Ný viðmið um velferð nautgripa
19.01.2015
Skömmu fyrir jól var gefin út ný reglugerð um velferð nautgripa, nr. 1065/2014. Reglugerðin byggir á lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Reglugerðin leysir af hólmi reglugerð um aðbúnað nautgripa sem sett var árið 2002. Tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja velferð og heilbrigði allra nautgripa með góðri meðferð, umsjá og aðbúnaði. Leitast skal við að nautgripir geti lifað í samræmi við sitt eðlilega atferli eins og framast er kostur. Í reglugerðinni koma fram lágmarkskröfur um einstök atriði. Landssamband kúabænda fagnar því að reglugerðin sé loks komin fram, en vinna við gerð hennar hefur staðið yfir í hálft annað ár. Samtökin vonast eftir góðu samstarfi við stjórnvöld og eftirlitsaðila við að hrinda henni í framkvæmd. Þá hafa samtökin, í samstarfi við Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði, tekið saman stefnu um fyrirmyndarbú sem send verður til bænda á næstunni.
Ein af stóru breytingunum frá fyrri reglugerð, er að nú er gerð krafa um að öll nýbyggð fjós skuli vera lausagöngufjós. Í sjálfu sér felst ekki mikil breyting í þeirri kröfu einni og sér, þar sem nánast öll fjós sem byggð hafa verið undanfarin ár hafa verið lausagöngufjós. Einnig er kveðið á um að nautgripir skulu haldnir í fjósum þar sem þeim er tryggð dagleg hreyfing. Hinn almenni skilningur er sá að básafjós með mjaltabás, þar sem kýr fara til mjalta tvisvar á dag, uppfylli skilyrði um daglega hreyfingu.
Veigamesta breytingin er sú sem kveður á um að ekki sé heimilt að halda kýr í básafjósum, þar sem kúm er ekki tryggð dagleg hreyfing, frá og með 1. janúar árið 2035. Samkvæmt skýrslu Landssambands kúabænda frá 2013 um Þróun fjósgerða og mjaltatækni á Íslandi 2011-2013, voru í árslok það ár rúmlega 320 básafjós í notkun hér á landi, eða um 50% af öllum fjósum. Árið 2003 voru rúmlega 86% fjósanna hefðbundin básafjós. Útgáfa reglugerðarinnar markar mikil tímamót, þar sem að í henni felst yfirlýsing íslenskra stjórnvalda að þessi fjós skuli aflögð á næstu tveimur áratugum og ný byggð í þeirra stað. Það er hátt í 20 milljarða króna fjárfesting að mati Landssambands kúabænda. Þá er gengið út frá að hver bás, ásamt uppeldisaðstöðu, kosti um tvær milljónir króna. Þetta er einnig yfirlýsing um væntanlega þróun á fjölda kúabænda, þar sem gera má ráð fyrir að fyrir hvert nýtt fjós sem byggt verður, verði a.m.k. þrjú aflögð í framleiðslu. Ganga verður út frá því að samningar um starfsskilyrði greinarinnar taki mið af þessari stefnu stjórnvalda.
Gefinn er aðlögunartími til 1. október 2016 til að ná lágmarks málum á básum í básafjósum; lengd 140 cm, breidd 110 cm, herðakambsslá ekki lægri en 135 cm, opnir flórar ekki dýpri en 25 cm, hæð jötukants að hámarki 20 cm og átsvæði a.m.k. 5 cm hærra en gólfið sem gripir standa á. Þessi ákvæði krefjast víða umtalsverðra framkvæmda, þannig að sá aðlögunartími sem hér er gefinn er of knappur að mati LK. Burðarstíur skulu vera komnar í fjós eigi síðar en 31. desember árið 2024.
Ákvæði um getu, hæfni og ábyrgð er einnig nýmæli, en þar er kveðið á um að hver sá sem ber ábyrgð á umönnun nautgripa „hafi lokið prófi í búfræði frá landbúnaðarskóla, lokið námskeiði í nautgripahaldi viðurkenndu af Matvælastofnun eða hafi starfað við umsjá nautgripa sem nemur tveimur árum í fullu starfi“.
Nýtt ákvæði er um lágmarks aldur við æxlun, en samkvæmt nýju reglugerðinni er óheimilt að kelfa kvígur yngri en 11 mánaða gamlar. Almennt er miðað við að kvígur skuli kelfdar við 15 mánaða aldur, eða þegar þær hafa líkamlegan þroska til. Þá er óheimilt að kelfa kvígur með holdanautum. Í reglugerðinni er einnig gerð krafa um 8 vikna útivist á beitilandi á hverju sumri.
Í nýju reglugerðinni er ákvæði um hvernig skuli staðið að aflífun gripa og er það til bóta, enda afar mikilvægt að rétt sé staðið að slíku. Ákvæði um aflífun er þó gallað að því leyti til, að umráðamenn nautgripa eru skyldaðir til að tilkynna Matvælastofnun um aflífun gripa „samdægurs“. Þar sem sú ágæta stofnun er lokuð í a.m.k. 114 daga á ári, getur hún ekki tekið við slíkum tilkynningum þá daga, því er nauðsynlegt að endurmeta þetta ákvæði.
Í 17. gr. um útivist segir að „gripir sem eru úti skulu geta leitað skjóls fyrir veðrum. Að vetri skal skjól þetta vera gripahús eða legusvæði í skýli sem tekur mið af þörfum viðkomandi gripa“. Að mati Landssambands kúabænda er nauðsynlegt að skilgreina nánar hvað telst vera skýli sem tekur mið af þörfum viðkomandi gripa.
Í viðaukum við reglugerðina koma fram helstu mál og stærðir í gripahúsum. Leyfð eru 10% frávik frá þeim gildum í byggingum sem byggðar eru fyrir gildistöku reglugerðarinnar. Þá er heimilt að hafa 5% fleiri gripi en básar eru fyrir í lausagöngufjósum með mjaltaþjónum, þar sem umferð kúnna er með þeim hætti að básarnir eru aldrei allir í notkun samtímis.
Eins og að framan hefur verið rakið, má lesa viðmið samfélagsins um aðbúnað og velferð gripa út úr hinni nýju reglugerð. Suma þætti þessara viðmiða er mjög kostnaðarsamt að koma til móts við, meðan aðra þætti má leysa á einfaldan og ódýran hátt. Það má þó ekki gleymast að góður aðbúnaður er undirstaða að vellíðan og heilbrigði búpenings, miklum afurðum og góðri afkomu bænda.
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda