Beint í efni

Á þröskuldi nýrra tíma

09.01.2016

Á vef Veðurstofu Íslands má lesa eftirfarandi um tíðarfar liðins árs. „Veturinn var óvenju umhleypingasamur, illviðri tíð og úrkomur miklar. Oft urðu umtalsverðar samgöngutruflanir og foktjón varð í nokkrum illviðranna. [ ] Í kringum sumarmál skipti um veðurlag. Norðlægar áttir urðu nær einráðar með kulda og mjög óhagstæðri tíð um landið norðan- og austanvert. Sömuleiðis var kalt syðra, en tíð þó talin skárri. Snjóa leysti seint. Heldur hlýnaði þegar á leið sumarið, en tíð hélst samt óhagstæð nyrðra og eystra með miklum úrkomum, syðra varð veður mun skaplegra. Mánuðirnir september til nóvember urðu þeir hagstæðustu á árinu. Nokkuð úrkomusamt var syðra en norðaustan- og austanlands var talin hagstæð tíð. Í lok nóvember snjóaði óvenjumikið um landið suðvestanvert og varð desember heldur skakviðrasamur. [ ] Árið var það kaldasta á öldinni, hingað til, en þó var hiti víðast hvar í rúmu meðallagi áranna 1961 til 1990. Árið í heild var úrkomusamt um meginhluta landsins.“ Eins og nærri má geta, í árferði eins og þessu, gekk fóðuröflun misjaflega og hey víða með tæpara móti. Eins gekk kornrækt brösuglega víðast hvar þar sem hægt voraði og uppskerustörf því seint á ferðinni. Sunnanlands stóð kornsláttur framundir jólaföstu vegna votviðris og spilltist uppskera mjög á þeim tíma, einkum vegna ágangs álfta og gæsa sem gerðu sig heimakomnar í ökrum bænda.

 


Hvað rekstrarumhverfi varðar, verður liðið ár í megin dráttum að teljast kúabændum hagstætt. Árið 2015 er þriðja árið í röð sem greitt er fullt afurðastöðvarverð fyrir alla innlagða mjólk og hefur framleiðsla íslenskra kúabænda aldrei verið meiri, 146 milljónir lítra. Af því má ráða að bændur hafa nýtt sér vel hagstæðar markaðsaðstæður undangengina ára, en nærri lætur að sala mjólkurafurða á fitugrunni hafi vaxið um 16% síðustu þrjú ár. Síðustu mánuði hefur þó heldur dregið úr þessum mikla vexti og segja má að hann sé komin nær náttúrulegum hraða. Sala mjólkurafurða innanlands sló nýtt met nýliðið ár, á fitugrunni var hún nálægt 134 milljónum lítra, en 122 milljónir lítra á próteingrunni. Þegar greiðslumark síðasta árs var ákvarðað 140 milljónir lítra haustið 2014, voru aðstæður með þeim hætti að ekkert lát var á vexti í sölu, birgðir mjólkurafurða nánast engar og þrátt fyrir að allir hugsanlegir hvatar til aukinnar framleiðslu hefðu verið virkjaðir, var um tíma tvísýnt að hún hefði undan vextinum. Sú staða breyttist hinsvegar svo um munaði á seinnihluta síðasta árs.


 


Í samræmi við söluspá fyrir árið 2016 var greiðslumarkið ákvarðað 136 milljónir lítra og jafnframt var framleiðsluskylda til að njóta fullra A-greiðslna lækkuð í 80% til að draga úr framleiðsluhvata. Eftir sem áður verður greitt fullt afurðastöðvarverð fyrir alla innlagða mjólk í samræmi við áður gefin loforð. Sannarlega má segja að sá mikli vöxtur sem varð í framleiðslu mjólkur á liðnu ári hafi verið nokkuð umfram væntingar. Þess mátti þó að nokkru vænta þegar rýnt var í skýrsluhaldsgögn, en þar mátti greina talsverða fjölgun sæðinga á árinu 2014. Eðli málsins samkvæmt fjölgaði burðum að sama skapi og náði sú þróun hámarki um mitt síðasta ár. Frá því í september s.l. hefur síðan burðum fækkað miðað við árið á undan, en það sem enn frekar vekur athygli er að sæðingar eru líka færri, þá er svo að sjá að framboð kúa til slátrunar sé að aukast mikið. Það er því ýmislegt sem bendir til að þessi mikli vöxtur mjólkurframleiðslunar hafi náð hámarki.


 


Stærsti áhrifavaldur framleiðsluaukningarinnar er þó líkast til markvissari og kröftugri fóðrun kúnna sem skilað hefur auknum meðalafurðum. Á vef Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins má lesa eftirfarandi um skýrsluhaldsuppgjör í lok nóvember s.l. „Þegar þær niðurstöður urðu til um hádegisbilið þ. 11. desember, höfðu skýrslur borist frá 90% þeirra 576 búa sem skráð voru til þátttöku. Reiknuð meðalnyt 23.196,0 árskúa á þessum 90% búanna, var 5.870 kg á síðustu 12 mánuðum.“ Þetta er um 100 kg aukning í meðalafurðum frá sama tíma 2014 og verður að teljast afar góður árangur. Þess mun líklega ekki langt að bíða, að meðalafurðir íslenskra kúa fari yfir 6.000 kg. Það væri glæsilegt og trúlega einhverntíma verið slegin tappi úr flösku af minna tilefni.   


 


Nokkur hækkun var á áburðarverði síðasta vor, en að öðru leiti hefur verð helstu lykilaðfanga farið lækkandi síðustu misseri. Nú liggja hinsvegar fyrir tilkynningar frá helstu söluaðilum áburðar að verð fyrir komandi sumar lækki um 12 – 19% og þegar horft er til þróunar hrávöruverðs annara mikilvægra þátta, auk gengisþróunar, bendir flest til að aðfangaverð geti orðið hagstætt næstu misseri. Lágmarksverð mjólkur til bænda var hækkað þann 1.ágúst s.l. um 1,77% eða 1,47 kr/ltr. og var það sem nam hlutfallslegri breytingu gjaldaliða verðlagsgrundvallarbúsins frá 1. september 2013. Nokkur umræða varð meðal bænda í kjölfar þessarar verðbreytingar, sem var undir væntingum sumra þegar horft var til annarra hópa í samfélaginu. Þau viðhorf eiga vissulega rétt á sér, en þegar horft er til allra þátta rekstrarumhverfisins, bendir flest til batnandi afkomu greinarinnar í heild. Í tölum um afkomu ársins 2014 kemur fram að launagreiðslugeta búanna fer vaxandi milli ára, jafnframt sem afskriftir aukast í takt við vaxandi fjárfestingar í greininni.


 


Nautakjötsframleiðslan jókst lítið á síðasta ári. Í nóvember sl. var 12 mánaða framleiðsla og sala nautgripakjöts rúmlega 3.550 tonn, sem er 2,7% aukning frá árinu á undan. Framleiðslan hefur þó verið að aukast nú á haustmánuðum og var á tímabili all nokkur bið eftir slátrun. Það ástand hefur heldur skánað aftur. Verkfall eftirlitsdýralækna sem stóð frá 20. apríl sl. þar til það var stöðvað með lagasetningu Alþingis 15. júní, bitnaði harkalega á nautgriparæktinni. Slátrun nautgripa lá nær algerlega niðri í tæplega tvo mánuði, en í venjulegu árferði hefði á þriðja þúsund gripum verið slátrað á þessum tíma. Undanþáguákvæði frá verkfallsaðgerðum, sem einkum voru sniðin að þörfum svínaræktar, voru með öllu óframkvæmanleg fyrir nautgripabændur, enda grundvallar munur á umfangi og landfræðilegri dreifingu framleiðenda í þessum tveimur greinum. Verkfallið hitti kjötframleiðsluna mjög illa og olli miklum búsifjum fyrir slátrun og kjötvinnslu í landinu, sem mun taka langan tíma að vinna upp. Innflutningur nautgripakjöts var áfram mjög mikill. Fyrstu 11 mánuði ársins 2015 voru flutt inn rúmlega 1.030 tonn af nautgripakjöti fyrir sléttan milljarð króna. Dregið hefur úr innflutningi nautakjöts á síðustu mánuðum ársins, enda rann gildistími reglugerðar um opna tollkvóta út í lok september. Það er hinsvegar ljóst að talsvert er enn í það að innlend framleiðsla anni ört vaxandi markaði hér á landi fyrir nautakjöt.


 


Í árslok 2014 var sett ný reglugerð um velferð nautgripa. Með setningu hennar eru kröfur um aðbúnað nautgripa hertar verulega. Helstu atriði reglugerðarinnar eru að í henni eru sett sólarlagsákvæði á básafjós; hefðbundin básafjós skulu horfin úr framleiðslu í árslok 2034. Um þessar mundir eru rúmlega 300 slík í notkun hér á landi, sem hýsa um 9.000 kýr. Samtökin hafa áætlað að kostnaður greinarinnar við endurnýjun á þessari framleiðsluaðstöðu sé hátt í 20 milljarðar króna. Einnig eru gerðar kröfur um að básar í básafjósum standist ákvæði reglugerðar um lengd, breidd, hæð á jötukanti o.þ.h. fyrir 1. október n.k. Þá skal komið upp burðarstíum í öllum fjósum á næstu 8 árum. Í reglugerðinni eru einnig stórauknar kröfur varðandi legurými í stíum. Allt þetta mun kalla á miklar fjárfestingar næstu ár.


 


Breyting á lögum um innflutning dýra var samþykkt á Alþingi 1. júlí sl. Með henni er heimilaður innflutningur á sæði og fósturvísum holdanautgripa í einangrunarstöð. Jafnframt er nú heimilt að flytja gripi sem vaxið hafa upp af innfluttu erfðaefni úr einangrunarstöð, þegar þeir hafa náð 9 mánaða aldri, að því tilskildu að heilbrigðiskröfum sé fullnægt. Reglugerð um innflutning á erfðaefni holdanautgripa og útbúnað einangrunarstöðva kom út í lok september. Reglugerðin gerir ráð fyrir að einungis verði heimilt að flytja inn erfðaefni frá Noregi, enda er sjúkdómastaða nautgripa þar í landi með því besta sem þekkist. Samtökin hafa unnið ötullega að framgangi málsins í haust og fór framkvæmdastjóri, ásamt dýralækni Nautastöðvar BÍ og ábyrgðarmanni nautgriparæktar hjá RML til Noregs í desember sl. til að undirbúa framkvæmdina, m.a. gerð heilbrigðisvottorða svo að innflutningur geti gengið snurðulaust fyrir sig.


 


Landssamband kúabænda hefur pantað 40 fósturvísa og standa vonir til þess að hægt verði að taka þá í apríl n.k. Heilbrigðisreglur gera ráð fyrir að uppsetning megi fara fram eigi fyrr en 60 dögum eftir töku fósturvísanna, þannig að vonir standa til þess að hægt verði að setja þá upp í fósturmæðrum í júní n.k. Stjórn Búnaðarsambands Suðurlands hefur boðið þáttöku sína við að koma á fót einangrunarstöð á Stóra-Ármóti, í samstarfi við Landssamband kúabænda og Bændasamtökin. Ljóst er að sú leið sem löggjafinn ákvað að farin skyldi við innflutning á erfðaefni holdanautgripa er gífurlega kostnaðarsöm. Lauslegar áætlanir um kostnað við uppsetningu og rekstur stöðvarinnar, gera ráð fyrir að hann muni nema hátt í tvö hundruð milljónum króna á fyrstu fjórum rekstrarárunum. Ráðherra landbúnaðarmála hefur gefið mjög ákveðið vilyrði fyrir framlögum til að mæta þessum kostnaði í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar árið 2017. Mestur kostnaðurinn mun vitanlega falla til í upphafi vegna aðstöðu og bygginga og fyrstu árin verður innflutningurinn á formi fósturvísa eingöngu, meðan verið er að koma upp hreinræktaðri hjörð af úrvals kvígum, sem síðan verða sæddar í framtíðinni með innfluttu sæði úr reyndum nautum. Hver fósturvísir kostar um 180.000 kr, á meðan sæðisskammturinn kostar tæplega 4.000 kr.


