Beint í efni

Sögulegur vöxtur

24.09.2014

Ekki verður annað sagt en að sú mikil söluaukning sem orðið hefur síðustu misseri á íslenskum mjólkurvörum, ekki síst  þeim fituríkari á borð við smjör, rjóma, osta og nýmjólk, sé orðin sögulegur.  Sem dæmi um þessa miklu sölu má nefna, að undanfarna 12 mánuði er sala á fitugrunni orðin 126,5 milljónir lítra, sem er 7,1% aukning frá árinu á undan. Frá því í janúar 2012 hefur þannig sala á fitugrunni aukist um 15 milljónir lítra, en því til samanburðar má nefna að árleg framleiðsla mjólkur í Rangárvallasýslu er um 17 milljónir lítra. Aukning í sölu á próteingrunni hefur verið talsvert minni, en þó jöfn og þétt. Síðast liðna 12 mánuði hefur sá hluti mjólkurinnar selst sem nemur 119,4 milljónir lítra og er það aukning um 2,4% frá árinu á undan. Ekki er að sjá neitt láti á þessari auknu eftirspurn eftir fituríkum mjólkurvörum og sem dæmi má nefna að sala á smjöri hefur aukist umtalsvert það sem af er september miðað við sama mánuð 2013, en í lok september það ár hafði salan aukist um 26% frá árinu þar á undan. Að öllu óbreyttu má reikna með að sala á fitugrunni verði komin í um það bil 130 milljónir lítra í lok þessa árs. Nýlega kynnti stjórn SAM þá tillögu sína, að greiðslumark fyrir árið 2015 verði 140 milljónir lítra, en það er 12% aukning frá yfirstandandi ári. Þetta er gert á grundvelli söluspár sem er tiltöluleg hógvær miðað við þróun síðustu missera og þörf fyrir auknar birgðir.


 

 


Bændur hafa brugðist við þessari auknu sölu og er innvigtun mjólkur undanfarna 12 mánuði orðin 128,9 milljónir lítra, sem er 5,1% aukning frá árinu á undan. Það er hinsvegar áhyggjuefni að fituhlutfall innleggsmjólkur hefur á sama tíma fallið umtalsvert og er nú 4,09% samanborið við 4,15% á sama tíma í fyrra. Í þessu sambandi má sem dæmi nefna að innvigtun mjólkur í viku 38 (14.-20. september sl.) var 2.391.524 ltr, sem er 16,4% meira en í sömu viku fyrir ári. Sé aukningin mæld í kg fitu er hún 14,6%.  Fyrstu vísbendingar um heyforða liðins sumars benda til að þau séu næg, en nokkuð misjöfn að gæðum. Því er mikilvægt að huga vel að fóðrun næsta vetrar og leita ráðgjafar eftir því sem efni standa til, enda er í núverandi markaðsstöðu mikið að sækja fyrir kraftmikla bændur.


 


Aðalfundur Landssambands kúabænda síðasta vor samþykkti tillögur að breytingum á skiptingu beingreiðslna og útdeilingu C-greiðslna eftir mánuðum með eftirfarandi hætti:


 


o   Hlutdeild A-hluta verði 40% (var 47,67%).


o   Hlutdeild B-hluta verði 35% (var 35,45%).


o   Hlutdeild C-hluta verði 25% (var 16,88%).


 


Skipting C-greiðslna verði síðan skipt þannig milli mánaða að 15% greiðist á hvern mánuð júní til nóvember og 10% í desember. C-greiðslutímabilið lengist því um einn mánuð frá því sem nú er, þar sem júní bætist við. Jafnframt þessu er lagt til að framleiðsluskylda til að halda óskertum A-greiðslum verði hækkuð úr 95% eins og er á yfirstandandi ári í 100%. Allar þessar aðgerðir eru hugsaðar til að auka framleiðsluhvata og að stuðningsgreiðslur greinarinnar nýtist sem best til að svara kalli markaðarins. Þessu til viðbótar er nú til skoðunar á vettvangi SAM að auka enn frekar greiðsluhlutdeild fitu í mjólkurverði, en eins og kunnugt er var hún hækkuð úr 25% í 50% á yfirstandandi ári og hlutdeild próteinsins lækkuð sem því nam.


 


 Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að greiðslur til kúabænda verði 6.613,9 milljónir króna og hækka þannig um 148,9 milljónir króna frá yfirstandandi ári í samræmi við verðtryggingarákvæði gildandi samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunar. Vegna hinnar miklu aukningar á greiðslumarki komandi árs, má því gera ráð fyrir að meðal stuðningur á framleiddan lítra lækki og verði 47,24 kr/ltr, en hann er nú 51,72 kr/ltr. Núverandi aðstæður skapa hins vegar fjölmörgum kúabændum einstakt tækifæri til að vega upp lækkandi einingaverð með aukinni framleiðslu, einkum þau bú sem eru með meðalnyt undir meðaltali. Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhalds nautgriparæktarinnar eru tæplega 100 bú með meðalafurðir sem eru meira en 1.000 kg undir landsmeðaltali. Á þessum búum eru að jafnaði 35 árskýr og með því að minnka framangreindan mun um helming með hækkun á meðalnyt, geta þessi bú aukið tekjur sínar að jafnaði um 1,5-2 milljónir kr á ársgrundvelli með tiltölulega einföldum og skjótvirkum aðgerðum. Svigrúm sumra bænda er miklu meira en þetta.


 


Það sem af er þessu ári hefur verið hverfandi eftirspurn er eftir greiðslumarki til mjólkurframleiðslu. Á þeim tveimur tilboðsmörkuðum sem haldnir hafa verið á yfirstandandi ári hafa einungis orðið viðskipti með rúma 47 þúsund lítra. Verð greiðslumarks hefur jafnframt lækkað verulega. Útreiknað jafnvægisverðið var 180 kr/ltr á markaði  1. september síðast liðinn, en til samanburðar má geta þess að það var 320 kr/ltr á markaði 1. apríl 2013. Forsenda þess að viðskipti verði á kvótamarkaði er að bæði sé til staðar lágmarks framboð og eftirspurn á greiðslumarki, en þar sem eftirspurn eftir greiðslumarki hefur nú nær alveg horfið verður að reikna með að viðskiptin verði áfram lítil sem engin. Það var hinsvegar aldrei ætlunin með uppsetningu kvótamarkaðarins að stöðva viðskiptin, enda grundvallar atriði að greiðslumark geti færst milli aðila. Í ljósi þessa hefur stjórn Landssambands kúabænda lagt til við Sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra að reglugerð 190/2011 um markaðsfyrirkomulag við aðilaskipti að greiðslumarki mjólkur á lögbýlum verð gerð óvirk frá og með 1. janúar til og með 31. desember 2015 og viðskipti með greiðslumark verði gerð frjáls á tímabilinu.


 


Eins og sagt var í upphafi verður þessi mikli vöxtur á mjólkurvörumarkaði að teljast sögulegur og í raun fordæmalaus. Víst má telja að þetta endurspegli gæði framleiðslunnar, hóflegt verð og trú neytenda á hollustu íslenskra mjólkurafurða. Fyrir það traust sem í þessu felst erum við kúabændur afar þakklátir og tökum fagnandi því verkefni að uppfylla vaxandi óskir þjóðarinnar eftir framleiðsluvörum okkar.


 


Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda