Beint í efni

Ómur fortíðar

11.11.2014

Í nýjasta tölublaði Bændablaðsins er óvenju mikil umfjöllun um nautgriparæktina, það er í sjálfu sér fagnaðarefni að sá ágæti miðill sýni hryggstykkinu í hérlendri landbúnaðarframleiðslu áhuga. Þegar betur er að gáð, mætti þó ætla að viðtöl blaðsins við suma af þeim sem hafa umsjón með nautgripakynbótum og ræktunarstarfi hefðu verið tekin fyrir all mörgum árum, í allt öðru umhverfi en nú blasir við greininni. En eins og flestum ætti að vera kunnugt stendur búgreinin nú frammi fyrir meiri aukningu í eftirspurn á afurðum en dæmi eru um í sögunni. Eftir áratuga langt tímabil framleiðslutakmarkana eru bændur hvattir til að framleiða hver sem betur getur. Þetta er ótrúlegur viðsnúningur. Fyrir liggur að uppsöfnuð endurnýjunarþörf á framleiðsluaðstöðu er orðin mjög mikil líkt og glögglega kom fram í viðhorfskönnun LK.


 


Þá hafa að undanförnu heyrst kunnugleg stef um að draga þurfi úr stuðningi við greinina, að hún búi við of mikla vernd og stokka þurfi upp fyrirkomulag mjólkurvinnslu sem skilað hefur hagræðingu uppá á hátt í þrjá milljarða króna árlega. Látið hefur verið að því liggja í umræðunni að verðlagsnefnd búvöru sem ákveður lágmarksverð á mjólk til bænda sem og heildsöluverð á bróðurparti mjólkurafurða í landinu gangi fyrst og fremst erinda bænda og mjólkuriðnaðarins. En ef starf nefndarinnar er skoðað ofan í kjölinn, þá lætur í mínum huga mjög nærri því að þetta afurðasölufélag okkar mjólkurframleiðenda hafi verið þjóðnýtt í þágu almennings. Ef rýnt er í efnahagsreikining fyrirtækisins má glögglega sjá að varla hefur ein einasta króna orðið eftir inní fyrirtækinu af áðurnefndri hagræðingu.


 

 


Hvað þróun stuðningsgreiðslna áhrærir má t.d. benda á að raunlækkun stuðningsgreiðslna sl. áratug er 20%, skv. nýrri úttekt Landsbankans.


 


Gerð hefur verið tillaga að 140 milljón lítra greiðslumarki árið 2015 sem bíður, þegar þetta er ritað staðfestingar af hendi ráðherra landbúnaðarmála. Gangi tiltölulega varfærin söluáætlun  eftir ásamt lítilsháttar lagfæringu á birgðarstöðu mjólkurvara sem tilllaga þessi byggir á, mun sala á fitugrunni aukast um ríflega 20 milljónir lítra á rúmum tveimur árum, eða heldur meira en ársframleiðsla í  Rangárvallasýslu, heimahéraði undirritaðs. Í nautakjötsframleiðslunni er staðan þannig að líkast til verður innflutningur á beinlausu nautakjöti u.þ.b. 1.000 tonn á þessu ári, að andvirði hátt í einn milljarð króna eða tæpar þrjár milljónir á degi hverjum virkum jafnt sem helgum. Innflutningurinn er vitanlega misjafn eftir skrokkhlutum, en almennt má segja að til að fá 1.000 tonn af beinlausu nautakjöti þarf um 1.600 tonn af skrokkum; nýtanlegar afurðir eru um 60% af fallþunga. Nokkuð af þessum innflutningi má rekja til þess að slátrun á mjólkurkúm hefur dregist saman um 2.000 gripi undanfarið ár, vegna framangreindrar eftirspurnar eftir mjólkurafurðum. Óvíst er hvenær jafnvægi kemst aftur á í þeim efnum, en þó svo það gengi eftir dugar það einungis til að auka kjötframleiðsluna um 400 tonn. Undanfarin ár hefur 2.500-3.000 kálfum verið slátrað ár hvert. Jafnvel þó svo ólíklega færi að hver einn og einasti þeirra yrði settur á, myndi það bara auka framleiðsluna um 5-600 tonn. Hámarks aukning framleiðslu, við núverandi aðstæður er því ríflega helmingur af því sem hún þyrfti að vera. Vandamál nautakjötsframleiðslunnar liggur að mínu mati í gríðarlega löngum eldistíma sem leiðir af sér slaka afkomu; hér á landi tekur að jafanaði um tvö ár að ala naut til slátrunar, sem skilar um 230 kg fallþunga. Í Noregi er sambærilegur tími 17-18 mánuðir og fallþunginn 300 kg hjá ungnautum af NRF kyni.


