Beint í efni

Rabobank: spáir minni framleiðsluaukningu í Nýja-Sjálandi

06.09.2017

Líkt og við höfum greint frá fyrr á þessu ári þá er töluverður gangur í mjólkurframleiðslunni í Nýja-Sjálandi (sjá frétt um það með því að smella hér) en svo virðist sem teikn séu á lofti um að það muni hægjast verulega á þessum uppgangi á komandi árum. Þetta kemur amk. fram í skýrslu frá hollenska landbúnaðarbankanum Rabobank samkvæmt frétt í Dairy Industry Newsletter. Þar kemur fram að verulega hefur hægt á endurnýjun og fjárfestingum í frumframleiðslunni í Nýja-Sjálandi og það muni leiða til hægari framþróunar greinarinnar á komandi árum í samanburði við síðustu áratugi.

Sé litið til síðustu tveggja áratuga þá hefur meðalaukning mjólkurframleiðslunnar numið 4,1% á ári en Rabobank spáir því að þessi aukning dragist saman og verði um 1,6% á ári næstu fimm árin. Á sama tíma hefur afurðavinnslugeta vinnslustöðvanna verið byggð upp og er nú töluverð umframgeta til staðar. Það má því heita næsta víst að afurðastöðvarnar muni keppast um þá mjólkurlítra sem verða í boði og vonandi hefur það jákvæð áhrif á afurðastöðvaverðið og þar með heimsmarkaðsverð mjólkurvara/SS.