Beint í efni

Íslenski eftirlitsiðnaðurinn

11.02.2012

Á undanförnum árum hefur eftirlitsiðnaðurinn vaxið hratt hér á landi og segja sumir að enginn iðnaður hafi vaxið jafn hratt á stuttum tíma. Bændur hafa ekki farið varhluta af þessari eftirlitsaukningu en endalausar reglugerðir hafa verið settar á með tilheyrandi eftirlitsgjöldum. Oftar en ekki eru þessar reglugerðir lítið kynntar fyrir bændum og jafnvel ógjörningur að fylgja þeim eftir.

Á undanförnum misserum hefur ítrekað komið í ljós að þrátt fyrir allar þessar reglugerðir og eftirlit virðist samt að þegar koma upp mál þar sem reynir á, virðast allar þessar eftirlitsstofnarnir vera máttlausar og skorta úrræði og dug. Ákvarðanir Matvælastofnunar (Mast) um að greina ekki strax frá kadmíum í áburði og að heimila Ölgerðinni að klára klára birgðir sínar af iðnaðarsalti sem selt var til matvælavinnslu hafa til dæmis vakið upp fjölmargar spurningar um trúverðugleika stofnunarinnar. Þegar upp komst um díoxínmengunina í Skutulsfirði bentu menn hver á annan og engin virtist bera ábyrgð eða vita hvernig taka átti á málinu.


 


Stundum virðist allur krafturinn fara í eltast við smávægilegri atriði eins og hvort kötturinn eða hundurinn komist inn í fjós eða hvor eitt eða tvö merki eru í eyrum sláturgripa. Nær væri að stofnunin væri tilbúin til aðgerða strax þegar upp koma mál eins og illur aðbúnaður dýra og mengunarmál, svo eitthvað sé nefnt. Fyrir nokkrum árum fann Mast sig knúið til að kæra fjölmarga bændur til lögreglu þar sem þeir höfðu sent gripi til slátrunar sem ekki voru með lögleg merki í eyrum. Hart var tekið á þessu, enda grafalvarlegt mál. Hvað með Ölgerðina og Skeljung? Ekki hafa borist fréttir af því að forstjórar þeirra hafi verið kærðir til lögreglu eða boðaðir í skýrslutöku.  Má þá af þessu draga þá ályktun að það sé alvarlegra mál að senda grip sem týnt hefur eyrnamerki í sláturhús en að selja áburð sem ekki stenst gæðakröfur, eða nota iðnarsalt í matvæli?


Annað sem vakið hefur athygli mína undanfarinn ár er skortur á að eftirlit milli landshluta sé samræmt. Þannig virðist það vera í valdi hvers eftirlitsaðila fyrir sig hversu strangur hann er á reglugerðinni og á hvað skal leggja áherslu.


Kadmíum og iðnaðarsaltsmálið hefur dregið mjög úr trúverðugleika Mast og vakið upp þær spurningar hvort kominn sé tími til að starfsemi Mast og verklagsreglur verði endurskoðuð. Getur verið að MAST sé fallin í þá gryfju að vera orðin að sjálfhverfri stofnun þar sem aðalatriðið er að setja á eins mikið af eftirlitsgjöldum og hægt er til að reka sig, en sé gjörsamlega ófær um að taka á þeim vandamálum sem henni ber að gera?


 


En það sem alvarlegast er í þessu öllu er að ákvarðanir Mast hafa skaðað það góða orðspor sem íslenskur landúnaður hefur haft. Orðspor sem bændur hafa lagt sig fram við að viðhalda og efla.


 


Jóhanna Hreinsdóttir
Káraneskoti