 


Margt bendir til þess að landið sé að byrja að rísa í efnahagslegum skilningi. Það leiðir hugann að brýnasta viðfangsefni greinarinnar á hverjum tíma; að hún geti boðið fólkinu sem hana stundar samkeppnishæf starfskjör miðað við aðrar greinar.


 


Sá sem les upptalningu af þessu tagi hlýtur að hugsa með sér að viðfangsefni þeirra sem hafa umsjón með nautgripakynbótum og ræktunarstarfi hljóti að vera ærin við aðstæður sem þessar; verið sé að velta við hverjum steini til að finna allar færar leiðir til að bregðast við mestu áskorunum sem greinin hefur á sögulegum tíma nokkru sinni staðið frammi fyrir .


 


Það er hins vegar ekki björguleg sú framtíðarsýn sem birtist í viðtölum við þessa sömu aðila um þessi mál í áðurnefndu Bændablaði; þrátt fyrir að allir helstu annmarkar núverandi ræktunarstarfs séu fúslega viðurkenndir, þá er ekki að sjá að það standi til að gera neitt sem heitið getur til að breyta því.


„Lögð er rík áhersla á stíga verði ákaflega varlega til jarðar varðandi innflutning á erfðaefni til kynbóta á kúastofninum“. Svo því sé nú til haga haldið þá er hartnær aldarfjórðungur síðan fyrst voru reyfaðar hugmyndir um nauðsyn þess að kynbæta kúastofninn með innflutningi erfðaefnis á vettvangi Landsambands kúabænda. Ég hefði haldið að það gæti flokkast undir það „að stíga ákaflega varlega til jarðar“þó forsvarsmenn samtakanna vilji nú fara að sjá til lands í þessum efnum.


Ennfremur eru tekin dæmi af framþróun í nyt, sem vissulega hefur verið talsverð. Staðan þar er þó ekki betri en svo, að núverandi meðalnyt kúa á Íslandi er sú sama og var í Svíþjóð um það leyti sem sagan af Emil í Kattholti var kvikmynduð. Því er slegið upp að lítið sé um  kálfasjúkdóma sem vissulega má til sanns vegar færa, en hinsvegar er í engu getið um að tíðni dauðfæddra kálfa er hér á landi  miklu meiri en í nálægum löndum. Þá er talsvert gert með skyldleikarækt í þeim kúastofnum þar sem hún er mest; að í þeim sé virk stofnstærð 35-40 einstaklingar. Minnt skal á í því samhengi að á ráðstefnu fagráðs um nautgripakynbætur sem haldin var fyrir um þremur árum kom fram að virk stofnstærð hér á landi væri um 60 gripir og hefði hún farið ört minnkandi. Þá er klykkt út með því að lítil von sé til þess að bændur hér á landi geti hagnýtt sér tækni á borð við kyngreiningu sæðis, eða úrval á grunni erfðamarka; við höfum dregist afturúr í flestu tilliti og eigum bara að gera það áfram. Þær fregnir berast nú frá Norðurlöndunum, að sala á sæði úr nautum sem valin hafa verið á grunni erfðamarka, „genomisk selektion“, sé orðin meiri en úr nautum sem valin hafa verið á grunni hefðbundinna afkvæmaprófana. Notkun á kyngreindu sæði eykst um þriðjung milli ára í Danmörku og býr m.a. til alveg nýtt svigrúm til kjötframleiðslu með holdablendingum. Þessi þróun kemur íslenskum kúabændum auðvitað ekkert við og þeir eiga helst að láta hana fara alveg framhjá sér. Maður upplifir sig svolítið eins og maður sé staddur í veislu þar sem bornir eru fram gómsætir og girnilegir réttir sem öðrum eru ætlaðir, okkur virðist að einungis ætlað það hlutverk að horfa á veislugestina.


