Beint í efni

Leiðbeiningaþjónusta á skilorði

03.10.2011

Bændasamtök Íslands kynntu nýverið fyrirhugaða endurskoðun á skipulagi og starfsemi ráðgjafaþjónustunnar í landinu. Hafa samtökin fengið Ole Kristensen ráðgjafa frá Þekkingarsetri Landbúnaðarins í Danmörku til að stýra verkefninu. Þess má geta að Ole þessi hefur umtalsverða reynslu af hliðstæðri endurskoðunarvinnu innan dönsku ráðgjafaþjónustunnar á liðnum árum. Landssamband kúabænda  hefur um árabil vakið athygli á nauðsyn þess að fram fari endurskipulagning á allri starfsemi Bændasamtakanna. „Mjór er mikils vísir“ segir máltækið. Vonandi er þetta fyrsta skrefið á slíkri heildarendurskoðun. Það er því full ástæða til að fagna þessari ákvörðun.
  

Á dögunum sat undirritaður kynningarfund um verkefnið ásamt fulltrúum svína-, kjúklinga-, eggja-, blóma-, garðyrkju- og ferðaþjónustubænda, þar sem leitað var eftir afstöðu búgreinafulltrúanna til núverandi fyrirkomulags og hverjar væru helstu áherslur fyrir ráðgjöf á komandi árum. Í máli fulltrúanna, annara en kúa- og ferðaþjónustubænda kom fram að lítil sem engin ráðgjöf sé til staðar innanlands og ráðgjöfin því nánast einvörðungu sótt erlendis frá. Hvað nautgriparæktina varðar þá er ég þess fullviss að við óbreytt fyrirkomulag sé það ekki spurning um hvort, heldur einungis hvenær kúabændur hugsi sér til hreyfings í þessum efnum. Það er í mínum huga umhugsunarefni að sú búgrein sem stendur undir bróðurparti tekjustofns leiðbeiningaþjónustunnar, að þar sé eftir því sem næst verður komist enginn ráðunautur í fullu starfi sem einvörðungu sinnir búgreininni. Til fróðleiks má geta þess að ráðgjafamiðstöð sem er umsvifamest á þessu sviði hjá frændum vorum í Danaveldi, starfa 15 sérhæfðir ráðgjafar sem einvörðungu sinna nautgriparækt. Sú stöð er þó fjarri því að vera sú eina þar í landi sem eitthvað kveður að, því sú sem næst kemur telur 12 ráðgjafa. Nærri má geta hvort slíkar stöðvar hafa ekki eitthvað bitastætt fram að færa. Þar á bæ er ennfremur mikill áhugi á að þjóna bændum í nágrannalöndunum.


 


En við hvað hefur leiðbeiningaþjónustan helst verið að sýsla á liðnum áratug eða svo? Í stórum dráttum hefur starfsemin ekki breyst ýkja mikið. Komið hefur verið á fót rekstrargreiningarverkefnum sem er góðra gjalda vert, við þá vinnu hefur skapast umfangsmikil þekking sem ætti að vera hægt að byggja frekari rekstarleiðbeiningar á. Framhjá því verður þó vart litið, að frá bankahruni hefur gríðarlegur tími og orka leiðbeiningaþjónustunnar farið í að greiða fyrir og reyna að leysa úr málum skuldsettustu rekstrareininganna. Enginn vafi leikur á að þar hefur um margt verið unnið gott starf. En er hugsanlegt að í einhverjum tilfellum hefði mátt koma í veg fyrir vandann  með betri ráðgjöf á fyrri stigum?


 


Í mínum huga er brýn þörf á mun öflugri ráðgjöf en nú stendur til boða í jarðrækt, fóðuröflun, fóðrun, fjárfestingum, búfjárrækt og gæðamálum afurða, sem og í forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum er varða ýmsa framleiðslusjúkdóma búfjár. Eðlilegast væri að mynda á landsvísu teymi ráðgjafa sem samanstæði af sérhæfðum ráðgjöfum á framangreindum sviðum. Reglubundnar heimsóknir á búin ættu að vera veigamikill þáttur í starfseminni.


