Beint í efni

Prófessor Baldur bullar!

02.09.2010

Í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær var rætt við prófessor Baldur Þórhallsson og Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur ritstjóra Smugunnar, um stjórnmálaviðhorfið, breytingar á ráðherraskipan, inngöngu Íslands í ESB og sitthvað fleira. Hlusta má á viðtalið með því að smella hér. Í viðtalinu hélt prófessorinn því fram að „matarverð á Íslandi væri 20-50% hærra en í Danmörku og Evrópusambandinu“. Því miður er lítið hægt að kalla þessar fullyrðingar annað en rakalaust bull. Hagstofa Íslands kynnti þann 29. júní sl. niðurstöður á evrópskum verðsamanburði á mat, drykkjarvöru og tóbaki, eins og sjá má hér. Þar kemur fram að verð matvæla væri 4% hærra hér á landi en að meðaltali í 27 ríkjum Evrópusambandsins, mælt í evrum. Þegar rýnt er í

talnaefni könnunarinnar má sjá að matarverð í Danmörku er um 30% hærra en hér á landi; vísitala matarverðs er 104 fyrir Ísland, meðan hún er 134 fyrir Danmörku. Ummæli um áhrif tollabreytinga á verð innfluttra matvæla voru jafnvel enn fjarstæðukenndari. Mat prófessorinn þau til hækkunar upp á 2-400%.

 

Greinilegt er að ýmsir aðilar í samfélaginu gleyma því að lesa heima þessa dagana.

 

Á heimasíðu prófessor Baldurs kemur síðan fram að efst á lista yfir núverandi rannsóknir hans þessa dagana, eru „Samningsmarkmið og samráð íslenskra stjórnvalda við hagsmunaaðila í aðildarviðræðum Íslands við ESB: Sjávarútvegur, landbúnaðar- og byggðamál og uppbyggingarstefna“. Vonandi verður sannleikurinn ekki umgenginn af jafn mikilli léttúð þar, eins og gert var í framangreindu viðtali.