 


Mikil áhersla er lögð á að ekki megi raska góðri sjúkdómastöðu landsins og undir það skal tekið. Enda hefur verið unnið tvenns konar áhættumat varðandi innflutning á erfðaefni nautgripa, sem sýnir að líkur á að sjúkdómar flytjist til landsins með slíkum innflutningi eru hverfandi. Enda er það svo að allstaðar í veröldinni þar sem nautgriparækt er alvöru atvinnugrein þar flytja menn erfðaefni þvert á landamæri og litið til þess að þær smitvarnir sem og einangrun kynbótastöðvanna  sé fullnægjandi smitvörn. Þessar kynbótastöðvar eiga jú allt sitt undir því að dreifa ekki sjúkdómum milli landa með seldu erfðaefni. Um verndaráætlun fyrir íslenska kúastofninn er það að segja, í fyrsta lagi þá er slík áætlun á ábyrgð stjórnvalda ekki einstakra bænda né samtaka þeirra og þaðan af síður bera einstakir starfsmenn okkar ábyrgð á því að slík áætlun sé unnin. En sem innlegg í slíka umræðu bendi ég á að mjög einfalt er að útfæra slíka verndaráætlun með því að gera það efnahagslega ábatasamt að halda hreinræktaða gripi af landnámskúastofninum. Á aðalfundi samtakanna á liðnu ári var þeirri hugmynd velt upp að þeir sem væru með hreinræktaðar landnámskýr nytu hærri stuðningreiðslna. Afar einfalt er að mínu mati að beita gripagreiðslunum í þessu skyni og bendi á að fyrir því er fordæmi þe. með tvöföldum gripagreiðslum sem greiddar eru út á holdakýr. Ennfremur eru gripagreiðslurnar þannig upp settar að ef fækkun verður í stofninum, hækkar upphæðin sem greidd er á hvern grip.


 


Fyrr á þessu ári átti ég þess kost að fara á fagráðstefnu danskra kúabænda í Herning. Þar kom m.a. fram að stefna þeirra er að meðalnytin verði komin í 11.000 kg/kú á næstu fjórum árum. Hún er 9.500 kg í dag. Því er oft kastað fram í umræðunni að íslenski kúastofninn eigi svo og svo mikið „inni“. Síðustu 6 ár hefur nytaukningin hér verið 25 kg/ári að meðaltali. Næstu tíu ár þar á undan var hún 125 kg/ári. Danirnir stefna á 3-400 kg/ári! Við áttum þess einnig kost í ferðinni að heimsækja formann félags mjólkurframleiðenda þar í landi, hinn hálf Íslenska Kjartan Poulsen. Þar hittist svo skemmtilega á að ein kýrin (af um 400) var að bera þegar okkur bar að. Það vakti athygli okkar ferðafélaganna að bóndanum virtist ekki detta til hugar að veita henni neina aðstoð, enda gerðist þess ekki þörf. Kýrin bar hjálparlaust á nokkrum mínútum og virtist ekki hafa mikið fyrir því.


 


Að lokum þá blasir það við, að íslenskir kúabændur hafa mikið að sækja í ræktunarstarf kolleganna í nágrannalöndunum líkt hér fyrir ofan hefur verið rakið. Þá er rétt að geta þess hér að þeim bæjum standa okkur íslenskum kúabændum allar dyr opnar. Til að takast á við áskoranir í nálægri framtíð er mikilvægt að við kúabændur brettum nú þegar upp ermar, í stað þess að láta glepjast af bergmáli úr fortíðinni.


 


Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey 2.


Meðstjórnandi Landssambands kúabænda