Beint í efni

Beint frá býli og frábært Landsmót

05.07.2011

Mikið sem það er lofsvert framtak hjá mörgum bændum, að bjóða neytendum að koma heim á hlað til sín og kaupa vörur beint af þeim. Víðast hvar er fyrirmyndar aðstaða heima á búunum til að taka á móti gestum, enda vænlegra til viðskipta að snyrtilegt sé heim í hlað að renna. Neytendur kynnast aðstæðum bóndans að einhverju leiti og sjá hvernig hann býr að sínum skepnum. Þannig geta þeir áttað sig á hvernig vöru þeir eru að kaupa. Margir bændur eru jafnvel komnir með fasta viðskiptavini, sem kaupa beint af þeim kjöt og grænmeti.


 


Allnokkrir bændur hafa fengið sér ísgerðarvélar og selja ís beint frá býli. Vinsælt er að keyra heim að slíkum bæjum, kaupa sér ís og kíkja á lífið í sveitinni í leiðinni. Einnig eru einhverjir bændur sem framleiða osta og selja beint frá býli. Öll svona framleiðsla er góð auglýsing fyrir bændur og sveitir landsins.
 

Eitt langar mig að nefna í tengslum við sölu á vörum beint frá bændum, en það er umræðan um mjólk utan greiðslumarks. Einhverrar rangtúlkunar gætir þar. Skýrt er í lögum að mjólk utan greiðslumarks skuli fara til útflutnings. Því er það ljóst að bændur sem selja mjólkurafurðir beint til neytenda, þurfa að skila skýrslum yfir mjólkurmagnið, sem notað er í heimavinnsluna. Þær skýrslur koma svo til grundvallar, ásamt skýrslum frá afurðastöðvum, við uppgjör á mjólkurframleiðslu búanna. Fjölmiðlar gleypa hins vegar við fréttum af nýjum afurðastöðvum, sem muni framleiða úr „mjólk án styrkja“, án þess að gera sér grein fyrir að slíkt er hvorki hægt né leyfilegt. Greiðslurnar sem mjólkurframleiðendur fá frá ríkinu eru ekki eingöngu út á framleidda lítra, heldur líka út á kúafjölda, eftir gæðastýringu, jarðrækt, í gegnum kynbótastarfið o.þ.h. Slíkt er bara ekki fréttnæmt.


 


Snúum okkur þá aðeins að öðru og skemmtilegra máli: Ræktun búfjár.


 


Undirrituð var alla síðustu viku á Landsmóti hestamanna. Það var nú meiri veislan. Ég held að óhætt sé að segja að ræktunarframfarir í hrossastofninum séu gífurlegar. En hvers vegna er ekki stemmingin meiri í ræktun nautgripa en hún er? Sumir bændur eru að kúldrast með heimanaut í kvígunum sínum í stað þess að nota besta erfðaefnið sem völ er á. Hrossaeigendur keyra hryssurnar sínar landshorna á milli til að fá það besta erfðaefni sem þeir telja að henti hryssunum sínum. En hvað gera kúabændur? Þeir þurfa ekki nema að hringja eitt símtal og besta erfðaefnið er komið á staðinn gegn vægu gjaldi. Samt láta þeir sumir hverjir sér detta í hug að skella heimanauti í allan kvíguhópinn. Allsendis óvissir með hvernig kýr það gefur og hvort það er yfirhöfuð frjótt.


 


Kannski er ekki eins spennandi að sjá mjólkina flæða í stríðum straumum úr gæðablóðinu henni Huppu, fallega byggðri, lausmjólka og jafnmjólka afurðakú, eins og að sjá glæstan töltara geysast um völlinn? Það eru vissulega ekki eins margir sem verða vitni að mjöltunum á Huppu, og ekki eins spennuþrungið augnablik að sjá að hún er ein af afurðahæstu kúnum í landinu eins og að sjá Sleipni sinn, viljugan skeiðhest skeiða upp á 9 eða jafnvel 10 í dómi. En það er jafn ömurlegt að vera í mjöltum að baksa við mismjólka kýr og skapvondar heila árið í gegn, bara af því að við höfum ekki nógu stóran erfðahóp til að vinna úr.


 


Það eru ekki nema allra bestu hrossin sem ná að komast á Landsmót. Og því fullt af hrossum eftir, sem allflest henta sínum eiganda, eða væntanlegum eiganda. Hins vegar get ég varla sætt mig við annað en að allar kýrnar mínar séu svipaðar og hún Huppa, því enginn vill fara í kúakaup við mig á afurðalágri mismjólka kú. Þess vegna þarf ræktunarstarfið í nautgriparæktinni að vera öflugra. Ég skora því að mjólkurframleiðendur að hætta notkun heimanauta, þannig að virki erfðahópurinn stækki, þar með fáum við betra mat á nautin og getum jafnvel prófað fleiri naut til afkvæma.


 


Beint frá býli er góðra gjalda vert út á við, en ekki inn á við. Notum því alls ekki heimanaut, en seljum neytendum þær frábæru vörur sem við höfum upp á að bjóða, hvort heldur sem er úr greiðslumarksmjólk, kjötafurðir, jarðargróði, já eða rétti hesturinn.  


 


Guðný Helga Björnsdóttir
varaformaður LK og formaður Fagráðs í nautgriparækt