Kvótakerfi í fjörbrotum
10.11.2015
Núverandi samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var undirritaður 11. maí 2004 og tók hann gildi 1. september 2005. Samningurinn hefur tvisvar verið framlengdur, fyrst 2009 og svo aftur 2012. Þegar hann rennur út þann 31. desember 2016, verða því liðin rúmlega 12 ár frá undirritun hans. Á þessum tímamótum er því ekki úr vegi að rifja upp hvernig umhorfs var í greininni þegar samningurinn var gerður. Í upphafi ársins 2004 var fjöldi greiðslumarkshafa í mjólkurframleiðslu 902. Í dag eru þeir um 640 talsins. Mjólkurframleiðendum hefur því fækkað á samningstímanum um 30%. Árið 2004 var tekið við mjólk frá bændum á níu stöðum á landinu; Reykjavík, Búðardal, Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Vopnafirði, Egilsstöðum og Selfossi. Í dag er tekið á móti mjólk á fimm af þessum stöðum. Greiðslumark mjólkur verðlagsárið 2003-2004 var ákvarðað 105 milljónir lítra en vegna góðrar sölu mjólkurvara var á þessum tíma ákveðið að greiða framleiðendum fullt verð fyrir próteinhluta þriggja milljóna lítra mjólkur til viðbótar, en alls var framleiðslan það verðlagsár 109,7 milljónir lítra. Meðalbúið 2004 framleiddi því um 120 þúsund lítra mjólkur. Greiðslumark yfirstandandi árs er 140 milljónir lítra og framleiðslan verður líklega um 144 milljónir lítra. Meðalbú dagsins í dag framleiðir því um 225 þúsund lítra og hefur því stækkað um 85% á þessum 12 árum. Árið 2004 voru viðskipti með greiðslumark með öðrum hætti en í dag og því örðugra að öðlast yfirsýn yfir verðþróun þess, verð greiðslumarks árið 2004 mun þó hafa verið um 250-280 kr/ltr, eða mjólkurverðið (afurðastöðvaverð+stuðningsgreiðslur) sinnum 3,5 eða þar um bil. Eftir að nýr samningur hafði verið undirritaður hækkaði verð greiðslumarks mjög mikið og fór verðið á tímabili yfir 400 kr/ltr árið 2005, eða fimmfalt mjólkurverð til bænda. Það jafngildir tæplega 700 kr/ltr í dag.
Samningaviðræður vegna búvörusamninga hafa nú staðið í hálfan annan mánuð. Samninganefnd kúabænda gekk til þeirra viðræðna nestuð ítarlegri ályktun sl. aðalfundar LK um samningsmarkmið búvörusamninga, ásamt almennt orðaðri ályktun búnaðarþings um sama efni. Í ályktun LK er m.a. kveðið á um að á samningstímanum, sem verði að lágmarki 10 ár, skuli horfið frá kvótakerfinu og að eitt verð skuli greitt fyrir alla mjólk. Af gefnu tilefni skal á það minnt að umrædd ályktun var á samþykkt samhljóða á fundinum. Lesendur eru hvattir til að kynna sér innihald þessarar ályktunar sem og umfjöllun aðalfundarins um hana sem aðgengileg er hér á vef samtakanna undir flipanum fundargerðir. Því er það svo að mínu áliti að leiðarvísir forsvarsmanna samtakanna er í meginatriðum afar skýr um það hvert skal halda í þessum efnum.
Ef þessar áherslur ná fram að ganga munu þær fela í sér miklar breytingar á starfsumhverfi kúabænda, kvótakerfi hérlendrar mjólkurframleiðslu á um þessar mundir 30 ára afmæli en umdeild útfærsla þess á sínum tíma, var einn megin drifkrafturinn að stofnun Landssambands kúabænda, þann 4. apríl 1986. Í stefnumörkun LK til ársins 2021, sem samþykkt var á aðalfundi 2011 var m.a. lagt til að „unnið verði að breytingu á kvótakerfinu, þannig að ríkisstuðningur nýtist betur til lækkunar framleiðslukostnaðar“ og jafnframt að LK muni við gerð nýs mjólkursamnings leggja áherslu á „að stefnt verði að breyttu fyrirkomulagi ríkisstuðnings í þá átt að draga úr tilhneigingu hans til að eigngerast“. Þær áherslubreytingar sem lagðar eru til af hálfu samtakanna í núverandi samningaviðræðum um starfsumhverfi greinarinnar ættu af þessum sökum ekki að koma neinum á óvart þar sem þær eru ekki aldeilis nýjar af nálinni.
