Ráðstefna NØK í Gråsten á Jótlandi
29.07.2012
Í dag var ráðstefna NØK (Nordisk Økonomisk Kvægavl; Samtök nautgriparæktarmanna á Norðurlöndunum) sett í bænum Gråsten á Suður-Jótlandi. Samtök þessi voru stofnuð árið 1948 sem samstarfsvettvangur þeirra sem koma að ræktunarstarfi nautgripa á Norðurlöndunum; bænda, ráðunauta, búfræðikennara, dýralækna og rannsóknamanna. Samtökin eru byggð upp þannig að ein deild er í hverju Norðurlandanna fimm og eru að hámarki 40 félagar í hverri þeirra. Ráðstefnur samtakanna eru haldnar annað hvert ár og skiptast löndin á að halda þær. Síðasta ráðstefna var haldin hér á landi sumarið 2010, í Hornafirði. Þar áður var haldin ráðstefna hér á landi árið 2000, á Akureyri.
Að þessu sinni er ráðstefnan haldin í Danmörku, eins og áður segir, í Gråsten, 4.000 manna bæ við landamærin að Þýskalandi. Dagskrá ráðstefnunnar er fjórþætt;
- Norrænt samstarf.
- Hátækni í mjólkurframleiðslunni.
- Mjólkurframleiðsla framtíðarinnar – áhrif á loftslag og umhverfi.
- Kynbótastarf framtíðarinnar – úrval á grunni erfðamarka.
Hlekkur á dagskrá ráðstefnunnar er hér neðst í pistlinum. Þátttakendur á ráðstefnunni eru um 110 talsins, þar af 16 frá Íslandi, auk maka og barna./BHB