Beint í efni

Nautgriparæktin á tímamótum – að loknum haustfundum

08.11.2013

Um 370 manns mættu á haustfundi Landssambands kúabænda sem haldnir voru á fjórtán stöðum víðs vegar um land, dagana 15. til 23. október. Vegna veðurs þurfti að fresta fundinum á Ísafirði til 4. nóvember. Á fundunum fóru forsvarsmenn Landssambands kúabænda, ásamt forsvarsmönnum Auðhumlu yfir stöðu mjólkurframleiðslunnar á þeim tímamótum sem hún er nú á. Sala mjólkurafurða, einkum þeirra fituríkari gengur betur en dæmi eru um áður. Á sama tíma hefur framleiðslan heldur dregist saman. Standa bændur nú frammi fyrir að greitt verður fullt afurðastöðverð fyrir alla innvegna mjólk umfram greiðslumark, frá októberbyrjun til áramóta í ár. Sem dæmi um gang sölunnar þá var sala á smjöri 26% meiri í september 2013 en hún var í sama mánuði í fyrra. Slík söluaukning er fordæmalaus, þó reyndar hafi söluaukning á fitu sl. 10 ár verið tvöfalt hraðari en á próteininu. Þá hefur verið gerð tillaga að meiri aukningu greiðslumarksins á næsta ári en dæmi eru um, úr 116 milljónum lítra í 123 milljónir lítra. Á fundunum kom fram að verið er að vinna að breytingum á verðhlutföllum fyrir fitu (25%) og prótein (75%) í afurðastöðvaverði, með það að markmiði að auka vægi fitunnar verulega. Þá standa líkur til að greitt verði fullt afurðastöðvaverð fyrir alla innvegna mjólk á næsta ári einnig, en ákvörðun um slíkt ætti að liggja fyrir í marsmánuði 2014, að teknu tilliti til birgðastöðu. Við slíkar aðstæður er virði greiðslumarksins talsvert umhugsunarefni. Markaðsstaða mjólkurafurða er bændum mikið gleðiefni og felur í sér einstök tækifæri fyrir greinina til að auka tekjur, þróast og sækja fram.

 


Lyfta þarf grettistaki til 2021


 


Ef tiltölulega hófstillt spá um sölu á fitugrunni næstu átta árin gengur eftir, þarf mjólkurframleiðslan að vera komin í um 135 milljónir lítra árið 2021. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar verða landsmenn orðnir um 345.000 talsins og fjöldi ferðamanna 1,5 til 2 milljónir árlega. Til þess að ná að anna svo stórum markaði þarf að lyfta grettistaki á flestum sviðum innan mjólkurframleiðslunnar. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að stöðva þá þróun að kúnum fækki ár frá ári, en að jafnaði hefur kúnum fækkað um 1,1% á ári sl. 20 ár. Á sama tíma þarf að auka meðalafurðir um 50-70 kg á ári, tvöfalt til þrefalt meira en undanfarin 5 ár. Þá þarf einnig að auka endingu kúnna umtalsvert, en þær endast að jafnaði í tvö ár og átta mánuði (þ.e. 973 dagar líða frá 1. burði að förgun). Hér á landi eru kvígur um tveggja og hálfs árs gamlar að jafnaði þegar þær bera fyrsta kálfinum. Það er nokkuð eldra en gengur og gerist í nálægum löndum og felur í sér verulegan kostnað fyrir bændur. Burðaraldurinn þarf því að lækka. Einnig þarf að draga úr þeim afföllum sem verða á kvígum í uppeldi, en um 20% af ásettum kvígum ná aldrei að verða mjólkurkýr, af ýmsum ástæðum. Þá er geldstaðan óþarflega löng, bil á milli 1. og 2. burðar er að jafnaði rúmlega 400 dagar. Að lokum má geta þess að mjólkuriðnaðurinn hefur nú ráðið dýralækni til mjólkureftirlitsins, m.a. til að vera bændum sem glíma við króníska júgurbólgu til ráðgjafar. Sé litið til næstu mánaða, er þau úrræði nærtækust að seinka slátrun og sést þess þegar staður, enda dróst kúaslátrun saman um 14% í september, miðað við sama mánuð í fyrra. Þá má víða auka fóðurstyrk með aukinni kjarnfóðurgjöf. Mikilvægt er að fleiri bændur geri fóðuráætlanir og nýti sér alla tiltæka ráðgjöf til að aukin kjarnfóðurgjöf skili tilætluðum árangri og arðsemi. Núverandi staða felur því í sér mikla áskorun fyrir ráðgjafaþjónustuna.


