Beint í efni

Það er bjart framundan

20.09.2016

Jæja kæru kollegar, það kom að því! Nú hafa búvörusamingarnir loksins verið samþykktir eftir rúmlega 200 daga meðferð þingsins. Með þessu dýrmæta skrefi höfum við bændur þá fyrirliggjandi samning til 10 ára sem skapar okkur frið og starfsskilyrði sem nauðsynleg eru í atvinnugrein eins og okkar.


 


Búvörulögin tóku breytingum í meðferð Atvinnuveganefndar. Í tillögum nefndarinnar koma fram vilji hennar til að mynda sem breiðasta sátt um landbúnað á Íslandi og lagði hún meðal annars til að landbúnaðarráðherra skipaði sem fyrst samráðsvettvang stjórnvalda, bænda, neytenda, afurðastöðva, launþega og atvinnurekenda. Megum við svo í framhaldinu reikna með að ráðherra myndi þennan vettvang en hann hefur líst því yfir að það muni hann gera fyrir komandi kosningar.


 


Það mun svo sannarlega ekki standa á bændum að koma að slíkri vinnu og í raun fögnum við því að fá tækifæri til að setjast við borð þar sem yfirlýst markmið er að vinna að landbúnaðarstefnu sem sátt er um.


 


Eitt meginstefið í afgreiðslunni og í raun kannski það sem myndaði nauðsynlega sátt á Alþingi um samningana er að allmiklu „kjöti“ var bætt á endurskoðunarákvæðið 2019. Atvinnuveganefndin setti fram allítarlega forskrift í níu tölusettum liðum þar sem fram kemur hvernig standa skuli að endurskoðun samningana 2019. Það má því segja að nú á haustdögum hefjist vinna við að mynda þjóðarsátt um landbúnað á Íslandi, þjóðarsátt sem nauðsynlegt er fyrir alla að náist. Í raun hefst núna þriggja ára samningalota þar sem við bændur fáum tækifæri til að sýna fram á mikilvægi þess starfs sem við erum að sinna fyrir þjóðarbúið. Þetta er tækifæri sem við getum ekki látið okkur úr greipum ganga því það er allra hagur að sem flestir skilji og átti sig á því hvernig samfélag er uppbyggt og hvernig það virkar.


 


Ég veit hreinlega ekki hvort ég á að nefna í þessum pistli mínum eitthvað um þjóðfélagsumræðuna síðustu daga, svo ömurleg og óvægin hefur hún verið. Umræðan náði alveg nýjum lægðum í síðustu viku þegar Finnur Árnason forstjóri Haga sagðist ekki hafa fyrr gert sér grein fyrir því að búvörusamningarnir innihéldu í raun ríkisstyrkt dýraníð. Ummæli sem þessi dæma sig sjálf og lýsa í raun yfirgripsmikilli vanþekkingu viðkomandi og þvi að það er eitthvað annað sem drífur svona manneskjur áfram en takmarkalaus þörf fyrir að gera vel við neytendur, neytendur láta ekki bjóða sér svona!


 


En það er líka fullt af spennandi og skemmtilegum hlutum að gerast! Nú eru framkvæmdir við nýja einangrunarstöð Nautís á Stóra Ármóti komnar á fullt. Búið er að girða af rúmlega 40 hektara hólf sem ætlað er gripunum á stöðinni, gröftur er hafinn og hönnun er á lokastigi. Fósturvísar verða svo fluttir til landsins um leið og færi gefst en unnið er að útgáfu heilbrigðisvottorða fyrir fósturvísana en vonandi fer nú að komast skriður á þetta mál.


 


Þann 8. september var haldinn fundur hjá fagráði í nautgriparækt þar sem lagðar voru línur svo hrinda megi vinnu af stað  í sambandi við GS verkefnið eða „val á grunni erfðamengis“. Þetta er gríðarlega spennadi verkefni sem, ef allt gengur upp, á að geta gjörbyllt ræktunarmögleikum íslenska kúakynsins. Á fundinum var lagt upp með að ráðinn yrði verkefnisstjóri sem strax færi í að leita eftir fjármagni og að „teikna“ upp verkefnið.


 


Haustfundir LK standa nú fyrir dyrum en þeir verða óvenju seint á ferðinni þetta árið en eins og allir vita stendur til að kjósa til Alþingis þann 29. október n.k. Það var því mat okkar i stjórninni að halda fundina ekki fyrr en að loknum kosningum og erum við að horfa á að byrja fyrstu vikuna í nóvember en fundirnir verða rækilega augýstir þegar nær dregur.


 


Áður en ég hætti að þessu sinni þá langar mig að minnast á að það er gríðarlega mikilvægt fyrir greinina okkar að halda núna loksins á 10 ára samningi sem markar starfskilyrðin okkar. Það voru ekki allir sáttir við allt sem í búvörusamningnum stóð en nú liggur þetta fyrir og þetta er plaggið sem við verðum að vinna eftir næstu árin. Við skulum snúa bökum saman, ég hef trú á því að það sé bjart framundan því sérstaða Íslands er algjör þegar kemur að matvælaframleiðslu!


 


Nýtum okkur það og horfum bjartsýn áfram veginn


 


Hranastöðum í september 2016


Arnar Árnason