Beint í efni

Heilbrigðiskröfur eftir hentugleikum

16.07.2012

Mikil þróun hefur átt sér stað í meðferð og framsetningu matvæla hérlendis síðustu áratugi. Þverrandi tengsl neytenda við framleiðendur og auknar kröfur um neytendavernd hafa kallað á sífellt strangari kröfur hins opinbera til matvælaframleiðenda um vöruvöndun og hollustuhætti. Ekki verður betur séð, hvað varðar íslenska matvælaframleiðslu, en að vel hafi til tekist í þessum efnum enda er tíðni matarsýkinga hérlendis með því lægsta sem gerist í heiminum.


 


Þeir kúabændur hérlendir sem stunda mjólkurframleiðslu hafa heldur ekki farið varhluta af þessari þróun. Stöðugt hefur verið aukið við kröfur um gæði hrámjólkur. Þessu hafa framleiðendur mætt með því að bæta þá aðstöðu og búnað sem tengist umhirðu mjólkurinnar og bæta aðbúnað gripanna. Er nú svo komið að gæði íslenskrar mjólkur standast fyllilega samanburð við það sem gerist meðal nágrannalanda okkar, þeirra landa sem fremst standa í þessum efnum á heimsvísu.

 


Þrátt fyrir þessa þróun hefur hér á landi verið um áratuga skeið í gildi bann við sölu á ógerilsneyddri mjólk og mjólkurvörum. Þessar kröfur voru á sínum tíma settar til verndar neytendum og til að útiloka útbreiðslu alvarlegra sýkinga af völdum matvæla. Hin seinni ár hefur reglulega komið upp umræða meðal bænda um hvort mögulegt sé að slaka með einhverjum hætti á þessu fortakslausa banni og eins hafa borist fyrirspurnir frá neytendum um þetta efni. Vel má vera að knýja hefði átt fastar á um tilslökun á umræddu sölubanni, en í því efni verður að horfa til þess að viðbrögð heilbrigðisyfirvalda hafa ætíð verið heldur neikvæð gagnvart slíku, enda snérist það fyrst og síðast um að vernda heilbrigði og hagsmuni neytenda.


 


Í þessu ljósi hlýtur nýleg ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að heimila ferðamönnum að flytja með sér til landsins allt að 1 kg af ostum unnum úr ógerilsneyddri mjólk til einkanota, að vekja mikla furðu. Merkilegri eru þó skýringar ráðuneytisstjóra Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis á umræddum gjörningi, en í Morgunblaðinu fimmtudaginn 12.júlí s.l. er eftirfarandi haft eftir honum: „Innflutningur á ógerilsneyddum ostum er eingöngu leyfður til eigin neyslu en ekki til dreyfingar. Kúabændur mega sjálfir drekka ógerilsneydda mjólk og þess vegna framleiða fyrir sig, til eigin neyslu ógerilsneydda osta“. Þannig telur ráðuneytisstjórinn vera fullt samræmi milli reglugerðar frá því í maí s.l., sem leyfir umræddan innflutning á ógerilsneyddum osti og reglugerðar um mjólk og mjólkurvörur sem bannar sölu á vörum úr ógerilsneyddri mjólk. Það er vissulega rétt að bændum hefur verið heimilt að neyta afurða búa sinna án sérstakra milliliða, kjöts af heimaslátruðu búfé og mjólkur úr gripum sínum, en að sú heimild fæli í sér að brotið væri á rétti almennings til að neyta slíkra vara kemur samt nokkuð á óvart. Til að ráða bót á þessari mismunun er svo fólki sem færi hefur á að ferðast, gefinn kostur á að kaupa erlendis og flytja til landsins vöru sem bannað er að framleiða til sölu hérlendis. Er nema von að fávísan bóndann reki í vörðurnar við svo djúpt hugsaðar aðgerðir?


 


Hver skyldi svo aðdragandi þessarar aðgerðar vera? Fór fram mat á þeirri áhættu sem íslenskum neytendum er búin við þessa tilslökun? Er minni áhætta af neyslu ógerilsneyddra mjólkurafurða nú, en þegar bann var lagt við sölu þeirra á sínum tíma? Eða er það mat ráðuneytisins að gæði hrámjólkur séu meiri í þeim löndum sem sala þessara afurða er leyfð? Fór fram einhver skoðun á því? Hníga til þess einhver rök að mismuna með þessum hætti innlendum og erlendum mjólkurframleiðendum?


 


Stjórnvöld hafa sett íslenskum kúabændum skýrar kröfur um aðbúnað og hollustuhætti við framleiðslu þeirra og falið viðeigandi aðilum vald til að fylgja þeim kröfum eftir. Vilji íslenskra kúabænda er að sjálfsögðu að hlíta þeim gæðakröfum sem þeim eru settar, en jafnframt að uppfylla með sem ríkulegustum hætti óskir neytenda um vöruúrval og vörugæði. Ein helsta forsenda þess er að þær reglur sem um greinina eru settar, þar á meðal heilbrigðiskröfur, séu skýrar og byggi á málefnalegum forsendum, en taki ekki breytingum eftir hentugleikum stjórnvalda á hverjum tíma.


 


 


Sigurður Loftsson


Formaður Landssambands kúabænda