Beint í efni

Próteinsala 115,3 milljónir lítra – 55% aukning smjörsölu á áratug

14.09.2012

Samkvæmt nýju söluyfirlit Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði, er 12 mánaða (sept. ’11- ágú. ’12) sala á próteingrunni 115,3 milljónir lítra, það er 1,1% aukning frá árinu á undan. Salan er því orðin meiri en sem nemur greiðslumarki mjólkur, sem eru mjög jákvæð tíðindi fyrir kúabændur. Sala á fitugrunni undanfarna 12 mánuði er nú orðin 113,3 milljónir lítra, sem er 2,3% aukning frá fyrra ári. Eins og fram kom hér á naut.is á dögunum var mjög góð sala á smjöri í liðnum ágústmánuði. Þegar þróun smjörsölu undanfarinn áratug er skoðuð, kemur í ljós að sala á smjöri hér á landi hefur aukist um 55% síðan 2002. Í ágúst það ár var 12 mánaða sala á tæplega 600 tonn, en undanfarna 12 mánuði er hún yfir 900 tonn. Aukningin er 55% og hefur verið jöfn og stöðug allt tímabilið.

 

Innvigtun mjólkur síðustu 12 mánuði 126,8 milljónir lítra sem er aukning um 3,4%. Innvigtun ágústmánaðar var hins vegar 4,9% minni en í sama mánuði í fyrra, eða 10,5 milljónir lítra./BHB