Alveg milljón!
27.01.2014
Eins og fram kom á haustfundum Landssambands kúabænda í október sl., standa kúabændur þessa lands nú frammi fyrir meiri söluaukningu mjólkurafurða, sérstaklega hinna fituríkari, en dæmi eru um. Því til staðfestingar er aukning greiðslumarksins um 9 milljónir lítra, úr 116 milljónum í 125 milljónir lítra, auk yfirlýsingar mjólkuriðnaðarins um að greiða fullt afurðastöðvaverð fyrir alla innvegna mjólk, bæði á því ári sem nýliðið er og því sem er að stíga sín fyrstu spor. Það er því ljóst að fyrir síðasta líterinn sem hver framleiðandi leggur í afurðastöð fæst gildandi lágmarksverð, 82,92 kr/ltr. Það er mikil breyting frá síðasta sumri, þegar verð á umframmjólk var á bilinu 42-47 kr/ltr., sem miðaðist að mestu við verðþróun á undanrennudufti og smjöri á heimsmarkaði, þar sem verðið ræðst af talsverðu leyti af birgðastýringu stórra mjólkursamlaga.
Nú liggur það fyrir að árið 2013 var heildarframleiðslan hér á landi 122,9 milljónir lítra, sem er 6,9 milljónir lítra umfram greiðslumarkið. Hefði umframmjólkurverðið eins og það var síðast ákveðið, gilt út árið þá hefðu þeir rúmlega 380 framleiðendur sem framleiddu þessar 6,9 milljónir lítra fengið rétt um 300 milljónir kr. fyrir hana. Raunin varð hins vegar, vegna algerlega einstakrar söluþróunar á mjólkurafurðum, að þeir fengu greiddar tæpar 580 milljónir kr. fyrir umframmjólkina. Mismunurinn er rúmlega 270 milljónir kr. Það er svipað og síðasta ákvörðun verðlagsnefndar um leiðréttingu á lágmarksverði til bænda, skilaði greininni í aðra hönd, miðað við greiðslumark síðasta árs.
Nú er það vissulega svo, að þessar tvær aðgerðir ganga ekki jafnt yfir alla framleiðendur; leiðrétting á lágmarksverði skilar sér til allra greiðslumarkshafa, en ákvörðun um verð á umframmjólk hefur einungis áhrif á hag þeirra sem hana framleiða. Fyrir þá sem framleiða eitthvað lítilræði umfram greiðslumarkið, eru áhrifin vitanlega óveruleg. Þau eru hins vegar umtalsverð fyrir þá, sem hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að framleiða talsvert magn umfram greiðslumarkið, eða hafa ekki náð að útvega sér greiðslumark til samræmis við sína framleiðslu. Tekjur framleiðanda sem fór 25.000 ltr. framyfir greiðslumarkið, hafa aukist um eina milljón kr. vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru.
Eins og áður segir er greiðslumark þessa árs 125 milljónir lítra og þörf er á tveimur milljónum lítra þar til viðbótar, til að koma birgðastöðu í gott horf. Heildarframleiðsla ársins 2014 þarf því að vera 127 milljónir lítra, rúmlega fjórum milljónum lítra meiri en í fyrra. Það þýðir tekjuaukningu fyrir greinina upp á tæplega 400 milljónir kr. Í þessu samhengi er mikilvægt að hafa í huga, að aðfangaverð hefur þróast með heldur skaplegum hætti að undanförnu. Engu að síður er afar mikilvægt að framleiðendur hugi vel að nýtingu aðfanga og nýti sér tiltæka ráðgjöf í þeim efnum, þannig að tekjuaukningin leiði til betri afkomu.
Ein af megin niðurstöðum viðhorfskönnunar Landssambands kúabænda, sem framkvæmd var á útmánuðum 2013, var að 62% svarenda hugðust auka mjólkurframleiðsluna á komandi árum. Nú hafa einstakar aðstæður skapast fyrir þorra framleiðenda að ná því markmiði sínu, án þess að stofna til verulegra útgjalda í formi kaupa á greiðslumarki. Með því skapast nýtt svigrúm fyrir greinina að sækja fram og stykjar stöðu sína til frambúðar.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda