Beint í efni

Ráðherra býður til funda um landbúnaðarstefnu

21.05.2021

Fyrr í mánuðinum var Ræktum Ísland – umræðuskjal um landbúnaðarstefnu kynnt í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Nú hyggst Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, halda opna fundi um allt land fyrri hluta júnímánaðar og ræða við bændur og aðra hagaðila um þennan grunn að stefnumótun atvinnugreinarinnar. Með í för verða þau Björn Bjarnason og Hlédís H. Sveinsdóttir, sem mynda verkefnastjórn um landbúnaðarstefnu. Fleiri starfsmenn ráðuneytisins munu einnig taka þátt í fundunum, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Alls verða fundirnir tíu talsins en lokafundur hringferðarinnar verður haldinn 16. júní með fjarfundarbúnaði fyrir þá sem ekki eiga heimangengt á staðarfundina. Fundirnir eru haldnir með fyrirvara um breyttar sóttvarnarreglur.

Fundarstaðir og fundartímar

Hvanneyri - Vesturland 1. júní kl.20:00. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri.

Ísafjörður 2. júní kl. 20:00 Hótel Ísafjörður.

Blönduós 8. júní kl. 16.00. Eyvindarstofa (Athuga breytt staðsetning - ekki Félagsheimilið Blönduósi)

Eyjafjörður 8. júní kl. 20.30. Hlíðarbær.

Þistilfjörður 9. júní kl. 12.00. Svalbarðsskóli.

Egilsstaðir 9. júní kl. 20.00. Valaskjálf.

Höfn í Hornafirði 10. júní kl. 12.00. Nýheimar.

Selfoss 14. júní kl. 20.00. Þingborg.

Höfuðborgarsvæðið 15. júní kl. 20.00. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Opinn fjarfundur 16. júní kl. 12.00. Skráning auglýst síðar.

Í kynningu á fundunum segir að ráðherra vilji með þeim opna á frekara samtal og samráð við bændur um stefnumótunina en verkefnastjórnin hefur lagt til tillögur í 19 efnisköflum. Skjalið er í Samráðsgátt stjórnvalda til 26. maí nk. en einnig verður hægt að koma athugasemdum á framfæri á fundum ráðherra um landið og með tölvupósti til ráðuneytisins í netfangið postur@anr.is. 

•       Hér má finna umræðuskjalið Ræktum Ísland! (pdf)

•       Umræðuskjalið Ræktum Ísland (hljóðbók)

Hægt verður að nálgast upplýsingar um fundina á Facebooksíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og á vefsíðu ráðuneytisins.

Yfirlitssíðu um Ræktum Ísland! er að finna hér.