Framlenging búvörusamninga
28.09.2012
Í dag skrifuðu fulltrúar bænda og ríkisvaldsins undir samkomulag um breytingu á gildandi samningum um starfsskilyrði mjólkur-, sauðfjár- og garðyrkjuframleiðenda. Með samkomulaginu eru samningarnir allir framlengdir um tvö ár, en á móti kemur nokkur skerðing á upprunalegum framlögum þeirra auk þess sem nokkur breyting er gerð á framkvæmd verðbóta. Þetta þýðir hvað mjólkursamninginn áhrærir að gildistími hans framlengist til ársloka 2016.
Þannig gerir samkomulagið ráð fyrir að árleg framlög vegna mjólkursamnings árin 2013 til 2016 verði 6.041 m.kr. á ári, á verðlagi ársins 2012, en það er 1% skerðing frá framlögum yfirstandandi árs. Upphæðin tekur árlegum breytingum í samræmi við verðlagsuppfærslu fjárlaga, en víki þróun meðaltalsvísitölu neysluverðs frá verðlagsforsendum fjárlaga á árinu, skal mismunurinn leiðréttur í fjárlögum næsta árs. Samkvæmt þessu má því gera ráð fyrir að framlög vegna mjólkursamnings verði um 6.277 m.kr. á árinu 2013. Til samanburðar má nefna að sé upprunalegt framlag samningsins framreiknað samkvæmt vísitölu neysluverðs, eins og hún var í lok ágúst sl., væri framlagið komið í u.þ.b. 6.429 m.kr., að teknu tilliti til 1% árlegrar skerðingar eins og þar kveðið er á um. Með þeim breytingum sem nú eru gerðar er grunnupphæð samningsins í raun fest og ekki kemur til frekari skerðinga frá og með árinu 2013. Þessi breyting þýðir vissulega nokkra skerðingu greiðslna frá upphaflegum grunnframlögum samningsins á árunum 2013 og 2014. Upprunalega stofnupphæðin mun þó að öllum líkindum verða orðin nálægt því jöfn hinni nýju á árinu 2015 og orðin lægri á loka ári samningsins, árið 2016. Betur verður farið yfir tölulega þætti þessa samkomulags síðar.
Í upphaflegum samingi var gert ráð fyrir vaxandi tilfærslum af beingreiðslum yfir í óframleiðslutengdan stuðning. Með þessu samkomulagi er hinsvegar gert ráð fyrir að sjálfvirkum tilfærslum milli einstakra liða samningsins verði hætt og hlutfallsleg skipting milli þeirra verði sú sama og birtist í fjárlögum fyrir árið 2012. Frá því að gildandi mjólkursamningur var undirritaður í maí 2004 hafa aðstæður breyst umtalsvert og því er nauðsynlegt að meta stöðuna að nýju áður en ákveðið er hvort og þá hvernig staðið skuli að þessum tilfærslum.
Þá er í þessu samkomulagi eftirfarandi bókun „Samningsaðilar eru sammála um, á grundvelli greinar 8.2 samningsins, að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfni og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á.m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. Starfshópurinn skal skila niðurstöðu sinni í síðasta lagi 31. desember 2013“. Í umræddri grein 8.2 mjólkursamningsins segir „Að liðnum fimm árum frá gildistöku samnings þessa skulu samningsaðilar kanna framkvæmd hans og í framhaldi af þeirri könnun hefja viðræður um áframhaldandi stefnumótun og gerð nýs samnings“. Þann 1. september s.l. voru liðin 7 ár frá gildistöku samningsins og nú er verið í annað sinn að leggja til framlengingu hans. Í árslok 2016 verða því liðin rúm 11 ár frá því að samningurinn tók gildi. Þá verður einnig hálfnað það tímabil sem stefnumörkun Landssambands kúabænda, sem samþykkt var á síðasta ári, nær yfir. Í henni er m.a. stefnt að “breytingu á kvótakerfinu þannig að ríkisstuðningur nýtist betur til lækkunar framleiðslukostnaðar.” Einnig er í stefnumörkuninni lögð áhersla á við gerð nýs mjólkursamnings, “að stefnt verði að breyttu fyrirkomulagi ríkisstuðnings í þá átt að draga úr tilhneigingu hans til að eigngerast. Nauðsynlegt er þó að áður en til þessara breytinga komi verði unnin úttekt á áhrifum þeirra með tilliti til:
- Áhrifa á samkeppnisstöðu greinarinnar.
- Lengri tíma áhrifa á vöruverð til neytenda.
- Afkomu búgreinarinnar.
- Nýliðunar í búgreininni.
- Skilvirkni kerfisins”.
Landssamband kúabænda hefur ætíð lagt á það áherslu, að breytingar af þessu tagi eigi sér nokkurn aðdraganda og framleiðendur fái nauðsynlegt svigrúm til aðlögunar að nýjum veruleika. Með því að hefjast nú þegar handa við framangreinda úttekt, gefst greininni talsvert andrúm til að takast á við þær breytingar sem kunna að verða.
Í dag var einnig undirritaður nýr Búnaðarlagasamningur og gildir hann í fimm ár, til ársloka 2017. Helstu atriði hins nýja samnings eru endurreisn Framleiðnisjóðs, ásamt því að gert er ráð fyrir að sameining ráðgjafaþjónustu landbúnaðarins nái fram að ganga um næstu áramót. Bændasamtök Íslands munu gera nánari grein fyrir samningnum á sínum vettvangi.
Líkt og fyrri ár, hyggst Landssamband kúabænda standa fyrir haustfundum í október n.k.m þar sem hið nýundirritaða samkomulag um breytingar á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar verða m.a. kynntar. Ég vil hvetja kúabændur til að kynna sér þær. Að venju verða umræddar breytingar lagðar fyrir kúabændur, til samþykktar eða synjunar, í almennri atkvæðagreiðslu. Hún hefur þó enn ekki verið tímasett en verður þó að líkindum með svipuðu sniði og vorið 2009.
Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda