Beint í efni

Er skynsamlegt að auka stuðning við kornræktina?

23.08.2011

Ég held að það sé nokkuð séríslenskt fyrirbæri að þegar fólk hittist eða heyrist að þá er byrjað að ræða veðurfarið og ýmislegt því tengt og ætla ég  einmitt að byrja á því í þessum pistli.
Hér í Þingeyjarsýslu, og held ég að það eigi við um mest allt Norðurland, voraði vel en fljótt kom í  ljós að tún voru víða mikið skemmd af kali.
Upp úr miðjum maí kólnaði mjög eins og kunnugt er,  öll spretta stoppaði þannig að víða var fé á gjöf nánast út júní og kýr voru víðast að koma út í  byrjun júlí.
Sláttur hófst ekki almennt fyrr en upp úr miðjum júlí en er nú að mestu lokið þegar þetta er skrifað. Ljóst er að háarsláttur verður mun minni en undanfarin ár og grænfóður er illa sprottið og því óljóst hver uppskeran verður.

 


Litlar líkur eru á að bygg nái þroska að neinu ráði á þessu hausti hér Norðanlands. Sýnir það hversu vangæf sú ræktun getur verið  þó svo að hún hafi lukkast sæmilega af og til. Hér í Þingeyjarsýslu var í vor sáð byggi í 160-170 ha. Það er talið að kosti um 100.000 kr. að sá í ha. þannig að þarna fara verulegir fjármunir í súginn. Það er talað um að nýta megi byggið sem grænfóður þegar það nær ekk þroska og minnka þannig tjónið en það verður þá að gerast það snemma að það sé lítið eða ekki skriðið, annars er það mín reynsla að slíkt er mjög ólystugt fóður. Það er reyndar erfitt oft að meta þetta. Nýleg grein eftir Jónatan Hermannsson á vef Bændablaðsins ætti að auðvelda mönnum þetta mat, þó hún kæmi fullseint til þess í sumar.  Enginn styrkur fæst út á bygg nema það sé þreskt sem m.a. hefur gert það að verkum að menn hafa verið að þreskja það mjög illa þroskað og jafnvel að þurrka það með olíu. Hafa svo staðið uppi með dýrt og lélegt fóður.


 


Það hefur mikið verið rætt á hátíðarstundum að kornrækt ætti mikla framtíð fyrir sér hér á landi og önnur ræktun sem hingað til hefur farið fram á suðlægari breiddargráðum. Það eru vafalítið til svæði hér á landi sem þessi ræktun á framtíð fyrir sér en sumarið í sumar sýnir okkur að það á ekki allstaðar við. Þær hugmyndir úr ráðuneyti Jóns Bjarnasonar að stórauka beri styrk til kornræktar, kemur því til þess að gera fáum bændum til nota. Það er mér er svosem ekki áhyggjuefni, nema fyrir þær sakir að ólíklega fæst til þess fjármagn nema taka það af öðrum ríkisframlögum sem flestir bændur njóta, þ.e. öðrum ræktunarframlögum eða beingreiðslum.
Alla vega verður að gera vandaða úttekt á því hvar sé  vænlegast að sá byggi hér á landi og hversu mikið sé hægt að framleiða áður en þetta er gert.  Það ætti að vera komin allgóð góð reynsla manna á því með þessari „frímerkjaræktun‘‘ vítt og breitt um land.  Mér finnst ef við þurfum að breyta okkar styrkjakerfi á þann hátt að minnka vægi beingreiðslna, þá njóti öll ræktun þess. Það kemur fleiri bændum að notum og ég held að við getum bætt okkar fóðuröflun almennt á hagkvæmari hátt en með kornrækt.  Enginn má þó skilja orð mín svo að ég vilji mála kornræktina út horn. En ég vona að ráðherra fari ekki út í neinar aðgerðir nema í nánu samstarfi við samtök bænda.


 


Að undanförnu hefur farið fram sterk umræða, einkum á meðal verslunar í landinu, um að afnema beri allar hömlur á að flytja inn kjöt á sama tíma og verulegur samdráttur er í sölu á kjöti hér á innanlandsmörkuðum. Það er kannski skiljanlegt að verslunaraðilar berjist fyrir þessu þar sem eingöngu er hugsað um stundargróðann, en að ýmsir framámenn í þjóðfélagi sem berst við atvinnuleysi og skort á gjaldeyri skuli taka undir þetta er lítt skiljanlegt. Ég held nú samt að bændur eigi svolitla sök á því hvernig þessi umræða hefur þróast á liðnum vikum með heldur klaufalegri framsetningu á annars nokkuð eðlilegri kröfu á hækkun á launalið sínum. Þetta segir okkur það að nú sem aldrei fyrr þurfi að vanda okkar málflutning þegar að svo veigamiklum þáttum kemur í afkomu bænda.


Nýlega var sagt frá því í fréttum að umsóknum í búfræði og búvísindanám hefði tvöfaldast á liðnum misserum. Vonandi er það ekki atvinnuleysisvofan sem ræður því, heldur það að unga fólkið hefur trú á okkar að mörgu leiti ágæta landbúnaði.


 


Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Búvöllum