Beint í efni

Færum umræðuna til neytenda

01.07.2016

Kæru félagar,


 


Það er með stolti og ánægju sem ég tek við starfi framkvæmdastjóra LK í dag. Það eru stór verkefni framundan og af mörgu að taka eins og gefur að skilja þegar mannaskipti verða. Nærtækast er að nefna búvörusamningana og þær breytingar sem þeim munu fylgja. Sú vinna er í fullum gangi og vænta má afgreiðslu þeirra á Alþingi í ágústmánuði næstkomandi.


 

Til framtíðar litið er nauðsynlegt að kúabændur marki sér stefnu og setji skýr markmið um hvar við viljum vera eftir 10-15 ár. Síðast var ráðist í slíka vinnu árið 2011 þegar stefnumörkun var samþykkt til ársins 2021. Vel er á því að endurskoða slíka stefnu reglulega með hliðsjón af breyttum aðstæðum á hverjum tíma fyrir sig. Slík vinna tekur tíma og viljum við hefjast fljótt handa og mun fundarferð LK um landið í október leggja grunninn að þeirri vinnu.


 


Bændur segja allt gott


Eitt er það verk sem stendur mér afar nærri og það eru kynningarmálin. Í gegnum árin höfum við fylgst með ákveðinni þróun þar sem landbúnaður hefur rólega en örugglega verið tekinn úr sambandi við aðra umræðu um efnahagslíf landsins. Það skýtur skökku við af ótal ástæðum og er mikilvægt að þar verði bætt úr. Í því samhengi nægir til að mynda að benda á að rúmlega 7.500 manns starfa við landbúnað á Íslandi í dag og aðrir 6.500 í tengdum störfum. Það eru um 7,7% af vinnuafli landsmanna (Hagstofan).


 


Auknar kröfur neytenda um upplýsingar um framleiðslu og innihald matvæla ætti einnig að gefa okkur byr undir báða vængi. Þróun í landbúnaði hefur verið hröð og öll í átt að aukinni framlegð og betri aðstöðu fyrir dýr og menn, í takt við sameiginlegar kröfur bænda og neytenda. Við getum státað okkur af því að vera eitt hreinasta landbúnaðarland heims, þar sem notkun tilbúins áburðar er svo takmörkuð að áburðarmengun mælist ekki hér á landi, og notkun sýklalyfja er með því minnsta sem þekkist innan ríkja OECD. Bændasamtökin hafa kallað eftir því að landbúnaðarvörur beri merkingar um lyfjanotkun, aðbúnað og fleiri þætti sem eru mikilvægir neytendum og er það vel. Við eigum að taka þátt í þeirri vinnu og getum svo sannarlega verið stolt af þeim upplýsingum sem þar kæmu fram.


 


Landbúnaður og ferðaþjónusta


Hin mikilvægu tengsl landbúnaðar og ferðaþjónustu hafa ekki farið hátt þrátt fyrir að vera veigamikill þáttur í jákvæðri upplifun ferðamanna sem sækja Ísland heim. Íslensk matvæli og íslenskar sveitir eiga stóran þátt í þeirri menningu sem heillar okkar erlendu gesti og kemur Íslandi hvað eftir annað ofarlega á lista yfir áhugaverðustu áfangastaði heims. Það þarf ekki mörgum blöðum um það að fletta að ferðamannastraumurinn hefur komið öllum landsmönnum til góða.


 


Við þurfum að vera duglegri að kynna okkar sýn á vettvangi sem nær til landsmanna allra. Við eigum að taka þátt í umræðunni, ekki einungis þegar verið er að ræða landbúnað heldur einnig í tengslum við ferðaþjónustuna, atvinnulíf, byggðaþróun og önnur stór mál. Hér, líkt og í öðru, gildir hin gullna regla: Það er enginn að fara að kynna okkar málstað ef við gerum það ekki sjálf.


 


Reykjavík, júlí 2016


Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri LK