Beint í efni

Bylting í aðbúnaði mjólkurkúa

02.08.2014

Á Íslandi hafa kýr staðið á básum frá landnámi. Fyrir nokkrum árum fannst 20 gripa fjós í garðinum hjá okkur í Keldudal og er það talið vera frá 9. eða 10. öld. Í því fjósi eru básarnir ásamt átplássi 1,20 – 1,30 m á lengd og 1,00 – 1,10  m á breidd og þættu ekki boðlegir í dag, enda kýrnar eflaust talsvert stærri nú en á fyrstu öldum Íslandsbyggðar.
 


Í nýlegri samantekt Landssambands kúabænda kemur fram að fyrir 20 árum voru 3,6% fjósa hér á landi lausagöngufjós en árið 2013 var hlutfall lausagöngufjósa komið í 38,6% og í þeim var um 56% mjólkurinnar framleidd. Á aðeins 20 ára tímabili hefur því orðið bylting í aðbúnaði mjókurkúa á Íslandi, enda leikur ekki vafi á því að betur fer um kýr sem valsað geta um í lausagöngufjósum heldur en þær sem bundnar eru á bás vetrarlangt. Byggður hefur verið fjöldi nýrra fjósa og mörgum eldri fjósum verið breytt í lausagöngufjós þar sem kýrnar eru ýmist mjólkaðar með mjaltaþjóni (róbót) eða í mjaltabás. Bændur hafa því lagt í gríðarlegar fjárfestingar því ekki er nóg að byggja og bæta, einnig hafa bændur þurft að kaupa greiðslumark dýru verði. Samhliða þessu hefur kúabúum fækkað, búin hafa stækkað og þannig hefur náðst fram nokkur hagræðing í mjólkurframleiðslunni. Meðalkúabú á Íslandi telur þó ekki nema um 40 kýr og má því furðu sæta þegar fréttamenn og bloggarar tala um verksmiðjubú. Stærsta kúabúið á Íslandi nær ekki einu sinni meðalbúi í Danmörku og einungis á um 12 búum eru fleiri en 100 kýr.


 
Yfirdýralæknir hefur gengið í lið með RÚV. Markmiðið viðist vera að kasta skít í íslenskan landbúnað og nú er komið að kúabændum. Öllu er tjaldað til og ekki skiptir máli hvort satt er eða logið. Fréttamenn RÚV eru margbúnir að vitna í skýrslu MAST þar sem fullyrt er að íslenskir kúabændur hafi brotið reglugerðir um aðbúnað mjólkurkúa um áratuga skeið. Núgildandi reglugerð er frá árinu 2002 (12 ára) og það hlýtur þá er vera eldri reglugerð sem yfirdýralæknir hefur í huga. Sé svo að bændur hafi komist upp með það um áratuga skeið að brjóta aðbúnaðarreglugerðir þá hljóta eftirlitsaðilar að þurfa að líta hraustlega í eigin barm. Það eru að minnsta kosti stórfurðuleg vinnubrögð hjá yfirdýralækni, að hóta bændum í fjölmiðlum í stað þess að vinna með bændastéttinni að úrbótum og beita þeim þvingunarúrræðum sem tiltæk eru ef einstakir bændur sinna ekki sínum skyldum.


 
Ekki þykir fréttnæmt að fúkalyfjanotum í íslenskum landbúnaði er einungis brot af því sem gerist í Evrópusambandinu, er t.d. rúmlega 30 sinnum meiri í Þýskalandi en á Íslandi og 20 sinnum meiri í Hollandi.


  
Í mínum huga hefur orðið algjör bylting í aðbúnaði mjólkurkúa á Íslandi síðustu 20 ár. Nýtt 60-70 kúa lausagöngurfjós með haughúsi, uppeldisaðstöðu og nauðsynlegum tækjabúnaði kostar vart undir 150 milljónum, að kvóta frátöldum. Það þarf því góðan skammt af bjartsýni og stórhug til að ráðast í slíkar framkvæmdir og því viðbúið að mjólk verði framleidd í básafjósum enn um sinn, enda ekkert sem bannar slíkt í núgildandi reglugerð.
 


Guðrún Lárusdóttir, Keldudal