 


Aukin fagmennska í nautakjötsframleiðslu


 


Fyrstu sjö mánuði ársins var innflutningur nautgripakjöts svipaður og á sama tíma í fyrra. Fyrirsjáanlegt er að hann muni aukast með vaxandi samdrætti í slátrun kúa, þá hefur ásetningur nautkálfa farið minnkandi. Enda er það svo að stjórnvöld hafa nýverið gefið út reglugerð 877/2013 um úthlutun á opnum tollkvótum vegna innflutnings á hakkefni úr nautgripakjöti. Hliðstæðar reglugerðir hafa verið gefnar út undanfarin ár. Þannig hafa stjórnvöld sýnt að þau eru tilbúin að slaka á tollverndinni eftir því sem þurfa þykir. Í ljósi þess að forsvarsmenn LK hafa á undanförnum árum ítrekað rætt möguleika á því við stjórnvöld hvernig auka megi skilvirkni nautakjötsframleiðslunnar og skjóta undir hana traustari stoðum sem sjálfstæða búgrein, skýtur það mjög skökku við að reglugerðir um opna tollkvóta hafi á sama tíma verið einu skilaboð stjórnvalda til nautakjötsframleiðenda! Það er þó ljóst að mikil tækifæri eru til að auka fagmennsku í nautakjötsframleiðslunni. Það mátti t.d. sjá í veffræðsluerindi Þóroddar Sveinssonar, lektors við LBHÍ á heimasíðu LK, naut.is, sem flutt var á dögunum. Þar kom m.a. fram að eldistími nauta hér á landi er 25 mánuðir, samanborið við 16 mánuði í nálægum löndum. Það leiðir af sér að fóðurnotkun pr. kg falls er u.þ.b. 70% meiri hér á landi en í nágrannalöndunum, vegna mikils fóðurs sem fer til viðhaldsþarfa. Styttri eldistími og kraftmeiri fóðrun skilar margfaldri framlegð en langur eldistími á kraftlitlu fóðri. Á fundunum var einnig farið yfir stöðu á endurnýjun á erfðaefni holdanautastofnanna, sem verið hefur til umfjöllunar hjá LK samfellt í fjögur ár. Hugur LK stendur til að sækja um innflutning á holdanautasæði sem ætlað væri til almennrar dreifingar, að því gefnu að niðurstaða áhættumats verði jákvæð. Umsókn þar að lútandi var afgreidd af stjórn samtakanna á stjórnarfundi í september, ásamt ítarlegum heilbrigðiskröfum. Staða þess máls er sú að ráðherra hefur ákveðið að gera áhættumat annars vegar á beinum innflutningi sæðis og fósturvísa á almenn bú, hins vegar á innflutningi sæðis og fósturvísa í einangrunarstöð. Síðari kosturinn er óheyrilega tímafrekur, gríðarlega kostnaðarsamur og ljóst er að nautakjötsframleiðslan getur engan veginn staðið undir slíkum rekstri til langframa.


 


Fyrirmyndarbú


 


Á haustfundunum var lítillega tæpt á vinnu LK og SAM við gerð leiðbeininga um góða búskaparhætti. Ljóst er að slíkar leiðbeiningar, með tilvísunum í reglur og lög, verða afar umfangsmikið plagg. Því hefur verið ákveðið að gefa leiðbeiningarnar einnig út á samanþjöppuðu formi, sem fengið hefur vinnuheitið Stefna LK og SAM um fyrirmyndarbú. Stefna þessi tekur á flestum grunnstoðum mjólkurframleiðslunnar; mjólkurgæðum, matvælaöryggi, dýravelferð og umhverfismálum. Vonast er til að þessari vinnu ljúki fyrir aðalfund LK 2014. Daginn fyrir aðalfundinn, fimmtudaginnn 27. mars n.k. hyggst LK halda fagþing nautgriparæktarinnar 2014, sem ætlað er að nýtist sem vettvangur fyrir miðlun á fagefni fyrir greinina, bæði á sviði mjólkur- og nautakjötsframleiðslu./BHB


 


Pistillinn birtist í Bændablaðinu 31. október sl.