Beint í efni

Hverjar eru aðlögunarkröfur Evrópusambandsins?

08.09.2011

Mánudaginn 5. september sl. sendi starfsmaður samningahóps um landbúnaðarmál og byggðaþróun sk. rýniskýrslu nefndar fastafulltrúa aðildarríkja ESB til fulltrúa í hópnum. Skýrslan skiptist í þrjá kafla, sá fyrsti er almenn innihaldslýsing, annar er yfirlit yfir það sem fram kom á rýnifundum um landbúnaðarmál sem haldnir voru sl. vetur og gerð hefur verið grein fyrir. Sá þriðji og veigamesti fjallar um mat ESB á hversu mikið beri í milli á landbúnaðarstefnu Íslands og ESB og getu Íslands til að hrinda hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu í framkvæmd.


 


Það er mat ESB að verulegur munur sé á ráðstöfunum þeim sem notaðar eru hér á landi til að styðja við landbúnað og hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu sambandsins, CAP. Sama gildi um stofnana- og lagaumhverfi allt. Með aðild Íslands að ESB þurfi að tryggja framgang hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu og kalli það á mikla aðlögun löggjafar, stjórnkerfis og stofnanaumhverfis landbúnaðarins hér á landi.
 

Tekið er fram að Ísland hafi ekki látið í té neinar tímasettar áætlanir varðandi undirbúning þessarar aðlögunar. ESB tekur fram að slíkar áætlanir séu ófrávíkjanlegur grundvöllur viðræðna um landbúnaðarkaflann, til að tryggja að viðeigandi aðlögun fari fram á skikkanlegum tíma og í samræmi við þann ramma sem viðræðum um einstaka kafla er settur. Ísland hafi haldið þeirri afstöðu fram að gera engar breytingar, fyrr en eftir að aðild hafi verið samþykkt, því sé afar mikilvægt að biðja Ísland um að leggja fram áætlun um hvernig öllum kröfum ESB verði mætt frá fyrsta degi aðildar.


 


Nokkur atriði eru tiltekin í skýrslunni sem sérlega mikilvæg:


 


1. Stofnun Greiðslustofu landbúnaðarstuðnings (e. Paying agency) og viðeigandi eftirlitskerfis sem að fullu sé í samræmi við kröfur ESB. Geta stjórnkerfis landbúnaðarmála hér á landi sé takmörkuð og nýta þurfi það stjórnkerfi sem fyrir er sem best og taka mið af fábreyttri landbúnaðarframleiðslu og tiltölulega fáum bændum. Engu að síður verði greiðslustofa þessi að standast allar kröfur og reglur ESB og gildi þá einu hvort verkefnin eru lítil eða stór. Þetta stjórnkerfi þarf að vera til staðar áður en af aðild verður.


 


2. Landupplýsingakerfi (e. Land Parcel Identification System). Tekið er fram að hér á landi finnist ekki tölvuvætt landupplýsingakerfi, þar sem hægt sé að kalla fram landamerki, stærð og yfirborð einstakra landskika. Nauðsynlegt sé að kanna möguleika á upptöku slíks kerfis sem taki mið af búháttum, sérstaklega hinni umfangsmiklu úthagabeit.


 


3. Fyrirkomulag hagtölusöfnunar og búreikningauppgjörs er verulega frábrugðið fyrirkomulaginu í ESB. Breyta þarf svæðaskiptingu, flokkun búa, uppsetningu gagna og fyrirkomulagi á söfnun þeirra til samræmis við FADN (e. Farm Accountancy Data Network).


 


Í kjölfar útgáfu rýniskýrslu ESB um landbúnað og dreifbýlisþróun ásamt bréfi fastafulltrúa Póllands, sem gegnir formennsku í sambandinu þetta misserið, frá ESB til íslenskra stjórnvalda, hefur hafist hefðbundið karp og skæklatog um það hvað stendur í skýrslunni og hvað bréfið þýði. Samtökum bænda er fullljóst hvað þetta þýðir – gerð er krafa um aðlögun að lögum og reglum sambandsins jafnt og þétt, eftir því sem viðræðum vindur fram. Sé þeirri aðlögun ekki sinnt, stöðvast viðræðurnar, eða geta ekki hafist. Þessa staðreynd gengur jafnvel málsmetandi mönnum illa að skilja. Því er ekki úr vegi að skoða hvernig fyrirkomulagið er í öðrum löndum, sem sótt hafa um aðild að ESB á síðustu árum.


