Nýju samningarnir
22.09.2015
Síðastliðinn fimmtudag var undirritaður milliríkjasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) um viðskipti með búvörur og gagnkvæma niðurfellingu tolla á þeim. Alþingi þarf að staðfesta samninginn svo hann öðlist gildi, en líklegt má telja að gildistaka verði í ársbyrjun 2017.
Í samningunum var samið um mjög verulega aukningu á tollfrjálsum viðskiptum með landbúnaðarafurðir, frá því sem verið hefur. Samkvæmt þeim aukast tollkvótar á einu til fjórum árum, í nokkuð jöfnum skrefum. Kvóti fyrir tollfrjálsan innflutning á osti er nú 80 tonn á ári, en eykst um 75 tonn á ári í fjögur ár og verður að þeim liðnum 380 tonn á ári. Kvóti fyrir tollfrjálsan innflutning á sérosti, osti sem hlotið hefur upprunavottun (Protected Designation of Origin eða Protected Geographical Indication), er nú 20 tonn á ári en eykst um 55 tonn á ári fyrstu þrjú ár samningsins og um 45 tonn á fjórða ári og verður alls 230 tonn. Alls verður kvóti fyrir tollfrjálsan innflutning á osti því 610 tonn, eða um 10% af ostamarkaðinum hér á landi. Í slíkt magn af osti fara rúmlega sex milljónir lítra af mjólk, eða sem nemur ársframleiðslu um 25 meðal kúabúa.
Í nautakjötinu eru skrefin mun stórkarlalegri. Kvóti fyrir tollfrjálsan innflutning á nautakjöti er í dag 100 tonn en mun aukast um 149 tonn á ári í fjögur ár og verða að þeim liðnum 696 tonn á ári. Það magn jafngildir um 1.150 tonnum að skrokkum, eða sem nemur 25-30% af innanlandsframleiðslu undanfarin ár en hún hefur legið á bilinu 3.500-4.000 tonn. Framleiðsla ESB á nautgripakjöti var 7,3 milljónir tonna árið 2013. Hvítu kjöti eru einnig greidd mjög þung högg; tollfrjáls innflutningskvóti á svínakjöti er 200 tonn en eykst um heil 250 tonn á ári í tvö ár og verður eftir það 700 tonn. Innanlandsframleiðsla á svínakjöti er um 6.000 tonn á ári. Dönsk svínakjötsframleiðsla árið 2013 var 1,9 milljónir tonna og 22 milljónir tonna í ESB í heild. Kvóti fyrir tollfrjálsan innflutning á kjúklingakjöti er nú 200 tonn en eykst um hvorki meira né minna en 328 tonn á ári, í tvö ár og verður að þeim liðnum 856 tonn. Þar við bætist tollkvóti fyrir lífrænt ræktaðan kjúkling, 100 tonn á ári fyrstu tvö árin, alls 200 tonn. Heildar framleiðsla hér á landi af kjúklingi er um 8.000 tonn, en framleiðsla aðildarríkja ESB er tæplega 13 milljónir tonna. Tollfrjáls aðgangur fyrir pylsur er nú 50 tonn en eykst um 100 tonn á ári fyrstu tvö árin og verður eftir það 250 tonn. Tollkvóti fyrir „unnar kjötvörur“ (e. processed meat products) er nú 50 tonn en eykst um 120 tonn á ári fyrstu tvö árin, síðan 110 tonn á þriðja ári og verður alls 400 tonn. Tollkvóti fyrir saltað, þurrkað eða reykt kjöt er 50 tonn og eykst á fyrsta ári um önnur 50 tonn og verður 100 tonn eftir það.
Kvóti fyrir tollfrjálsan útflutning á skyri til aðildarríkja ESB er nú 380 tonn á ári en eykst um 905 tonn á ári í fjögur ár og verður að þeim liðnum 4.000 tonn. Í það magn fer undanrenna úr tólf milljónum lítra af mjólk, eða sem nemur framleiðslu um 50 búa. Kvóti fyrir tollfrjálsan útflutning á smjöri er í dag 350 tonn en eykst um 39 tonn á fyrsta ári og síðan um 37 tonn á ári eftir það og verður að fjórum árum liðnum 500 tonn. Í slíkt magn fer fita úr um tíu milljónum lítra af mjólk. Kvóti fyrir tollfrjálsan útflutning á osti er ekki til staðar í dag en fer á fyrsta ári í 14 tonn og síðan bætast við 12 tonn á ári í þrjú ár, að þeim loknum verður hann 50 tonn á ári. Eins og áður hefur komið fram, er mjólkurframleiðslan hér á landi um 140.000 tonn, en árið 2013 var framleiðsla á kúamjólk í ríkjum ESB tæplega 154 milljónir tonna, eða 1.100 sinnum meiri en hér á landi.
