Beint í efni

Helstu nýmæli í mjólkurreglugerð 2015

20.12.2014

 


Reglugerð um greiðslumark mjólkur og beinar greiðslur til bænda verðlagsárið 2015 hefur nú verið gefin út. Í henni er kveðið á um meiri aukningu á greiðslumarki en dæmi eru um í sögunni; úr 125 milljónum lítra á því ári sem senn er á enda, í 140 milljónir lítra árið 2015.


 


Sala mjólkurafurða á yfirstandandi ári stefnir í að verða rúmlega þremur milljónum lítra meiri á fitugrunni, en gert var ráð fyrir þegar greiðslumarkið var ákveðið undir lok ársins 2013. Lögum samkvæmt skal ákvörðun um greiðslumark byggja á áætlun um sölu næsta árs, að teknu tilliti til þróunar birgða. Undanfarin ár hefur umfang greiðslumarks ráðist af þeim efnaþætti mjólkurinnar sem meira selst af, en tillaga um slíkt var samþykkt á aðalfundi LK 2006. Á næsta ári er spáð 3,5% aukningu í sölu á fitugrunni, sem er um helmingur þeirrar aukningar sem verið hefur undanfarna mánuði. Auk þess þarf að auka birgðir á fitugrunni um 3 milljónir lítra, til að birgðastaðan geti talist í góðu horfi. Niðurstaðan er 140 milljón lítra greiðslumark, sem er meiri og skarpari aukning en dæmi eru um.


 

 


Þrátt fyrir að ágætlega horfi í mjólkurframleiðslunni um þessar mundir og hún slái ný met í hverjum mánuði, þótti rétt vegna þessarar miklu aukningar greiðslumarksins að setja ákvæði í reglugerðina sem tekur af allan vafa hvaða varðar þá stöðu sem upp kemur, ef heildarframleiðsla mjólkur verður minni en greiðslumarkið á komandi ári. Fari svo, skal ónotuðum beingreiðslum jafnað út á allt innvegið mjólkurinnlegg greiðslumarkshafa, eða eins og segir í 5.grein „Verði mjólkurframleiðsla minni en sem nemur heildargreiðslumarki þannig að bein­greiðslur ganga ekki út samkvæmt þessari reglu, skal ónotuðum beingreiðslum jafnað út á allt innvegið mjólkur­innlegg greiðslumarkshafa.“


 


 


Undanfarin ár hafa framleiðendur þurft að framleiða að lágmarki 90% af greiðslumarki, til að eiga rétt á óskertum A-hluta beingreiðslna. Í ljósi hinnar gríðarlegu söluaukningar undanfarna mánuði var ákveðið að hækka það hlutfall í 95% á yfirstandandi ári. Það var síðan niðurstaða síðasta aðalfundar LK að í núverandi stöðu framleiðslu og sölu mjólkurafurða, væri ekki annað forsvaranlegt en að gera kröfu um 100% framleiðsluskyldu til að fá greiddar fullar beingreiðslur. Ákvæði er um þetta í nýrri reglugerð


 


Þá eru, í samræmi við ályktanir aðalfundar LK, gerðar talsverðar breytingar á innbyrðis skiptingu beingreiðslna, sem allar hafa það markmiði að skapa hvata til aukinnar framleiðslu. Heildarupphæð beingreiðslna er 5.591,8 milljónir kr, samanborið við 5.466 milljónir á þessu ári. Að raungildi er hún óbreytt milli ára. Hlutdeild A-hlutans, sem greiddur er óháð framleiðslu hvers mánaðar að því tilskyldu að framleiðsla lögbýlisins sé a.m.k. 100% af greiðslumarki eins og áður sagði, fer úr 47,67% af heildarupphæðinni niður í 40%. B-hlutinn, sem greiddur er eftir framleiðslu allt að greiðslumarki hvers framleiðanda, er því sem næst óbreyttur, fer úr 35,45% að heildarupphæð beingreiðslna, niður í 35%. C-hlutinn, sem greiddur er eftir framleiðslu innan greiðslumarks eftir einstökum mánuðum, hækkar úr 16,88% í 25%. Innbyrðis skipting C-greiðslna milli mánaða er þannig að 15% upphæðarinnar greiðist mánaðarlega á tímabilinu júní-nóvember og 10% í desember. Ástæða þess að júnímánuði er bætt við, er sú að á þeim tíma dregur nokkuð hratt úr mjólkurframleiðslunni. Mikilvægt er að draga sem mest úr árstíðasveiflu framleiðslunnar til að tryggja jafnt og öruggt framboð mjólkur til vinnslu, enda leiðir það til aukinar skilvirkni og hagkvæmni á leið mjólkurinnar frá bændum til neytenda. Það skal sérstaklega áréttað að í tilfelli C-greiðsla dreifist allt greiðslumark hvers framleiðanda aðeins á þá mánuði sem þær ná til. Þannig fær framleiðandi með 200.000 lítra greiðslumark, sem leggur inn 200.000 lítra á tímabilinu júní-desember 2015 fullar C-greiðslur vegna þeirrar framleiðslu, jafnvel þó að heildarframleiðsla hans innan ársins verði mun meiri en greiðslumarkið segir til um.


