Á landbúnaðurinn framtíð fyrir sér?
04.08.2011
Naprir vindar hafa blásið um landbúnaðarinn síðustu misseri. Norðanáttin réði ríkjum í maí og júní með löngu og köldu vori. Á norðan og vestanverðu landinu hefur úrkoman látið á sér standi þar til síðustu daga. Á Suðausturlandi var öskubylur meðan gekk á með snjóbyl á norðaustanverðu landinu.
En bændur eiga ekki aðeins í glímu við náttúruöflin. Eftir að ljóst varð að bændur yrðu helsta fyrirstaðan fyrir ESB vegferð ríkisstjórnarinnar, hafa ESB miðlarnir látið spjótin standa á bændum og íslenskum landbúnaði. Ekki virðist skipta neinu hvort satt er eða logið, fjölmiðlar eru sí og æ mataðir af röngum og villandi fréttum um landbúnaðinn. Ekki er mikill efi í mínum huga hvaðan þær „fréttir“ koma, frá þeim sem vilja Ísland í Evrópusambandið, hvað sem tautar og raular. Það væri til að æra óstöðugan að rifja upp allar þær rangfærslur sem komið hafa fram um landbúnaðinn þetta árið. Ég verð þó að nefna þau tvö atriði sem hæst ber nú um stundir, að kjöt sé urðað í stórum stíl til að halda uppi verði og að útflutningsbætur séu greiddar með útfluttum matvælum. Útflutningsbæturnar voru afnumdar árið 1992 og að minnsta kosti tveir áratugir eru síðan hlass af hrútakjöti var urðað. Það sem undarlegast er að þeir sem fremstir ganga í þessum ósannindavaðli frá laun sín greidd frá ríkinu.
Kúabændur hafa búið við nokkuð stöðugt rekstrarumhverfi um langt skeið og hefur Mjólkursamningur við ríkið verið framlengdur til ársloka 2014. Mjólkurframleiðendur þurfa að kaupa greiðslumark til komast inn í kerfið. Kvótaverð hefur lögnum verið hátt og núverandi framleiðendur, a.m.k. þeir yngri, hafa að stórum hluta keypt sig inn í kerfið með tilheyrandi kostnaði. Komið var á kvótamarkaði vorið 2010 en framboð að kvóta hefur verið lítið.
Það er ekki fullkomin sátt um kvótakerfið. Umframmjólkin á að fara til útflutnings en þó eru aðilar sem selja mjólk umfram kvóta á innanlandsmarkað. Segjast jafnvel framleiða án styrkja þó svo að þeim þiggi tugi milljóna í beingreiðslur. Ungbændur hafa líka látið í sér heyra því að erfitt er að hefja búskap. Það er reyndar ekki sjálfgefið að hver sem er geti hafið kúabúskap, að kaupa og hefja rekstur á þokkalegu kúabúi er 200-300 milljón króna fjárfesting. En stærsti vandinn er, að mínu mati, að eldri bændur eru yfirleitt ekki tilbúnir að hætta fyrr en verulega er farið að halla á í búskapnum. Þarna þarf því hugarfarsbreytingu og jafnframt stuðning við þá sem vilja hefja búskap.
Fyrir þá sem keypt hafa kvótann dýru verði er mikilvægt að staðið verði við núverandi samning og ekki gerðar fyrirvaralausar breytingar. Þyngst hefur verulega í rekstrinum, öll aðföng hækkað um tugi prósenta eða jafnvel meira. Erfitt er að sækja alla þá hækkun til neytenda. Að auki hafa lánin stökkbreyst og nú næstum þremur árum frá hruni fást ekki enn svör frá bönkunum hvort erlendu lánin verða leiðrétt.
En á landbúnaður framtíð fyrir sér á Íslandi? Mitt svar er tvímælalaust já. Þrátt fyrir „heilagt stríð“ ESB sinna á móti íslenskum landbúnaði held ég að meirihluti landsmanna vilji blómlegar sveitir, íslenskar kýr í haga, græn tún og bleika akra.
Guðrún Lárusdóttir, varamaður í stjórn LK