Beint í efni

Gull 21. aldar verða matvæli

14.02.2015

Gull 19. aldar var gull, gull 20. aldar olía en gull 21. aldar verða matvæli. Eðlilega gátum við Íslendingar ekki tekið þátt í æði 19. og 20. aldar en öðru máli gegnir með framleiðslu á landbúnaðarvörum á 21. öldinni. Nóg er til af hreinu vatni – og ræktarlandi enn sem komið er. Þær eru því umhugsunarefni þeim er hér skrifar raddir þeirra í þjóðfélaginu sem berjast fyrir hömlulausum innflutningi landbúnaðarvara.


 


Tollvernd á viðkvæmum vörum (mjólk, kjöti, eggjum) hefur um langt skeið verið við líði hér á landi með það fyrir augum að vernda innlenda framleiðslu fyrir erlendri samkeppni  og er Ísland ekki eitt um það. Þessi tollvernd hefur reyndar gefið mikið eftir og má í því sambandi nefna að magntollur í kjöti, ostum og unnum kjötvörum hefur verið í sömu krónutölu frá þvi honum var komið á 1995.


 


Því skal ekki neitað að innlend landbúnaðarframleiðsla stenst illa samanburð við innflutningsverð (heimsmarkaðsverð auk flutningskostnaðar til landsins) og skapast það einkum af legu landsins,örsmæð markaðar,veðurfari, stífum kröfum um dýravelferð og alltof háu vaxtastigi.  Í skýrslu starfshóps um tollamál á sviði landbúnaðar (des 2014) má sjá að framleiðendaverð á mjólk er 30% hærra (rúmlega 80% hærra 1995), svínakjöti 50% hærra, alifuglakjöti 230% hærra, eggjum 140% hærra en verð á nauta- og lambakjöt er á pari, merkilegt nokk.


 


Þeir sem dýpst taka í árinni benda ítrekað á að íslensk landbúnaðarframleiðsla sé bæði dýr og óhagkvæm – og því réttast að flytja bara allt heila klabbið inn – íslenskum neytendum til hagsbóta. Niðurgreiðslur megi leggja af og allir verða glaðir. Setjum svo að þetta verði gert – hvað þýðir það í raun fyrir íslenskt þjóðfélag? Er ekki einhver fórnarkostnaður í bakgarðinum? Talað er um að bein störf og afleidd í landbúnaði séu um 15.000. Gefum okkur síðan að 2/3 hlutar þeirra glatist. Þjóðhagslegur kostnaður vegna þessa aukna atvinnuleysis hljóðar uppá 50 milljarða á ári miðað við að hver aðili án atvinnu kosti 5 milljónir árlega (beinn kostnaður að viðbættum töpuðum tekjum).


 


Þetta er nú reyndar dálítið groddalegt dæmi en ber engu að síður að hafa til hliðsjónar þegar tilslakanir í tollvernd eru til umræðu. Ef umtalsverðar tilslakanir verða að veruleika munu störf tapast í miklum mæli. Atvinnuleysi nær nýjum hæðum. Jaðarbyggðir munu eyðast. Mannlífið í landinu verður litlausara og má því reikna með neikvæðum áhrifum á ferðamannaiðnaðinn. Íslenskir neytendur (all margir án atvinnu) geta þó hugsanlega leyft sér að kaupa ódýran kjúlla í lágvöruverðsverslun. Glæsileg framtíðarsýn. Áfram Ísland.


 


Okkar ágæti fjármálaráðherra lét hafa það eftir sér í blaðaviðtali nú skömmu fyrir jól að hann væri hlynntur lækkun tolla á ýmsar landbúnaðarvörur og einnig að niðurgreiðslur í hefðbundnum landbúnaði þyrftu að minnka. Þetta eru kaldar kveðjur til okkar bænda og um leið fádæmalaus þjónkun við efnahagsreikninga verslunarfyrirtækjasem munufitna eins og púkinn á fjósbitanum forðum. Og vorunógu feitir fyrir.


 


Og hann er aldeilis ekki einn um þessa skoðun því mér sýnist að býsna margir á hinu háa Alþingi aðhyllist ótakmarkað frelsi í viðskiptum milli landa og láti hjá líðast að horfa á málið frá öllum hliðum. Er ekki hugsanlegt að þetta frelsi sé of dýru verði keypt? Er þetta raunverulega það sem íslenska þjóðin vill? Sem betur fer veitir stjórnarsáttmálinn aðhald í þessu máli enda kveður hann á um aukningu matvælaframleiðslu. Er ekki ráð að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd í stað þess að tönglast fram og til baka á innflutningi matvæla?


 


Trausti Þórisson


Hofsá