Beint í efni

Ráðstefna Dansk kvæg 2012

03.01.2012

Um árabil hafa samtök danskra kúabænda staðið fyrir ráðstefnu um mánaðamótin febrúar-mars. Árið í ár er engin undantekning í þessum efnum og verður „KvægKongres 2012“ eins og ráðstefnan heitir haldin dagana 27. og 28. febrúar n.k. í Herning á Jótlandi. Gestir hennar hafa verið um 2.000 talsins undanfarin ár, bændur, ráðunautar, rannsóknarfólk, búfræðinemar og aðrir hagsmunaaðilar sem greininni tengjast. Þar er greint frá nýjustu rannsóknarniðurstöðum og þekkingu í greininni, ásamt straumum og stefnum í nautgriparæktinni á heimsvísu. Ennfremur fara formaður og framkvæmdastjóri Dansk kvæg ýtarlega yfir stöðu greinarinnar á heimavelli, afkomu bænda á liðnu ári og horfur í þeim efnum. Undirritaður hefur nokkrum sinnum átt þess kost að sækja ráðstefnuna og orðið margs vísari í hvert sinn.

Drög að dagskrá ráðstefnunnar liggja nú fyrir og eru efnistök fjölbreytt að vanda. Henni er skipt upp í nokkra þætti, búrekstur, mjólk og mjólkurgæði, kýr og kálfar um burð, heilbrigðismál og sjúkdómavarnir, fóður og fóðrun, veðurfar og umhverfismál og kjötframleiðslu. Dæmi um fyrirlestra eru t.d. vinnuframlag og nýtingu vinnuafls á kúabúum, viðhaldskostnaður búanna, eigendaskipti kúabúa, mjólk – elskuð og hötuð, hvernig má minnka notkun sýklalyfja, metangasframleiðsla á kúabúum, möguleikar blendingsræktar og framtíðarhorfur í nautakjötsframleiðslu. Aðal ræðumaður ráðstefnunnar er Per Engberg Jensen, forstjóri Nykredit, sem er leiðandi fjármálafyrirtæki á sviði fasteignalána, trygginga og lífeyrissparnaðar en fjárhagsstaða danskra bænda er mjög misjöfn um þessar mundir.

 

Full ástæða er til þess að hvetja áhugamenn um nautgriparækt sem vilja víkka sjóndeildarhringinn og auðga andann, að sækja þessa ráðstefnu. Aðgangur að henni er ókeypis./BHB

 

Drög að dagskrá KvægKongres 2012