Beint í efni

Próteinverksmiðja vígð á Sauðárkróki á morgun

20.10.2017

 

Heilsuprótein ehf. býður til vígsluhátíðar nýrrar verksmiðju sem vinnur hágæða prótein úr ostamysu í Mjólkursamlaginu á Sauðárkróki, laugardaginn 21. október 2017  kl. 15.30.

Heilsuprótein ehf. er fyrirtæki í sameiginlegri eigu Mjólkursamsölunnar ehf. og Kaupfélags Skagfirðinga svf. Sá hluti verksmiðjunnar sem nú verður tekinn í notkun markar tímamót í umhverfismálum mjólkuriðnaðarins á Íslandi. Þar verður unnið hágæða próteinduft úr mysunni sem fellur til við ostagerð á Norður- og Austurlandi og runnið hefur til sjávar fram að þessu.

Síðari áfangi verksmiðjunnar, sem vonast er til að komist í gagnið eigi síðar en á árinu 2019, mun vinna etanól (alkóhól) úr mjólkursykrinum í mysunni. Eftir síðari áfangann mun einungis hreint vatn renna til sjávar úr ostasamlögunum á Norður- og Austurlandi.

Samhliða því að leysa stórt umhverfismál verður til virðisaukandi starfsemi fyrir mjólkuriðnaðinn með framleiðslu á þurrkuðu mysupróteini og etanóli, sem vonandi gefur tækifæri á næstu árum og áratugum til verulegrar verðmætasköpunar og gjaldeyrisskapandi framleiðslu.

Við hvetjum alla kúabændur og aðra áhugasama um að mæta á svæðið og fagna þessum stóra áfanga.