 


Það eru einnig nýmæli í reglugerðinni, henni fylgja viðaukar með verklagsreglum um útdeilingu á óframleiðslutengdum og/eða minna markaðstruflandi stuðningi. Þessar breytingar eru mjög til bóta og auka gegnsæi í útdeilingu fjármuna, en þeir skiptast með eftirfarandi hætti milli einstakra verkefna: 98,2 milljónir renna til gras- og grænfóðurræktar, 54,8 m.kr. er varið til greiðslna sem tengjast gæðaskýrsluhaldi, 27,1 milljón kr. fer til stuðnings við nýliða í stétt mjólkurframleiðenda og 13,3 milljónir kr renna til Þróunarsjóðs búgreinarinnar.


Hin mikla eftirspurnaraukning sem orðið hefur síðustu misseri á mjólkurvörum hefur leitt af sér að eftirspurn eftir greiðslumarki til mjólkurframleiðslu nær algerlega horfið á yfirstandandi ári. 1. september sl. sendi einn aðili inn tilboð um kaup á 16.666 lítrum og 1. apríl sl. sendu tveir aðilar inn tilboð um kaup á 71.784 lítrum. 1. apríl 2013 sendu hins vegar 57 aðilar inn tilboð um kaup á 2.624.697 lítrum. Á þessum tveimur mörkuðum sem haldnir voru á líðandi ári, 1. apríl og 1. september urðu síðan einungis viðskipti með 47.219 lítra. Á markaði 1. nóvember, sem gildir fyrir komandi ár, bar síðan við að bæði var mjög lítið framboð og eftirspurn og heildar viðskipti einungis 48.654 lítrar. Þegar horft er til þess útlits sem er í framleiðslu og sölu mjólkurafurða næstu misseri og ár, bendir flest til að lítil sem engin viðskipti verði með greiðslumark undir gildandi fyrirkomulagi og þar með lokist að mestu fyrir nauðsynlegar tilfærslur framleiðsluheimilda milli bænda. Þetta er einkum bagalegt fyrir aðila sem eru að hefja búskap og hafa lítið sem ekkert greiðslumark, þeim mun að óbreyttu lítið sem ekkert nýtast þær breytingar sem lagðar eru til á fyrirkomulagi beingreiðslna. Þá er í þessari stöðu mjög snúið að flytja greiðslumark milli lögbýla, til að nýta betri húsakost og jarðnæði. Vegna þess hversu lítil hreyfing hefur verið á kvótamarkaði, hafa óskir um að gerðar verði undnaþágur frá gildandi fyrirkomulagi, sem heimili m.a. flutning greiðslumarks milli jarða við sérstakar aðstæður, orðið háværari. Allar slíkar undanþágur fela hinsvegar alltaf í sér hættu á að upp komi álitamál og því eðlilegra allir sitji við sama borð hvað þetta varðar. Þá grafa allar undanþágur sem gerðar eru undan virkni núverandi fyrirkomulags og því eðlilegra að það sé að fullu tekið úr sambandi meðan þetta ástand varir.


Ekki er vafi á að tilkoma kvótamarkaðarins um mitt ár 2010 var mjög til bóta við þær aðstæður sem þá ríktu, jafnaði aðstöðumun þeirra sem hallari fæti stóðu í þessum viðskiptum og hélt aftur af verðhækkunum á kvóta. Það var hinsvegar aldrei hugmyndin að stöðva viðskipti með þessu fyrirkomulagi og í ljósi þess er fullkomlega eðlilegt að skoða af alvöru þann kost að hvíla kvótamarkaðinn tímabundið. Það hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir þá sem í greininni ætla að starfa að kvótaverð hafi farið lækkandi á síðustu mörkuðum, slíkt lækkar álögur á búin og gerir þau samkeppnishæfari. Engin skynsamleg rök hníga að öðru en að verðið haldi áfram að lækka, sé horft til þess sem hér að framan greinir um mjólkurvörumarkaðinn og gildir þá einu hvernig viðskiptaumhverfið er.  Forsvarsmenn Landssambands kúabænda hafa í tvígang nú í haust rætt þessi mál við Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá ýmsum hliðum. Niðurstaða LK er sú, að við núverandi aðstæður sé æskilegast að gera kvótamarkaðinn óvirkan tímabundið. Ákvörðun um slíkt er þó í valdi ráðherra, en ekki er ljóst á þessari stundu hver niðurstaða hans verður.


 


Óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.


 


Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda