Beint í efni

Ráðunautafundur í dag – Fræðaþing á morgun

17.02.2010

Í dag, miðvikudag, er haldinn í Bændahöllinni árlegur fundur ráðunauta í landbúnaði en hann er undanfari Fræðaþings landbúnaðarins sem hefst á morgun, fimmtudag. Ráðunautar munu áfram funda fyrir hádegi á fimmtudag um ýmis mál sem tengjast þeirra starfi.

Fræðaþingið hefst með athöfn í Súlnasal Hótel Sögu kl. 13:00 fimmtudaginn 18. feb. Þar mun Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setja þingið en í kjölfarið mun Þorsteinn Ingi Sigfússon hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands halda erindi um orkumál. Að því loknu mun Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, fjalla um fæðuöryggi og íslenskan landbúnað.

Eftir sameiginlega dagskrá í Súlnasal skiptist þingið upp í nokkrar málstofur þar sem fjölbreytt efni er á dagskrá. Þar má nefna sjálfbæra orkuvinnslu og nýsköpun í matvælavinnslu. Á föstudeginum heldur þingið áfram og hefst kl. 9:00 í fundarsölum Hótel Sögu. Þá verður m.a. þingað um erfðir, aðbúnað búfjár og vistfræði. Samhliða fyrirlestrum er veggspjaldasýning.

Fræðaþing landbúnaðarins er haldið árlega en að því standa Bændasamtök Íslands, Landgræðslan, Veiðimálastofnun, Skógrækt ríkisins, Matvælastofnun, Landbúnaðarháskóli Íslands, Hólaskóli – Háskólinn á Hólum, Hagþjónusta landbúnaðarins og Matís.

Mikill meirihluti erinda, sem flutt verða á Fræðaþinginu, er gefinn út í sérstöku prentuðu hefti sem þátttakendur á þinginu geta fengið og er innifalið í þátttökugjaldinu. Ennfremur verða velflest erindanna aðgengileg í Greinasafni landbúnaðarins á landbunadur.is. Greinasafnið geymir stóran hluta landbúnaðarfagefnis sem gefið hefur verið út á liðnum árum.

Hægt er að nálgast umfjöllun og dagskrá Fræðaþings á vef Bændasamtakanna með því að smella hér.