Sú staðreynd, að það stuðningsfyrirkomulag við mjólkurframleiðsluna sem hefur haft lang mest vægi í tæplega aldarfjórðung, beingreiðslurnar, hefur mjög mikla tilhneigingu til að eigngerast, er því að mínu áliti hinn stóri Gordionshnútur sem höggva þarf á í nýjum samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar. Frá því að framsal stuðningsins hófst fyrir meira en 20 árum, er samanlagt umfang greiðslumarksviðskipta um 68 milljónir lítra, að andvirði rúmlega 28 milljarðar króna á núvirði. Í fyrirliggjandi gögnum er eitthvað um að „sama“ greiðslumarkið sé tvítalið, þ.e. að það hafi gengið kaupum og sölum oftar en einu sinni. Fjármagnskostnaðurinn sem ofangreind viðskipti höfðu í för með sér er hér undanskilinn með öllu, en ljóst er að hann nemur mjög mörgum milljörðum króna. Þessi kostnaðarliður hefur því verið greininni mjög þungur baggi um langt árabil og leitt til þess að gríðarlegt fjármagn hefur runnið frá henni, til fyrrverandi bænda og fjármálastofnana. Það má m.a. lesa um áhyggjur aðalfundarfulltrúa af háu greiðslumarksverði í svo að segja hverri einustu fundargerð aðalfundar LK frá síðustu aldamótum. Frá og með 2011 var heimild til afskrifta á greiðslumarki felld út úr skattalögum, þannig að einhverjir framleiðendur eru í þeirri fráleitu stöðu að greiða tekjuskatt af þeim fjármunum sem þeir nota til að greiða af lánum vegna greiðslumarkskaupa.
Fyrir rúmri viku var haldinn tilboðsmarkaður með greiðslumark. Einn aðili keypti rúmlega 170.000 ltr á 175 kr/ltr, alls 29,8 m.kr. Að því gefnu að viðkomandi hafi tekið óverðtryggt lán til kaupanna á 3. flokki kjörvaxta, sem bera í dag rúmlega 10% vexti, til 15 ára (minni á að gert er ráð fyrir að komandi samningur verði til 10 ára…), munu um 75% af stuðningsgreiðslum næsta árs fara í að þjónusta þetta lán. Þær greiðslur munu því nýtast að mjög takmörkuðu leyti til lækkunar á framleiðslukostnaði eða til frekari uppbyggingar á búinu. Miðað við núverandi vaxtastig, verður heildarkostnaður við þetta lán tæplega 60 milljónir kr á lánstímanum. Forsendur þessarar fjárfestingar eru í meira lagi óljósar, á meðan nýr samningur liggur ekki fyrir. Þetta dæmi virðist því meira í ætt við afleiðuviðskipti.
Það er öllum hollt í þessu samhengi að velta því fyrir sér hvert líklegt kvótaverð væri ef greinin hefði nú undir höndum óbreyttan samning til næstu 10 ára. Undirrituðum þykir ekki ólíklegt að verðið næði fyrri hæðum.
Í grein í Bændablaðinu þann 24. september sl. lýsti einn af okkar öflugustu ráðunautum fyrr og síðar, áhyggjum sínum af því „að bændaforystan bindist bandalagi við kvótahafa í öðrum atvinnurekstri um að semja um batnandi hag þeirra fjárfestinga. Því miður treysti ég hluta hennar dável til að ganga þannig fyrir björg“. Mér virðist því miður að þessar áhyggjur Jóns Viðars Jónmundssonar séu á rökum reistar. Ég hef orðið þess áskynja að aðilar í samfélaginu sem telja sig hafa tilkall til áhrifa á þessum vettvangi, trúa því að framtíð nautgriparæktarinnar felist í áframhaldandi eigngeringu opinbers stuðnings og fjármagnsflótta úr greininni, eins og að ofan er rakið. Slíkir aðilar virðast ætla að keyra áfram veginn með því að góna sem fastast í baksýnisspegilinn. Flestum lesendum mun ljóst vera hvernig slík ökuferð muni enda.
Þegar horft er til þeirra verkefna sem nautgriparæktin stendur frammi fyrir á komandi árum, er verkefnið sem snýr að samkeppnishæfni greinarinnar við aðrar atvinnugreinar um fólk fyrirferðarmikil. Kröfur nýrra kynslóða um starfskjör, frítíma og vinnuaðstöðu aukast hratt. Kröfur samfélagsins um aðbúnað og velferð gripa aukast sömuleiðis. Þær birtast m.a. í úreldingu básafjósa á næstu árum, sem hýsa rúmlega þriðjung kúastofnsins og stórauknum rýmiskröfum fyrir gripi í uppeldi, auk fleiri krafna. Til að mæta þeim þurfa kúabændur að ráðast í verulegar fjárfestingar. Að mati LK eru þær um 20 milljarðar króna að lágmarki. Stuðningi hins opinbera er m.a. ætlað að sjá til þess að grundvöllur sé fyrir þessum fjárfestingum; eitt af markmiðum núverandi samnings er „að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu með eðlilegum hætti“. Í kjölfar þess að viðskiptabankarnir fóru afvelta tók við langt stöðnunartímabil varðandi endurnýjun framleiðsluaðstöðu. Í þeim efnum er heldur að rofa til, en betur má ef duga skal.