 


Unnið hefur verið að gerð nýrra búvörusamninga frá því í lok sumars. Sú grundvallar breyting er við þessa samningagerð að allir samningar ríkisins við bændur eru teknir fyrir samhliða og Búnaðarlagasamningi breytt í rammasamning með auknu vægi og fjölþættari verkefnum en áður. Ljóst var frá upphafi að í þessum samningum yrði stefnt að umtalsverðum breytingum á starfsumhverfi nautgriparæktarinnar. Stærsta breytingin er að það kvótakerfi sem ríkjandi hefur verið í mjólkurframleiðslu síðustu 30 ár verður aflagt á samningstímanum og framseljanlegur stuðningur sömuleiðis.  Þetta er ekki síst gert til að greiðslur hins opinbera nýtist starfandi bændum fremur en fyrrverandi bændum eða fjármálastofnunum og til að gera nýliðum auðveldara að koma inn í greinina.  Fyrir liggur að um 28 milljarðar króna hafa farið út úr mjólkurframleiðslunni vegna kvótakaupa á síðustu 20 árum og er þá fjármagnskostnaður ekki talinn með. Með fjármagnskostnaði má áætla kostnað vegna þessa um það bil 20 krónur á hvern einasta lítra sem framleiddur var á þessum tveimur áratugum.


 


Áherslur í stuðningi færast annarsvegar yfir á framleitt magn og hinsvegar gripagreiðslur. Sú útfærslan miðar að því að finna jafnvægi á milli stuðnings við hagræðingu og aukna samkeppnishæfni og hinsvegar byggðina. Þá er gert ráð fyrir að tekin verði upp stuðningur við endurnýjun og uppbyggingu á aðstöðu fyrir gripi, en eins og fram hefur komið er mikil fjárfestingaþörf í greininni næstu ár vegna hertra krafna um aðbúnað. Þessar hugmyndir gera ráð fyrir að tekin verði upp gæðagreiðslur við framleiðslu á nautakjöti og jafnframt komi inn fjármunir sem styðji við einangrunarstöð fyrir holdanautgripi eins og að framan er getið, svo mögulegt verði að stunda raunverulegt ræktunarstarf á þeim vettvangi. Þá er gert ráð fyrir að til viðbótar komi nýr flokkur: „Framleiðslujafnvægi“ en í hann verður heimilt að flytja fjármuni tímabundið af öðrum flokkum til að hamla gegn offramleiðslu og verðfalli. Þannig mætti með þessum hætti m.a. greiða sláturuppbætur á kýr til að fækka gripum í framleiðslu og styðja með ýmsum hætti við markaðsstarf. Í þessum hugmyndum er ekki gert ráð fyrir að ríkisvaldið muni styðja við ótakmarkaða stækkun búa, því verði í samninginum ákvæði um hámarksstuðning sem hver og einn framleiðandi getur fengið. 


 


Gert er ráð fyrir umtalsverðum breytingum á verðlagningu mjólkur, en mjólk er í dag eina búvaran sem verðlögð er með opinberum hætti.  Áfram er gert ráð fyrir að mjólkuriðnaðurinn hafi heimild til að starfa saman, en opinber verðlagning verði á heildsölustigi á mjólk og mjólkurafurðum til áframhaldandi vinnslu hjá smærri fyrirtækjum. Þá verði mjólkuriðnaðinum sett tekjumörk fyrir innanlandsmarkað þ.e. takmörk verði fyrir þeirri framlegð sem fyrirtækið geti aflað sér á heimamarkaði, sambærilegt við þau takmörk sem orku- og fjarskiptafyrirtæki búa við, en opinberri verðlagningu á einstökum vörum verði hætt.  Mjólkurverð til bænda verður  í upphafi samnings ákvarðað með sama hætti og nú er, en í lok samningstímans mun það myndast annarsvegar af innlendu skilaverði og hinsvegar erlendm tekjum.   Þá verði því eitt verð fyrir mjólk til bænda hvort sem hún er seld heima eða erlendis, sú verðmyndun á hinsvegar lítið skylt við heimsmarkaðsverð, þó einhverjir vilji halda öðru fram.


 


Eins og áður sagði fela þessar hugmyndir í sér miklar breytingar, trúlega þær mestu sem gerðar hafa verið á rekstrarumhverfi landbúnaðarins sl. 30 ár.  Af þeim sökum er ætlunin að semja til 10 ára en forsenda þess er hversu breytingarnar eru miklar.  Hinsvegar er gert ráð fyrir að innleiða breytingar hægt á fyrri hluta samningstímans  meðan greinin er að feta sig inn til nýrra tíma og til að forðast kollsteypur.  Eðli málsins samkvæmt eru sumir sem eiga hagsmuna að gæta, bæði bændur og aðrir, nokkuð uggandi yfir svo miklum breytingunum.  Í samningunum verða  þó hafðir öflugir varnaglar ef mál þróast til verri vegar.  Þar er einkum um tvennt að ræða.  Annars vegar er gert ráð fyrir endurskoðunum samningsins bæði árin 2019 og 2023. Þar er nú verið að skoða ákveðin tölusett markmið sem samningurinn verði að uppfylla við endurskoðunina og hægt að grípa inn í óæskilega þróun gerist þess þörf.  Hinsvegar er gert ráð fyrir heimild til að færa á milli verkefna í samningunum á hverju ári.  Þannig má beina hvötum sem þar eru í annan farveg ef tilefni er til.


 


Landssamband kúabænda var stofnað þann 4. apríl 1986 og eru því senn liðin 30 ár síðan. Við stofnun samtakanna var rekstrargrundvöllur greinarinnar mjög ólíkur því sem nú er. Við blasti margháttaður vandi sem að stærstum hluta átti rót sína í framleiðslu afurða langt umfram innanlandsþarfir og til minnkandi framlaga ríkisins til útflutningsbóta árin þar á undan. Í upphafi níunda áratugarins höfðu stjórnvöld og samtök bænda þegar gripið til aðgerða í því skyni að framleiðsla búvara yrði í takt við markaðsþarfir til að koma í veg fyrir tekjuhrun bænda vegna offramleiðslu. Árið 1986 voru hér á landi 1.820 innleggjendur á mjólk og meðal innlegg þeirra um 60 þúsund lítrar. Þá voru hér 17 mjólkusamlög í afar dreifðri eignaraðild, aðallega kaupfélaga, vítt og breytt um landið. Vegna þess hversu búin voru mörg hver afar smá og úrvinnslan óhagkvæm urðu þessar aðgerðir greininni afar sársaukafullar og mótaðist starf LK fyrstu árin mjög af því. Í riti sem gefið var út á 10 ára afmæli LK 1996, leit fyrsti formaður samtakanna Hörður Sigurgrímsson  um öxl og sagði þá meðal annars:


 


