Beint í efni

Rabobank: horfið til Indlands!

07.10.2013

Samkvæmt áliti frá sérfræðingum Rabobank, sem sérhæfir sig í landbúnaði, er löngu orðið tímabært að afurðastöðvarnar í heiminum horfi meira til Indlands en það er lang stærsti neytendamarkaður fyrir mjólkurafurðir í heiminum. Indverski markaðurinn er hins vegar flókinn og ekki auðvelt að fóta sig á honum segir í áliti bankans.

 

Sérfræðingarnir telja að markaðurinn eigi eftir að vaxa verulega næstu fjögur til fimm árin og því sé mikilvægt að koma sér vel fyrir á þessum stóra markaði. Það verði best gert með samstarfi við innlendar afurðastöðvar en svo virðist sem íbúar í landinu treysti þeim betur en erlendum aðilum. Skýringin felst m.a. í því að dreifingarleiðir eru erfiðar og kauphegðun ólík því sem þekkist í hinum vestræna heimi. Hefðbundið markaðsstarf, eins og við þekkjum það, hentar því ekki í Indlandi og ætli afurðafélög að ná árangri í þessu stóra landi verði þau að tileinka sér þær leiðir sem íbúar landsins þekkja segir ennfremur í áliti sérfræðinganna/SS.