Eins og flestir þekkja, hefur greiðslumarkskerfið fjölþættara hlutverk en að útdeila opinberum stuðningi við greinina. Eitt megin hlutverk þess frá upphafi, var að stýra framleiðslunni svo halda mætti uppi ákveðnu verði á mjólk til bænda. Til að svo megi verða, þarf framleiðslustýringin að halda; núverandi lagarammi á að tryggja forgang mjólkur innan greiðslumarks að innanlandsmarkaði. Framleiðsla umfram greiðslumark skal afsett á erlendum markaði, á ábyrgð viðkomandi framleiðanda og afurðastöðvar. Á þetta ákvæði hefur reynt nokkrum sinnum á gildistíma núverandi samnings. Í öll skiptin hafa stjórnvöld ekki hreyft legg né lið til að fylgja þessu ákvæði eftir. Fyrir réttum áratug gekk þáverandi ráðherra landbúnaðarmála meira að segja svo langt að hann opnaði formlega afurðastöð, sem hafði þann yfirlýsta tilgang að standa utan við lagaramma þann sem gildir um mjólkurframleiðsluna. Ákvæði búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði virðist mér því að óbreyttu að engu hafandi. Staðreynd sem hefur legið fyrir í áratug og ekki er að sjá neinn pólitískan stuðning til að breyta því.
Kvótakerfi Evrópusambandsins, sem var við lýði frá árinu 1984 til 31. mars 2015 var fylgt eftir með því að leggja á sektargreiðslur á framleiðslu umfram kvóta, 27,83 evrusent á hvert kg. mjólkur. Það tryggði að umframmjólkin varð svo gott sem verðlaus, og stundum gott betur. Því hefur mikið verið haldið á lofti, að verðfall á mjólk í aðildarríkjum ESB að undanförnu sé tilkomið vegna þess að kvótakerfið var lagt af þar á bæ sl. vor. Þeir sem hins vegar hafa kynnt sér verðsveiflur til evrópskra mjólkurframleiðenda undanfarinn áratug eða svo, sjá að slíkur málflutningur er í besta falli mikil einföldun á veruleikanum.
Lengst af gildistíma núverandi búvörusamnings hefur ríkt stöðugleiki í framleiðslu og sölu mjólkurafurða. Frá því eru þó tvær afar mikilvægar undantekningar. Árið 2005 og fram á árið 2006 varð mikil aukning í sölu á próteingrunni. Kom hún í kjölfar vel heppnaðrar vöruþróunar á skyri og tengdum afurðum. Viðbrögðin við söluaukningunni voru fyrst í stað að auka greiðslumarkið um fimm milljónir lítra, í 111 milljónir lítra mjólkur. Til að hvetja til meiri framleiðslu var því næst ákveðið að kaupa próteinhluta úr fjórum milljónum lítra af umframmjólk, auk þess að greiða hvatningarálag á tiltekna mánuði. Mánuði síðar var tekin ákvörðun um að kaupa próteinið úr allri umframmjólk á verðlagsárinu. Í ársbyrjun 2006 var ákveðið að framlengja greiðslu hvatningarálagsins. Á vordögum sama árs var loks ákveðið að greiða fullt afurðastöðvaverð fyrir alla innvegna mjólk. Með þessum aðgerðum tókst að halda uppi hráefnisframboði, en tæpt var það.
Síðari undantekningin er hin gífurlega aukning sem varð í sölu á fituríkum afurðum á seinni hluta ársins 2013. Nærtækast er að lýsa henni sem sölusprengingu, þegar t.d. sala á smjöri jókst um 25% á einum mánuði, miðað við sama mánuð árið á undan. Þrátt fyrir svipuð viðbrögð og átta árum áður, fyrst vilyrði um greiðslur fyrir tiltekið magn og síðan greiðslu á fullu afurðastöðvaverði fyrir alla innvegna mjólk, dugði það ekki til. Enda var síðari uppsveiflan mun skyndilegri og meiri en hin fyrri. Raunar er það svo að hún stendur að hluta til ennþá, réttum tveimur árum síðar. Þessar tvær uppsveiflur í sölu eru væntanlega ekki þær síðustu í sögu íslenskrar mjólkurframleiðslu. Til að takast á við slíkt, þurfa bændur í sífellu að fá bein skilaboð frá markaði um gang framleiðslu og sölu. Ekki gengur að láta slík boð út ganga einu sinni á ári í gegnum ákvörðun um greiðslumark og þá þannig, að umtalsverður hluti bænda getur látið þau sér í léttu rúmi liggja að nokkru leyti þar sem viðkomandi njóti eftir sem áður umtalsverðra stuðningsgreiðslna, greiðslna sem í árdaga voru af góðum hug ætlaðar til niðurgreiðslu á mjólkurafurðum barnmörgum fjölskyldum til handa.