 


Sem kunnugt er stefnir Króatía að aðild að ESB. Sótt var um aðild árið 2003, rýnivinna hófst haustið 2005, viðræðum lauk 30. júní 2011 (síðasta kaflanum lokað), gert er ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning á útmánuðum 2012 og aðild 1. júlí 2013. Króatía er prýðilegt dæmi, þegar um er að ræða kafla sem ekki tilheyra EES samningnum, eins og er tilfellið með 11. kafla um landbúnað og dreifbýlisþróun. Í aðlögunarviðræðum Króatíu var sá kafli opnaður 2. október 2009 og honum lokað 19. apríl 2011. ESB setti sem skilyrði fyrir opnun viðræðna um kaflann, að söfnun hagtalna um landbúnað yrði komið í nauðsynlegt horf, áður en viðræður hæfust.


 


Í framvinduskýrslu ESB um aðlögunarviðræður Króatíu 2010, sem nær yfir tímabilið október 2009 út september 2010, kemur aðlögunin skýrt fram, eins skýrt og nokkur kostur er. Árangur aðlögunarinnar er metinn á grunni ákvarðana sem teknar hafa verið, löggjafar sem tekin hefur verið upp og ráðstöfunum sem hrint hefur verið í framkvæmd. Aðlögunarstyrkir ESB til Króatíu árið 2010 voru 154 milljónir evra, eða 24,6 milljarðar króna. Hlekkur á skýrsluna er hér aftast í pistlinum. Í henni segir m.a. um framvinduna í landbúnaðarmálum:


 


1.      Á árinu 2010 var lögð fram ný landbúnaðarstefna fyrir árin 2010-13 sem hafi umbætur á núverandi stefnu að markmiði og aðlögun að CAP, sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins.


2.      Vel miðaði í að setja á stofn greiðslustofu landbúnaðarstuðnings og að koma á fót stafrænu landupplýsingakerfi. Þessi tvö atriði eru lykillinn að áframhaldi viðræðna um þennan kafla. Uppsetning eftirlitskerfis gengur einnig vel.


3.      Þokkalega gekk að koma á fót búreikningastofu, meiri mannafla er þó þörf í þetta verkefni að mati skýrsluhöfunda.


4.      Vel miðaði að koma á fót sameiginlegu markaðsskipulagi (e. commom market organisation).


5.      Skráningarkerfi vínbúgarða verður komið í fullan gang (e. fully functional) fyrir árslok 2010.


 


Af þessu má ráða, að allt tal um að aðlögunin geti farið fram eftir að íslenska þjóðin hefur gefið jáyrði sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu, eru staðlausir stafir. ESB setur opnunarskilyrði (bréfið frá Jan Tobinski, fastafulltrúa Póllands) og lokunarskilyrði (e. closing benchmark) varðandi einstaka kafla aðildarsamnings. Þó það sé ekki sagt hér, þá liggur beint við að lokunarskilyrðin verði í grófum dráttum þau, að búið sé að aðlaga hlutina að því fyrirkomulagi sem gildir í hinu háa Evrópusambandi, áður en gengið er frá samningnum og hann staðfestur af öðrum aðildarríkjum. Það er eina leiðin fyrir ESB til að tryggja að fyrirkomulag hlutanna verði eins og það gerir kröfu um í aðildarríkjum bandalagsins. Þegar að þjóðaratkvæðagreiðslunni loksins kemur, standa kjósendur frammi fyrir orðnum hlut.


 


Baldur Helgi Benjamínsson


Framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda


 


Framvinduskýrsla Króatíu 2010


 


Bréf fastafulltrúa Póllands til íslenskra stjórnvalda


 


Rýniskýrsla Evrópusambandsins um landbúnað og dreifbýlisþróun