Beint í efni

Af dýralæknaþjónustu á þorra

25.01.2012

Frá því að ný reglugerð um dýralæknaþjónustu tók gildi hefur víða á landinu verið hávær umræða um að  búfjáreigendur fái ekki  viðunandi þjónustu á meðan eftirlitið er stóraukið og jafnvel meiri þungi  settur í eftirlitshlutann en þjónustu við dýraeigendur.


Ástæða er til að hafa áhyggjur af bæði velferð dýra í dreifbýli og álagi sem þessi óvissa skapar bændum. Vaktsvæði eru í mörgum tilfellum svo stór og erfið yfirferðar að ekki er einum dýralækni mögulegt  að sinna þeim eins og gert er ráð fyrir í reglugerðinni.


Sem dæmi má nefna að á þjónustusvæði sex, gæti dýralæknir sem er á vakt þurft  að fara frá Vopnafirð á Norðfjörð yfir þrjá fjallvegi, sem oft eru erfiðir yfirferðar eða að dýralæknir sem staðsettur er á Héraði þurfi að fara í vitjun bæði á Vopnafjörð og Seyðisfjörð eða Borgarfjörð sama dag. Þessi staða er uppi víðar á landinu og getur ekki talist ásættanleg, hvorki fyrir bóndann né dýralækninn.

Ríkisvaldið tók að sér að tryggja nauðsynlega almenna dýralæknaþjónustu til að tryggja dýravelferð í landinu. Þar hefur verið skorið niður, ekki eru alls staðar sólarhringsvaktir heldur einungis bakvakt og hefur verið mjög erfitt  að nálgast þau númer sem hringja á í, en auðvelt ætti að vera að lagfæra það ef vilji er fyrir hendi. Svæðunum hefur einnig verið fækkað. Þau eru orðin það stór að dýralæknar sem voru starfandi á sumum svæðunum treystu sér hreinlega ekki til að standa þessar vaktir né taka þjónustuna að sér. Þá voru kröfurnar sem settar voru í þjónustusamningunum þannig að miklar skyldur voru settar á dýralæknana og kusu því sumir að skrifa ekki undir.


 


Ljóst má vera að erfitt er að reka dýralæknisþjónustu á dreifbýlustu svæðunum á markaðslegum forsendum, en reyna verður að tryggja manneskjulegra umhverfi fyrir þá sem þarna vinna þannig að mögulegt sé fyrir dýralækna að koma til starfa á þessum dreyfbýlli svæðum.  Tryggja þarf  þjónustuna og skapa bændum á þessum svæðum öryggi í  starfi, því fátt er eins slítandi og að vera með mikið veika skepnu og ná ekki í dýralækni eða vita  að það tekur langan tíma fyrir hann að komast á svæðið.
Hvorki ráðuneytið né Matvælastofnun virðast hafa getað tekið á vandamálinu og þessar stofnanir vísa hver á aðra þegar bændur og dýraeigendur hafa haft samband við þær. Þetta er nokkuð sem verður að laga.


Því hlýtur það að vera krafa bænda og dýraeigenda að Matvælastofnun, sem á að fara með þessi mál, taki til endurskoðunar  dýralæknaþjónustu í dreifbýli og reyni að lagfæra þá annmarka sem komið hafa fram eftir að ný reglugerð kom til framkvæmda þann 1. nóvember síðastliðinn. Og einnig að nú þegar verði tryggð dýralæknaþjónusta á þeim svæðum þar sem enginn dýralæknir sótti um og ekki hafa náðst samningar .


Til umhugsunar: Það mætti skoða möguleika á því að bændur geti gert samning við sinn dýralækni um að hafa neyðarlager af lyfjum við hendina, sem þeir geti gripið til,fyrir gripi sem þurfa bráðameðferð, að höfðu samráði við dýrlækni sem myndi þá skrá lyfjagjöfina á viðkomandi grip.


Að lokum vil ég óska landsmönnum öllum gleðilegs árs og friðar.


 


Jóhann Gísli Jóhannsson, Breiðavaði.