 


Nú kann að vel vera að einhverjum finnist þetta allt saman ágætt eins og það er í dag og því ekki ástæða til að breyta miklu. Á Búnaðarþingi síðastliðinn vetur orðaði Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna það svo að „leiðbeiningaþjónustan væri hvað fjármögnum varðar á skilorði til tveggja ára“. Enda ríkir veruleg óvissa um núverandi tekjustofna. Búnaðarlagasamningur sem undirritaður var síðastliðið haust var skertur umtalsvert og einungis framlengdur um tvö ár. Hvað þá tekur við er óvíst en ekki er óvarlegt að ætla að um enn frekari niðurskurð geti orðið að ræða. Þá er nokkur réttaróvissa um lögmæti  innheimtu búnaðargjaldsins, en innheimta hliðstæðra gjalda hefur fyrir dómstólum landsins verið dæmd ólögmæt. Það ætti því flestum að vera fulljóst að til lengri tíma litið þarf að fjármagna leiðbeiningaþjónustuna með öðrum hætti. Ég hef mjög lengi verið þeirrar skoðunar að skilvirkasta leiðin sé sú að þjónustugjöld standi alfarið undir starfseminni, þannig muni þjónustan best mæta þörfum bænda á hverjum tíma sem og skapar dugmiklum ráðunautum eftirsóknarvert starfsumhverfi. Fjárfesting í ráðgjöf á að vera arðbær og ekki er óalgengt viðmið við ráðgjafaþjónustu í nágrannalöndunum að fyrir hverja krónu sem bóndinn eyðir í ráðgjöf eigi hann að fá fjórar til baka í bættum rekstri.


 


Það kom mjög skýrt fram í máli hins danska ráðgjafa að þarlend ráðgjafaþjónusta hefur á liðnum áratugum farið reglulega (á 4-6  ára fresti) í gegnum gagngera endurskipulagningu til þess eins að geta sem best fylgt eftir þörfum búrekstrar á hverjum tíma.  Það virðist því nokkuð ljóst að hér heima með lítið breytt fyrirkomulag um langt árabil höfum við sofnað á verðinum, svo nú þarf að bretta upp ermar og láta verkin tala ef ekki á illa að fara. Nútíma búskapur kallar á sérhæfða ráðgjöf og með því að sameina alla leiðbeiningaþjónustuna í landinu í eina ráðgjafmiðstöð, skapast möguleikar fyrir ráðunauta landsins  að skipta með sér verkum og sérhæfa sig. Slík ráðgjafamiðstöð gæti vitaskuld verið með fleiri en eina starfsstöð. Það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hvar viðkomandi ráðunautar eru staðsettir, þannig getur ráðunautur sem hefur yfir tölvu og bíl að ráða verið sjálfstæð starfsstöð út af fyrir sig, þó vitaskuld sé kostur fyrir ráðgjafa að hafa faglegan stuðning af samstarfstarfsfélögum á stærri starfsstöð. Farsælast væri að slík ráðgjafamiðstöð væri í sameiginlegri eigu Bændasamtakanna, Búnaðarsambandanna og e.t.v.afurðastöðva, en síðast en ekki síst í eigu ráðgjafanna sjálfra.


 


Að lokum góðir félagar: göngum öll heilshugar til fyrrgreindar endurskoðunar, leggjum til hliðar hrepparíg og héraðapot. Sameinum kraftana því öflug leiðbeiningaþjónusta á að vera skilvirk, sérhæfð og á harðaspretti við að leita allra leiða til að auka hagkvæmni búvöruframleiðslunnar, þá mun hún sem og bændur landsins eiga bjarta framtíð fyrir sér.


 


Jóhann Nikulásson Stóru Hildisey 2
Stjórnarmaður LK