Áskorandinn
27.07.2015
Finnur Árnason, forstjóri almenningshlutafélagsins Haga sem m.a. rekur verslanakeðjurnar Hagkaup og Bónus, skorar í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag, 27. júlí 2015, á stjórnvöld að endurskoða hækkun á mjólkurafurðum sem ákveðin var nýlega. Í grein sinni rekur Finnur stöðu á vinnumarkaði, verðlagsþróun, áhrif nýgerðra kjarasamninga þar á og segir m.a.: „Því skiptir miklu að aðhalds sé gætt í verðlagsmálum og verðbólgu haldið í skefjum. Þar sem kostnaðarauki á fyrri hluta samningsins er meiri, skapar það aukna hættu á þrýstingi á verðlag. Fyrstu 12-18 mánuðir samningstímans eru viðkvæmir og skipta sköpum. Hver ákvörðun fyrirtækja og stjórnvalda skiptir því miklu, því einungis ábyrg ákvörðunartaka mun skila kaupmáttaraukningu“. Í nýlegri verðlagskönnun Alþýðusambands Íslands kom fram, að á sama tíma og heildsöluverð mjólkurafurða stóð í stað, hafa mjólkurvörur hækkað einna mest í verslunum Haga; 6,9% í Hagkaup og 5,4% í Bónus. Þetta eru miklu meiri hækkanir en vænta mátti í kjölfar breytinga á virðisaukaskatti og afnámi sykurskatts.
Í nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kemur fram, að á árabilinu 2003-2013 hækkuðu mjólkurafurðir miklu minna en almennt verðlag hér á landi. Því til viðbótar hefur heildsöluverð mjólkurafurða verið óbreytt síðan 1. október 2013.
Afkoma Haga hf. er góð, eins og ráða má af ársreikningi og árshlutauppgjöri félagsins. Á síðasta reikningsári var hagnaður þess 3.838 milljónir króna, eða rétt 5% af veltu. Þegar keyptur er varningur að andvirði 5.000 kr í verslunum félagsins, fær það að jafnaði 250 kr í hreinan hagnað af þeim viðskiptum.
Finnur Árnason telur ákvörðun Verðlagsnefndar búvara óábyrga og vanhugsaða. Tímasetningin er ómöguleg. Hvað segir Finnur Árnason um 5-7% verðhækkanir á mjólkurafurðum, þegar tilefnið var 2,5%? Hversu ábyrgar voru þær ákvarðanir? Skipti tímasetning þeirra engu máli í þessu samhengi? Fyrir hvern var sú hækkun gerð?
Sigurður Loftsson
Formaður Landssambands kúabænda