. Þannig verði tryggt að allir komi að kjörborðinu með opin augun og viti nákvæmlega hvað það felur í sér að kjósa með framleiðslustýringarkerfi og á móti framleiðslustýringarkerfi.

 

Ágætu aðalfundargestir.

Það eru á hverjum tíma ógnanir og tækifæri í mjólkurframleiðslu á Íslandi, þannig hefur það alltaf verið. Við höfum í áratugi þurft að takast á við aukinn innflutning, það kemur ekkert til með að breytast en það besta sem við getum gert til að gera greinina okkar samkeppnishæfari og betur í stakk búna fyrir framtíðina er einmitt að gera það sem við höfum alltaf verið að gera. Sækja fram, þróa búskapinn okkar, tæknivæðast og tileinka okkur nýjungar í greininni. Það væri afar ósanngjarnt að halda því fram að það hafi litlar eða engar framfarir átt sér stað í mjólkurframleiðslu hér á landi. Íslenskur landbúnaður er ekki eftirbátur annarrar framleiðslu hér á landi þegar kemur að hagræðingu og framþróun.

Við erum íslenskir bændur og erum stolt af því að framleiða hér framúrskarandi matvæli við aðstæður sem eru einstakar á heimsvísu.

Landið okkar er hreint, vatnið okkar er hreint, búfjárstofnarnir okkar eru hreinir og afurðirnar okkar eru hreinar.

Aðstæður hér eiga eftir að veita okkur forskot í framtíðinni ef vel er á spilum haldið en landbúnaður á Íslandi er pólitísk ákvörðun og þegar við höfum raunverulega kjark til að standa upp og segja „ Ég er íslenskur bóndi“ þá mun okkur farnast vel.

 

 

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda