Beint í efni

Rabobank spáir mjólkurskorti 2013

03.10.2012

Alþjóðabankinn Rabobank, sem þekktastur er fyrir lánastarfsemi sína í landbúnaði, hefur nú gefið út skýrslu um mat á þróun mjólkurframleiðslunnar árið 2013. Bankinn spáir því að svo mikið muni draga úr framleiðslu á mjólk í heiminum á næstu 12 mánuðum að mjólkurskortur verði á heimsmarkaðinum. Þetta eru mikil tíðindi enda er offramleiðsla nú um stundir og því nokkuð fjarri að tala um skort.

 

Sérfræðingar bankans telja hinsvegar að gríðarlega hátt aðfangaverð, erfið veðurfarsskilyrði og lágt afurðastöðvaverð muni hratt reka skuldsett bú í þrot á næstu mánuðum, sem þar með falli út úr framleiðslunni. Samdráttur verði í framleiðslunni og það muni á móti kalla á verðhækkanir á heimsmarkaðinum á ný þar til jafnvægi næst og afurðastöðvaverð getur á ný endurspeglað raun framleiðslukostnað búanna/SS.