Beint í efni

Ráðleggur bændum að nota YouTube!

14.07.2012

Kanadískur prófessor við háskólann í Colorado hefur nú tekið upp á nýjung við leiðbeiningar til bænda: notið YouTube! Ekki þó til þess endilega að skoða eitthvað á þessum vef hinna endalausu myndbanda, heldur til þess að kynna sig og sína framleiðslu. Prófessor þessi, Bruce Cochrane, telur það lang bestu leiðina fyrir bændur til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum og um leið að nálgast neytendur með nútímalegum hætti.

 

Í Kanada, líkt og í flestum öðrum löndum, hefur orðið gríðarlega mikil breyting á högum bæði búfjár og bænda á undanförnum árum. Þannig er búið betur að skepnum í dag en áður og bændur í flestum löndum mun meðvitaðari um dýravelferðarmál. Þessi staða hefur hinsvegar ekki náð til þorra íbúa í stórborgum landanna og finnast margir í „101“ hinna vestrænu landa sem þekkja lítið sem ekkert til landbúnaðarframleiðslu.

 

Með því að taka upp myndbönd af störfum sínum til sveita og setja á YouTube telur Bruce að mun auðveldara verði að koma réttum skilaboðum á framfæri. Hvort sem þetta er nú rétt hjá þessum kanadíska prófessor eða ekki, þá er því ekki að neyta að margir nota einmitt YouTube til þess að finna áhugavert efni að horfa á.

 

Sem dæmi um áhrif netsins í þessa átt má nefna nýlegt myndband frá þremur bandarískum bræðrum sem vinna á búgarði föður þeirra og hefur náð vel til fólks á undanförnum dögum. Bræður þessir syngja um búskapinn með gleðina í fyrirrúmi og syngja við vinsælt popplag. Eftir að hafa sett þetta grín sitt á vefinn þann 26. júní sl. hafa rúmlega 5 milljónir manna séð myndbandið og þeir fengið mikla athygli, m.a. viðtöl á CNN um búskapinn. Nú er bara spurningin hvort ekki sé stutt í íslenskan gjörning á þessu sviði?

 

Með því að smella á þennan hlekk hér má sjá þetta skemmtilega myndband bræðranna þriggja http://www.youtube.com/watch?v=48H7zOQrX3U /SS.