Pólland bannar loks hefðbundna halal-slátrun
25.01.2013
Frá og með nýliðnum áramótum hefur verið óheimilt að slátra skepnum í Póllandi með svokallaðri hefðbundinni halal-aðferð. Halal-slátrun er af trúarlegum toga og byggir á múslimatrú og felst í því að dýrinu er slátrað með því að vera skorið á háls en án þess að vera svipt meðvitund áður eins og hefðbundið er. Um leið og dýrið er skorið er farið með trúarleg orð um leið svo neyta megi kjötsins af bestu lyst.
Fram til áramótanna mátti slátra með þessum hætti í Póllandi en eftir að aðferðin var kærð til stjórnarskrárdómstóls í landinu og þar dæmt að aðferðin stríddi gegn ákvæðum um góða meðferð skepna, hefur s.s. verið lagt blátt bann við slátrunaraðferðinni. Raunar er svo einnig í flestum löndum Evrópu og hafa hófsamir trúarleiðtogar múslima meira að segja gefið út að sé dýrið fyrst svipt meðvitund áður en blóðgun fer fram, þá sé trúræknum óhætt að snæða kjötið/SS.