Sú þróun sem hér er lýst, leiðir hugann að öðru viðfangsefni sem núverandi kvótakerfi og afleiddir þættir eiga erfitt með að taka á. Hér er um að ræða misvægi í sölu á helstu efnaþáttum mjólkurinnar, fitu og próteins. Fyrir rúmlega áratug seldust árlega 5-10 milljónum lítra meira á próteingrunni en á fitugrunni. Nú er sala á fitugrunni um 10 milljón lítrum meiri á ársgrundvelli og eykst hún um þrisvar sinnum hraðar en sala á próteingrunni. Það mun því þurfa að afsetja vaxandi hluta próteins innan greiðslumarks á erlendum markaði, á því verði sem sá markaður skilar. Eftir því sem undirritaður kemst næst stendur innlend starfsemi mjólkuriðnaðarins um þessar mundir ekki undir því afurðaverði sem hérlendir mjólkurframleiðendur fá greitt, færa má fyrir því gild rök að það sem uppá vantar leggi danskir mjólkurframleiðendur sem og neytendur á skyri í nágrannalöndum okkar til.
Sala á fitugrunni hefur aukist um þrisvar sinnum hraðar en próteinsalan í rúman áratug. Frá því í ársbyrjun 2012 hefur fitusala aukist sem nemur ársframleiðslu á 100 kúabúum. Það er gríðarleg aukning, þegar litið er til þess að búin eru um 640 talsins. Það liggur fyrir að tiltölulega takmarkaður fjöldi framleiðenda hefur staðið á bak við meginþorra aukningarinnar. Með því að auka framleiðsluna, í mörgum tilfellum langt umfram það greiðslumark sem viðkomandi bændur hafa yfir að ráða, hafa þessir framleiðendur lagt gríðar mikið af mörkum til þess að tryggja nægjanlegt hráefnisframboð fyrir innlendan markað. Það væru óneitanlega kaldar kveðjur til þessara félaga okkar, ef að við nú svona í þakklætiskyni ljáðum máls á því að nú skyldi horfið til þess fyrirkomulags sem áður var við lýði.
Að mínu viti er aftuhvarf til eldra fyrirkomulags, með eitt verð fyrir mjólk innan greiðslumarks og annað fyrir mjólk umfram greiðslumark, með öllu ófær og það þrátt fyrir að málsmetandi menn hafi uppá síðkastið ljáð máls á þeim möguleika. Sú stefna varð einfaldlega gjaldþrota í byrjun jólaföstu árið 2013.
Tollasamningurinn sem íslensk stjórnvöld gerðu við ESB sl. haust, mun gera kröfu um aukna hagræðingu innan nautgriparæktarinnar. Þegar áhrif hans verða komin fram af fullum þunga mun hérlend mjólkurframleiðsla að óbreyttu lenda í lítt varðri samkeppni við umtalsvert magn innfluttra mjólkurafurða. Það liggur fyrir að í sumum af þeim löndum sem við getum átt von á samkeppni frá eru kollegar okkar ekki aðgerðalausir þegar að hagræðingarmálum greinarinnar kemur. Svo nærtækt dæmi sé tekið, þá telja frændur okkar á Jótlandsheiðum að til þess að geta mætt áætluðum afurðastöðvaverðum í framtíðinni þá verði þarlendir mjólkurframleiðendur að geta framleitt mjólk með öllum áföllnum kostnaði uppá tæplega helming þess afurðastöðvaverðs sem í gildi er nú um stundir hér á Fróni.
Í þessu samhengi er það er í mínum huga morgunljóst að okkur er brýn nauðsyn að nýta nú þegar allar færar leiðir sem leitt gætu af sér lækkandi framleiðslukostnað hérlendra mjólkurafurða. Ég hef áður nefnt það hér á þessum vettvangi að í þeim efnum er af mörgu að taka og ennfremur að greinin hafi nú um stundir sögulegt tækifæri til að snúa af braut fjármagnsútflæðis og stöðnunar, inn á braut uppbyggingar og vaxtar.
Það tækifæri ber skilyrðislaust að nýta.
Jóhann Nikulásson
Stóru-Hildisey 2