Það blasir við að með samningum er komin upp algerlega ný staða í íslenskum landbúnaði. Verði samningurinn staðfestur er kjötframleiðslu og -úrvinnslu á Íslandi stefnt í algert uppnám. Tollkvótar á bæði kjöt- og mjólkurafurðum eru hátt hlutfall af markaði, þannig að verulegar líkur eru á að þeir muni hafa víðtæk áhrif á verðlagningu á öllum þessum afurðum. Þá verður það að teljast næsta broslegt að sjá að ESB skuli veittur sérstakur aðlögunartími vegna innleiðingar á tollfrjálsum innflutningi frá Íslandi til sambandsins, á magni sem er brotabrot úr prósenti af framleiðslunni þar. Eins má það telja með miklum endemum, að ekki er að sjá að neitt tillit hafi verið tekið til þess að munur á framleiðsluumfangi samningsaðilanna er meiri en þúsundfaldur í nánast öllum vöruflokkum. Mjólkuriðnaðarfyrirtækið Arla Foods vann eitt og sér úr 13,4 milljónum tonna af mjólk árið 2014. Það er nákvæmlega hundrað sinnum meira magn en unnið var úr hér á landi í fyrra, svo dæmi sé tekið.
Áhrif samningsins verða að óbreyttu mikil á tekjur bænda og munu veikja verulega rekstrargrundvöll einstakra búgreina. Nautakjötsframleiðslan hefur um langt skeið átt undir högg að sækja og afkoma greinarinnar verið erfið, sama má segja um svínaræktina og óljóst hvort sú grein muni standa þennan nýja veruleika af sér. Veruleg samlegðaráhrif eru í slátrun og úrvinnslu kjötgreinanna hér á landi og því hefur það mikil áhrif til aukinnar óhagkvæmni á þær allar, dragist ein þeirra verulega saman. Verst er þó að ávinningur neytenda er á engan hátt tryggður með þessari aðgerð. Svínabændur hafa ítrekað bent á að smásöluverð á afurðum þeirra hafi hækkað á sama tíma og verð til þeirra lækkaði. Eins má minna á að nýlega var í pistli hér á síðunni greint frá því að smásöluverð verðlagsbundinna mjólkurvara hækkaði um allt að 9,7% á sama tíma og heildsöluverð stóð í stað, en vænta mátti 2,5% verðhækkunar vegna skattkerfisbreytinga. Ekki skal fullyrt hér að smásalar muni taka til sín þann ávinnig sem neytendum er ætlaður með þessum samningi, en eitt er víst að sporin hræða.
Vinna við gerð nýrra búvörusamninga er nú nýlega hafin og höfðu fulltrúar kúabænda, eins og annarra búgreina mótað samningsmarkmið í aðdraganda þess, m.a. á síðasta Búnaðarþingi og aðalfundi LK. Eins kom nú í sumarbyrjun út skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands „Mjólkurframleiðsla á Íslandi, staða og horfur“, þar sem dreginn er fram ríkulegur árangur af því fyrirkomulagi sem í gilt hefur í mjólkurframleiðslu hérlendis síðustu ár fyrir neytendur og bændur. Í ljósi þess hefur verið gengið til þessara samninga með það markmið að byggt verði á þeim árangri sem náðst hefur í gildandi kerfi, en lagfærðir verði þeir ágallar sem reynslan hefur leitt í ljós og sniðið til samræmis við ríkjandi samfélagsviðhorf. Þá hafði verið stefnt að gerð rammasamnings sem samningar einstakra greina yrði felldir undir. Þessi nýji tollasamningur breytir þeirri mynd allri og flestar þær forsendur sem lagt var upp með frá hendi bænda í samningagerðinni þar með í uppnámi.
Síðustu misseri hafa margir kúabændur ráðist í fjárfestingar á búum sínum og enn aðrir ráðgera framkvæmdir í nánustu framtíð. Enda ljóst að fjárfestingaþörf greinarinnar er veruleg vegna aukinna krafna um aðbúnað gripanna, sem birtast m.a. í nýrri reglugerð um velferð nautgripa og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gaf út um síðustu áramót. Kostnaður vegna úreldingar á rúmlega 300 básafjósum er t.a.m. um 18 milljarðar kr. Hver er staða þessara bænda nú? Gera verður þá kröfu að ríkisvaldið komi að fullum krafti til samninga um rekstarumhverfi einstakra búgreina sem tollasamningurinn nær til, þannig að samkeppnisstaða þeirra verði efld. Hvað nautgriparæktina varðar, er þess krafist að gerður verði samningur bæði vegna mjólkur- og nautakjötsframleiðslu sem skapi bændum rekstargrundvöll og geri þeim kleyft að nýta þau sóknarfæri sem til staðar eru á móti því tapi sem tollasamningurinn veldur.
Að lokum skal hér minnt á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks segir m.a. „Ríkisstjórnin lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Vaxandi eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir. Með það fyrir augum er brýnt að kanna með hvaða hætti er unnt að auka verðmætasköpun og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins“. Bændur vænta þess að grundvallar stefnu ríkisstjórnarinnar fylgi efndir; þeir samningar sem undirritaðir voru í síðustu viku ganga þvert gegn þeim markmiðum sem þar eru sett.
Sigurður Loftsson
Formaður Landssambands kúabænda