Beint í efni

Nýjir vendir sópa best

06.07.2015

Heil og sæl, kæru kúabændur um land allt


 


Ég vil byrja á því að kynna mig örlítið enda nýtt andlit í bændapólítíkinni og full ástæða til að stikla á stóru og kynna fyrir ykkur hver ég er.


 


Þórólfur Ómar Óskarsson heiti ég og er bóndi í Grænuhlíð í Eyjafirði, þar bý ég kúabúi að aðalstarfi ásamt minni heittelskuðu Maríu Báru og tveimur sonum okkar, öðrum nýfæddum  og hinum fjögurra ára. Við rekum fjölskyldubú og hér hafa foreldrar mínir einnig atvinnu, eftir því sem þeim hentar hverju sinni og þeirra framlag er ómetanlegt enda að mörgu að hyggja.


 


Í Grænuhlíð eru rætur mínar og hvergi annarstaðar vil ég búa, hér ólst ég upp, lærði að vinna og hafði gott af, ég keypti búið og reksturinn fyrir rúmu ári en þá hafði ég verið í búskap hér síðan vorið 2012 án eignaraðildar. Nú telur stofninn um 65 mjólkurkýr og 85 geldneyti, við notumst við mjaltaþjón og líkar vel.


 


Ég er 28 ára gamall, ég er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist þaðan árið 2007 þá tók ég mér árs frí frá skóla og vann að bústörfum í Holtseli í Eyjafirði þar til ég hóf nám haustið 2008 við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.  Þar steig ég mín fyrstu skref í félagsstörfum og var varaformaður í stjórn viðskiptafræðinema og var að auki fjölmiðlafulltrúi í stjórn Félags Stúdenta við Háskólann á Akureyri. Ég stundaði nám á markaðsfræðilínu og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur þaðan með BS gráðu árið 2011. Efnistök lokaritgerðarinnar minnar snéru að markaðsetningu óhagnaðardrifinna skipulagsheilda (e. nonprofit organization) en sem dæmi um slíkt má nefna björgunarsveitir, skólar, góðgerðarsamtök og einmitt hagsmunarfélög.


 


Hvað er ég að gera í stjórn Landsambands Kúabænda?


Forsagan er sú að ég álpaðist til að mæta á deildarfund Auðhumlu vorið 2014 og var þar kosinn sem fulltrúi eftir að hafa flutt eftirfarandi limru í pontu í kjölfar málæðis tveggja kollega minna á neikvæðu nótunum:


 


Mér leiðist neikvæðni og nöldur
og neyðist að hafa’ um það höldur.
Við samtaka verðum,
í verkum og gerðum.
Því MS er sverð vort og skjöldur.


 


En það er akkurat málið, við sem erum í mjólkurframleiðslu eigum allt undir því að MS standi í lappirnar og því að mæta sameinaðir á markað með okkar vöru, þar liggja hagsmunir okkar samsíða hagsmunum neytenda því að í núgildandi fyrirkomulagi mjólkurvinnslunnar í landinu felst mikil hagræðing en er auðvitað háð opinberri verðlagning til að koma í veg fyrir markaðsmisnotkun.


 


Á þeim fundum sem ég mætti á sem fulltrúi norðaustudeildar Auðhumlu skynjaði ég mikla ólgu í bændum, bæði gagnvart smjörmálinu fræga og einnig voru menn ósáttir við kjör sín og þá stöðu sem upp var komin að þurfa að auka sína framleiðslu hvað sem tautaði eða raulaði. Í mínu nærsamfélagi bar líka á ósætti með þessi mál og í þau skipti sem LK bar á góma var þyngdist tónninn í viðmælendum mínum.  Þeirri gagnrýni sem félagið sætti væri oft svarað frekar léttúðlega og þeir sem höfðu kjark til að láta í ljós óánægju sína væru afgreiddir sem vitleysingar.


 


Svo leið tíminn og þegar kom að aðalfundi Félags Eyfirskra kúabænda í febrúar síðastliðinn ákvað ég að slá til og bjóða mig fram til stjórnar. Ég hlaut ekki kjör en óskaði eftir því á fundinum að fá að fara sem fulltrú FEK á aðalfund LK og sú kosning féll mér í vil.


