Beint í efni

Hvert skal stefna?

30.06.2014

Þessa dagana eru heyannir í hámarki og margir hafa lokið fyrri slætti eða eru við að klára. Sprettutíð hefur verið með eindæmum en þó hefur bleytutíð sunnanlands sett strik í reikninginn. Það er ekki laust við að maður fyllist bjartsýni þegar maður sér fram á nægan heyforða fyrir næsta vetur – þrátt fyrir miklar kalskemmdir á nýlegri túnum. Og ekki skemmir fyrir að sala á mjólkurvörum er góð og heldur sala á fituríkari vörum áfram að aukast á fyrstu 5 mánuðum þessa árs miðað við sama tíma í fyrra.


 


Já, tækifærin í mjólkurframleiðslunni eru mikil og mörg og ánægjulegt að fullt afurðastöðvarverð verði borgað út næsta ár. Því er kannski eðlilegt að við bændur stöldrum við og íhugum hvert skal stefna. Hvernig skal takast á við framtíðina? Síðustu ár hafa bændur haldið að sér höndum í fjárfestingum en nú er að rofa til – úr sér gengin tæki eru endurnýjuð í meira mæli og margir stórhuga bændur eru að ráðast í stórfellda uppbyggingu á framleiðsluaðstöðu.


 


Kvótakerfið hefur fríhjólað nú um nokkurt skeið og miðað við útkomu síðasta kvótamarkaðar finnst mér einboðið að við hugum að uppstokkun á kerfinu. Ávarp stjórnarformanns Auðhumlu á síðasta aðalfundi Auðhumlu ber að sama brunni: „Á næstu misserum verða teknar ákvarðanir um framtíðargreiðslufyrirkomulag fyrir mjólk. Þegar þessu þriggja ára tímabili lýkur, þar sem greitt er eitt fast verð fyrir alla mjólk, er erfitt að sjá hvernig hægt verður að hverfa til fyrra fyrirkomulags og greiða eitt verð fyrir mjólk fyrir innanlandsmarkað og annað fyrir útflutningsmjólk.“  Því bregður manni óneitanlega að lesa Brúsapallinn í síðasta bændablaði (19. júní 2014) þar sem okkar ástsæli fyrrverandi ráðherra og núverandi framkvæmdastjóri SAM segir: „Eitt verða þó kúabændur að muna og það er að standa saman. Kvótakerfið, þótt gallað sé, hefur skilað þeim betri stöðu en oft var á offramleiðsluárunum. Áður en varir verður birgðastaðan komin í jafnvægi og umframmjólkin ekki greidd á fullu verði.“ Þetta heitir í stuttu máli að tala niður tækifærin. Hvernig ber að skilja orð framkvæmdastjórans öðruvísi en að hann vilji vernda kvótakerfið (þótt gallað sé), bara af því að nauðsynlegt hafi verið á sínum tíma að koma því á? Eigum við sumsé að pakka saman í vörn? Hver eru þá skilaboðin til þeirra sem hyggja á dýrar framkvæmdir, þeirra sem á allra síðustu árum hafa byggt nýjar framleiðslueiningar og síðast og ekki síst þeirra sem hafa haldið uppi framboði á hráefni í formi umframmjólkur? Ég bara spyr. Í mínum huga felast mestu tækifærin fyrir framtíðarfyrirkomulag mjólkurframleiðslu í landinu að losna undan kvótakerfinu, sérílagi vegna þess að það er hreinlega galið að umtalsverður hluti af opinberum stuðningi síðustu áratugina hefur farið í það eitt að kaupa aðgang að markaði. Nú er lag. En eitt af því mikilvægasta fyrir okkur mjólkurframleiðendur er skýr framtíðarsýn og því er ólíðandi að forsvarsmenn okkar tali ekki í takti hver við annan. Skamm, Guðni, skamm. Ég er honum annars innilega sammála um mikilvægi samstöðu og þá bendir hann réttilega á nauðsyn þess að nýr búvörusamningur sem taka mun gildi í ársbyrjun 2017 verði bæði bændum og neytendum hagstæður.


 


Á það skal bent að mjólkuriðnaðinum er nauðsynlegt að hafa yfir nægu hráefni að ráða hverju sinni, til að mæta ófyrirséðum sveiflum sem vissulega verða vegna náttúruaflanna og hasla sér hugsanlega völl á erlendum mörkuðum. Ekki er óvarlegt að tala um nauðsyn þess að hafa yfir að ráða framleiðslu sem nemur 20% umfram sölu innanlands. Í ljósi aukinnar eftirspurnar matvæla hérlendis sem erlendis og nýlegra rannsókna sem getið er í nýjasta hefti Time Magazine (Eat butter) þar sem fram kemur að ljóti kallinn er kolvetni en ekki fita vil ég því veðja á þann hest að hvetja kollega mína til að framleiða sem mest þeir mega og treysta okkar góða fólki innan mjólkuriðnaðarins til að fá gott verð fyrir afurðir okkar erlendis ef framleiðslan er umfram innanlandsþarfir (sem hún þarf nauðsynlega að vera).


 


Aðalatriðið hlýtur samt að vera að skikka Luis Suárez að spila með andlitsgrímu Hannibals Lecter úr myndinni Lömbin þagna í öllum fótboltaleikjum eftir að leikbanni hans lýkur. En ekki hvað?


 


Trausti Þórisson Hofsá