„Landbúnaðarframleiðslan hafði verið í uppnámi um nokkurt skeið. Árin næst á undan hafði framleiðsla mjólkur sífellt verið að aukast, en sala aftur á móti að dragast saman. 1985 var framleiðslan yfir 115 milljónum lítra en salan um 96 milljónir.[ ] Stéttarsambandið lenti meira og minna í að framkvæma niðurskurðinn þó þar væru áhrifamenn innanborðs sem voru alfarið á móti stjórn á framleiðslunni. [ ] Framkvæmdin var því ómarkviss og skerðingin kom misjafnt við bændur. Úthlutunarreglur kvóta alltof flóknar og götóttar. Á sama tíma voru erfiðleikar með að fá greitt fyrir afurðirnar á réttum tíma. Það var því ljóst að búgreinasamböndin, a.m.k. Landssamband kúabænda og Landssamtök sauðfjárbænda voru stofnuð fyrst og fremst til að hafa áhrif á framleiðslustýringuna og starf félagsins fyrstu árin mótaðist mjög af þessu.“


 


Fullyrða má að aðstæður greinarinnar séu allar aðrar nú en þarna er lýst. Framleiðendur eru nú um 630, meðalinnlegg hvers þeirra um 230 þúsund lítrar, tæknistig búana hefur vaxið mjög og markaðsaðstæður síðustu ár verið afar hagfelldar. Þá hefur stórfeldur árangur náðst í hagræðingu innan mjólkuriðnaðarins, samhliða mikilli endurnýjun og fádæma vöruþróun. Sá veruleiki, jafnframt því að bændur sjálfir fara nú með stærstan hluta af eignarhaldi iðnaðarins í sameinuðu fyrirtæki, skapar möguleika til að nýta betur þau markaðstækifæri sem til staðar eru bæði hér heima og erlendis. Það er jafnframt ein grunn forsenda þess að greinin hefur nú einstakt tækifæri til að hverfa frá því fótakefli sem núverandi framleiðslustýringarkerfi er. En þá er jafnframt lykilatriði að bændur sjálfir verði þar áfram við stjórnvölinn.


 


Um nokkurt skeið hefur ríkt óvissa um framtíð búnaðargjalds, en eins og flestum mun kunnugt hefur það verið helsti tekjupóstur Landssambands kúabænda líkt og annara samtaka innan félagskerfisins. Nýlega felldi Héraðsdómur Reykjavíkur dóm í máli Stjörnugríss gegn íslenska ríkinu þar sem ráðstöfun á þeim 0,9% af búnaðargjaldsstofni sem rennur til Bændasamtakanna, búgreinafélags og búnaðarsambands var ekki talin standast lög. Verði þetta raunin blasir við samtökum bænda nýr veruleiki varðandi fjármögnun starfseminnar. Framtíð búnaðargjaldsins hefur eðli málsins samkvæmt verið mjög til umræðu á vettvangi Landssambands kúabænda síðustu ár og á aðalfundi 2015 var ákveðið að skipa nefnd til að gera tillögur um framtíðar skipulag og fjármögnun á starfi samtakanna. Það verður síðan verkefni næsta aðalfundar að taka endanlegar ákvarðanir í þessu efni. Staðreyndin er sú að við stöndum nú hvert og eitt frami fyrir þeirri spurningu hvers virði félagskerfi okkar sé, styrkur þess og áhrif verður aldrei meiri en samstaða okkar sjálfra gefur tilefni til.


 


Ágætir lesendur. Eins og áður sagði á Landssamband kúabænda 30 ára afmæli á þessu ári og af því tilefni hefur verið ákveðið að blása til afmælishátíðar í tengslum við aðalfund laugardaginn 2.apríl n.k. Þá er unnið að samantekt á sögu samtakanna, en útgáfu hennar er tæpast að vænta fyrr en seinnihluta árs. Það sem mestu skiptir fyrir starf samtaka eins og þessara er að vera virkur þátttakandi og áhrifavaldur í þróun og viðgangi starfsgreinarinnar. Þannig var það við stofnun samtakanna og nú 30 árum síðar stöndum við enn á þröskuldi nýrra tíma. Það bíða okkar ný tækifæri með nýjum lausnum sem miklvægt er að nýta, en vissulega líka ógnir enda er engin vegferð hættulaus. Versti kosturinn er þó að standa í stað, því fylgir einungis hnignun.


 


Ég óska lesendum öllum farsældar á nýju ári.


 


Sigurður Loftsson, formaður LK