Við tökum umræðuna hvenær sem er
06.08.2016
Bændur bíða þess nú að búvörusamningar, sem samþykktir voru í atkvæðagreiðslu í mars, verði staðfestir á Alþingi í þessum mánuði. Samningarnir eiga að taka gildi um næstu áramót, með fyrri endurskoðun eftir 3 ár. Það er mikilvægt fyrir samfélagið í heild að móta stefnu í landbúnaðarmálum. Það geta allir verið sammála um mikilvægi þess að tryggja matvælaöryggi í landinu og að neytendur hafi ávallt aðgang að heilnæmum landbúnaðarafurðum. Það er jafnframt stolt Íslendinga að geta boðið þeim fjölda erlendu ferðamanna sem hingað koma uppá íslenskar afurðir og þá upplifun að ferðast um blómlegar sveitir allt í kringum landið, sem bera þess vott að þar starfi dugmikið fólk.
Til þess að svo megi verða um komandi framtíð eru nokkur atriði sem mikilvægt er að vekja athygli á. Samþætting opinberra áætlana, m.a. á sviði byggðamála, menntamála, orkumála, samgangna og fjarskipta er mikilvæg í þeim tilgangi að bæta búsetuskilyrði og auka samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni. Raforkuverð, samgöngur og einnig félagslegt umhverfi hvers svæðis hefur þannig áhrif á rekstrarumhverfi allra kúabúa á Íslandi og árangur atvinnugreinarinnar í heild.
Samhliða undirritun á búvörusamningi í febrúar síðastliðnum samþykktu, Sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra og Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkis og Bændasamtök Íslands, bókun sem miðar að því að treysta innviði og búsetu í sveitum. Þar er jafnframt tekið fram að litið verði til úrræða til að treysta fjárhag bænda og greiða enn frekar fyrir ættliðaskiptum á bújörðum. Starfshópur hefur verið skipaður í þessa vinnu og er það vel.
Félagar í Landssambandi kúabænda reka sín framleiðslufyrirtæki um allt land. Það getur því ekki verið annað en krafa samtakanna að ríkisvaldið komi til framkvæmda þeim stefnumálum sem á döfinni hafa verið. Samstarfssamningar sem ríki gerir við einstaka atvinnugreinar eða aðgerðaráætlanir til að bæta og jafna lífsskilyrði á landinu þurfa að ná fram að ganga. Bæði vegna hagsmuna samfélagsins alls og rekstraröryggis atvinnugreinanna. Jafnframt er það viðfangsefni kúabænda að marka stefnu búgreinarinnar til næstu framtíðar. Slík umræða þarf að eiga sér stað á nokkurra ára fresti, þar sem horft er til getu og sóknarfæra í greininni. Það sem við blasir er að neytendur gera kröfu um hagstætt matvöruverð, fjölbreytt vöruúrval og nægt framboð. Aukin krafa er um bættan aðbúnað dýra og umhverfisvæna framleiðslu. En um leið er gerð krafa um blómlega byggð í landinu og öflugan landbúnað.
Við sem störfum við mjólkur- og nautakjötsframleiðslu gerum kröfu um eðlilega rekstrarafkomu og sambærileg vinnu- og búsetuskilyrði og aðrar stéttir. Við viljum einnig að slagkraftur atvinnugreinarinnar njóti sín, viðhalda fjölda framleiðenda, nýliðun sé auðveld, framþróun verði í bútækni og að félagsstarfið sé öflugt. Þessi sjónarmið er oft vandasamt að samræma, en það eru áskoranir sem kúabændur eru óhræddir við að takast á við á hverjum tíma. Það hefur sýnt sig undanfarin ár að kúabændur eru fljótir að bregðast við breytilegum markaðsaðstæðum og grípa þau tækifæri sem bjóðast. Mikil hagræðing hefur orðið í mjólkurframleiðslunni og slagkraftur búanna aukist. Spennandi tímar eru framundan í nautakjötsframleiðslunni með innflutningi erfðaefnis og uppbyggingu ræktunarkjarna holdagripa. Umræðu um stefnumörkun heima á hverju búi, hjá atvinnugreininni og um stöðu okkar í samfélaginu taka kúabændur hvenær sem er.
Elín Heiða Valsdóttir, Úthlíð
Meðstjórnandi í stjórn LK