 


Þegar á aðalfundinn var komið var ég búinn að kanna hug þeirra bænda sem ég þekkti til og allir voru sammála um að breytinga væri þörf, ég ákvað þá strax á fimmtudeginum að bjóða mig fram til stjórnar LK en það hefur víst aldrei skeð að neinn bjóði sig fram á móti sitjandi stjórn og því var þetta verkefni tilvalið fyrir mig. Ég var virkur á fundinum og tjáði mig um þau mál sem voru helst í brennidepli og beitti mér fyrir því að kvótamarkaðurinn yrði ekki aflagður enda besta tólið til þess að miðla kvóta á milli aðila á „réttu“ verði þar sem allir hafa jafnan aðgang að því að kaupa greiðslumark. Einnig beitti ég mér fyrir því að ákvæði yrði sett inn í reglugerðina að bændur gætu flutt eigin kvóta milli eigin lögbýla til þess að ná fram meira hagræði.


Það var góð stund þegar atkvæði fundarins lágu fyrir og ég tók sæti í stjórn LK með ákaflega sterkt umboð. Ég vil því nota tækifærið og þakka fulltrúum aðalfundar það mikla traust sem borið er til mín og lofa ég því jafnframt að vinna að okkar hagsmunamálum í einlægni.


 


Senn líður að gerð búvörusamninga og þó fyrr hefði verið, sú staða sem er uppi núna með tilheyrandi óvissu er ólíðandi fyrir jafn stóra atvinnugrein og landbúnaðurinn er. Mín framtíðarsýn er sú að þessi staða muni ekki koma upp aftur. Og þegar aftur líður að endurnýjun þarf að vera enn meiri þróttur til samninga og ganga þarf enn harðar að stjórnvöldum að semja með góðum fyrirvara, óvissa og óstöðugleiki eru hreint út sagt afleit í jafn erfiðri atvinnugrein og nautgriparækt.


 


Verkfall dýralækna setti strik í reikning okkar allra og ég get ekki annað en imprað á þeirri skoðun minni að núverandi fyrirkomulag, sem snýr að stöðvun slátrunar, sé gjörsamlega óþolandi. Setja þarf reglugerð eða lög þess efnis að ekki sé heimilt að stöðva slátrun þó svo að dýralæknar séu í kjarabaráttu. Velferð dýra var stefnt í hættu og þessi aðgerð starfsmanna Matvælastofnunar var ekki til þess fallin að auka traust bænda til hennar né vinsældir.


 


Ástæða er til að minnast á síðustu verðlagskönnun ASÍ sem sýnir glöggt hve drjúgan hlut verslunin tekur í virðiskeðjunni. Vöruflokkurinn Mjólkurvörur, ostar og egg hefur hækkað ríflega umfram það tilefni sem breyingar á virðisaukaskatti og afnám sykurskatt gefa tilefni til. Í þessu tilfelli er verslunin að taka aukinn hlut og hærra vöruverði til neytenda er ekki hægt að klína á okkur, þetta er miður.


 


Kæru bændur,  ég hvet ykkur til samstöðu! Ég hvet okkur til samstöðu, því sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Það þarf að ná sátt um störf LK og ekki bara einum hluta landsins heldur um gjörvalt Ísland hvar sem finna má umbjóðendur okkar. Breytinga er þörf ef árangur á að nást í að efla samstöðu greinarinnar og ég mun beita mér af krafti í málum sem varða leiðina að víðtækri sátt.


 


Stjórn LK vinnur að vilja þeirra fulltrúa sem sitja aðalfund og það er jafnan sama fólk ár eftir ár. Kannski er ein leið til sáttar að afnema fulltrúakjörið. Þá hugmynd bar Aðalsteinn Hallgrímsson í Garði upp við mig og hana lýst mér vel á, þannig gætu félagsmenn skráð sig á aðalfund og haft kosningarétt og setið fundinn af áhuga frekar en skyldu kjörgengis. Þannig eykst lýðræði og gæti einnig sparað LK þann ferðakostnað sem núverandi fyrirkomulag hefur í för með sér.


 


Ég vil að LK geti tekið gagnrýni, séð að sér í málum sem eru í ólestri og viðurkennt það að hafa mögulega ekki breytt rétt, sé það raunin. Ég mun hlusta á þá sem eru óánægðir og finna lausnir til að sættir náist.


 


Ég er vonandi bara rétt að byrja í félagsmálum bænda og get vel hugsað mér að starfa að þeim lengi, hafi ég umboð til og tíma, áhuginn verður í það minnsta til staðar. Við erum öll saman í liði og eigum að standa að baki hvort öðru í harkinu, sem og í pólítíkinni.


 


Ég ætla að enda þetta á einu af ljóðunum mínum:


 


Fjalla’ á milli, öldum fjær,
faðmast tíð og túndra náin.
Milli bakka bugðast áin
blærin líður ljúft um stráin;
titrandi andvari tær.
Friðast sálin, dagur dvín,
dalalæða botninn skríður.
Bóndi næstu verka bíður,
blessuð sértu sveitin mín.


 


Ykkar einlægi – Þórólfur