Beint í efni

Rabobank: ekki verðlækkanir í kortunum

27.08.2012

Rabobank, stærsta lánastofnun í landbúnaði á heimsvísu, hefur nú gefið út spá um verðþróun á kornmarkaði fram á næsta ár. Þar kemur fram sú skoðun sérfræðinga bankans að ekki sé útlit fyrir annað en stöðugt eða hækkandi verð á hráefnum til kjarnfóðurgerðar.

 

Eins og margoft hefur komið fram er skýringuna að finna í víðtækum uppskerubresti vegna þurrka og ótíðar í stærstu kornframleiðslulöndum heimsins. Rabobank styður þessa áætlun sína um stöðugt eða hækkandi verð með þeirri staðreynd að eigi að verða miklar breytingar á heimsmarkaðinum, þyrfti að koma til mestu verðlækkanir í sögunni – sem afar ólíklegt er að gerist í ljósi framangreindra staðreynda.
 
Það sem þó hefur klárlega áhrif á verðið er eftirspurnin og ljóst er að síhækkandi verð hefur heftandi áhrif á eftirspurnina og svo virðist sem slíkt sé byrjað að gerast með sojabaunir á heimsmarkaðinum. Þó er það staðreynd að þrátt fyrir að sögulegt hámarksverð á sojabaunum hafi nú verið frá því í júní sl. virðist eftirspurnin frá Kína enn vera stöðug svo etv. „þarf“ verðið að hækka enn meira til þess að draga úr eftirspurninni, segja sérfræðingarnir hjá Rabobank.
 
En það er ekki einungis kornuppskera þessa árs sem er og verður dýr. Rabobank er þegar farinn að vara við því að næsta árs uppskera kunni að verða á svipuðum nótum. Þrátt fyrir að markaðsaðstæður í raun kalli á stóraukna framleiðslu á hveiti, þá býst bankinn ekki við að stórar sveiflur verði. Skýringin felst meðal annars í þeirri staðreynd að stórt landbúnaðarland er nú þegar upptekið, t.d. í Bandaríkjunum, í framleiðslu á plöntum til orkuvinnslu og ekki er hægt að draga úr þeirri framleiðslu til skemri tíma litið.
 
Talið er að í vetur verði stóraukin ásókn í hveiti á heimsmarkaðinum, sér í lagi í löndum sem búa við uppskerubrest. Þar vantar nefninlega ekki bara korn, heldur líka gróffóður. Vegna erfiðra aðstæðna býst Rabobank ekki við því að bændur bregðist við því með því að slátra nautgripum sínum, heldur reyni þeir að brúa bilið fram á næsta sumar með aukinni kjarnfóðurgjöf. Gangi þessi spá Rabobank eftir eru því hér enn ein rökin fyrir því að vonir um verðlækkun á hrávörumarkaði eru litlar/SS.