Beint í efni

Að loknum haustfundum – kynning á stefnumörkun LK

08.11.2011

Nýlega lauk árlegum haustfundum Landssambands kúabænda, en að þessu sinni voru haldnir 14 fundir víðsvegar um land og urðu fundargestir alls á fjórða hundrað.  Þessir fundir hafa verið með svipuðu sniði um langt árabil og eru afar mikilvægur þáttur í starfsemi Landssambandsins. Að venju bar margt á góma hjá fundarmönnum, bæði þættir sem snúa að hefðbundnum hagsmunamálum greinarinnar og eins hlutir sem tengjast einstökum svæðum.  Þannig var talsvert rætt um  afkomu greinarinnar og fram kom að þrátt fyrir nokkurn árangur á yfirstandandi ári í leiðréttingu afurðaverðs, mætti ekki gefa eftir í verðlagsmálum greinarinnar. Þá komu fram miklar áhyggur af því að verið væri að brjóta búvörulög með því að markaðsfæra mjólk umfram greiðslumark á innanlandsmarkað og því skeytingarleysi sem stjórnvöld sýna málinu.   

 


Viðskipti með greiðslumark voru fundarmönnum einnig hugleikin og það hvort kvótamarkaðurinn væri að virka sem skyldi. Rík áhersla kom fram á að fjölga markaðsdögum og nauðsynlegt væri að draga úr þeim kostnaði sem fylgdi greiðsluábyrgðum tilboðsgjafa. Þá var velt upp þeirri spurningu hvort hægt væri að hverfa frá þessu fyrirkomulagi í greiðslumarksviðskiptum, ef ekki fengjust eðlilegar lagfæringar á skipulagi kvótamarkaðarins. Reyndar virðist niðurstaða síðasta markaðar 1. nóvember s.l., þar sem viðskipti urðu með tæpa 660 þúsund lítra af þeim rúmlega 900 þúsund ltr. sem boðnir voru til sölu, benda til að aðilar séu að ná betri tökum á aðferðinni og að lesa í þau skilaboð sem markaðurinn er að senda milli kaupenda og seljenda. Á fundunum kom einnig fram hörð gagnrýni á þá ákvörðun ráðherra landbúnaðarmála, að beita sér fyrir niðurfellingu á heimild til gjaldfærslu vegna greiðslumarkskaupa.


 


Dýralæknaþjónustan var bændum hugleikin, einkum á hinum dreifbýlli svæðum, enda var sú þjónusta víða í talsverðu uppnámi á meðan fundaferðin stóð yfir. Lýstu fundarmenn yfir miklum áhyggjum af vinnubrögðum MAST í málinu og hve seint var farið í að ganga frá þjónustusamningunum, þrátt fyrir að aðdragandinn væri langur. Endurskipulagning ráðgjafaþjónustunnar bar einnig nokkuð á góma. Misjöfn sjónarmið komu fram um hvert bæri að stefna í þeim efnum og ljóst að þar er mikið verkefni fyrir höndum. Málefni nautakjötsframleiðslunnar urðu nokkrum fundarmönnum að umtalsefni. Kom fram það mat manna að ein helsta skýringin á núverandi stöðu væri allt of sveiflukennd afkoma greinarinnar á undanförnum árum. Þá var einnig talsvert mikið rætt um fyrirhugaða upptöku á EUROP mati í nautakjötsframleiðslunni.


 


Á þessum fundum var jafnframt kynnt ný stefnumörkun fyrir íslenska nautgriparækt til ársins 2021 sem unnið hefur verið að síðustu misseri. Leiðarstef þessarar stefnumörkunar er að benda á möguleika til draga úr framleiðslukostnaði og bæta nýtingu í greininni, fyrst og fremst til að styrkja samkeppnishæfni hennar gagnvart innflutningi, en ekki síður til að skapa henni möguleika sem arðbærrar útflutningsgreinar. Í þessu efni þótti því nauðsynlegt að líta til allra þeirra þátta sem tengjast kostnaðarmyndun í greininni, hvort sem þeir þættu félagslega viðkvæmir eða ekki. Eðlilega sýnist sitt hverjum um það efni sem texti stefnumörkunarinnar ber með sér. Þannig komu fram í máli fundarmanna ýmsar vangaveltur um veigamikla þætti eins og kvótakerfið, beingreiðslur, verðlagningarfyrirkomulagið, markmið í ræktun kúastofnsins, bústærðir og nýliðun. Á sumum þessara funda spunnust um þetta efni afar líflegar en hreinskiptar umræður, en sú gagnrýni sem stefnumörkunin fékk var þó fjarri því einsleit, eins og búast mátti við.


 


Það er afar mikilvægt fyrir nautgriparæktina eins og aðrar framleiðslugreinar að marka sér stefnu til framtíðar. En til þess að stefnumörkun af þessu tagi sé lifandi þarf hún hinsvegar að vera í sífelldri endurskoðun og aðlögun að ríkjandi aðstæðum. Megin línan þarf hinsvegar að vera skýr og segja má að íslenskir kúabændur standi frammi fyrir þeirri spurningu hvort þeir vilji að áfram verði horft til þess, fyrst og fremst, að takmarka framleiðsluna við innanlandsmarkað eins og verið hefur, eða hvort vilji er til að greinin þróist til aukins vaxtar sem útflutningsgrein.  Eins og áður sagði er megin stef hinnar nýju stefnumörkunar að auka samkeppnishæfni greinarinnar. Hinsvegar er ljóst að margir mikilvægustu hagkvæmniþættir hennar nást ekki fram, án þess að stjórnvöld skapi greininni það svigrúm sem nauðsynlegt er. Óvíst er að vilji sé til þess hjá þeim sem nú fara fyrir landsstjórninni.


 


Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda