Um verðlagningu mjólkur
22.06.2011
Samkvæmt ákvörðun verðlagsnefndar hækka mjólkurvörur þann 1.júlí n.k. um 4,25% að meðaltali. Með þessari breytingu hækkar lágmarksverð til bænda um 4,37% fer úr 74,38 kr. í 77,63 kr. eða sem nemur 3,25 kr. á innveginn lítra mjólkur innan greiðslumarks. Vinnslu og dreifingakostnaður mjólkurvara hækkar með þessari breytingu um 4,13%, en það mun væntanlega skila mjólkuriðnaðinum sem nemur 350 milljónum í auknar tekjur á móti kostnaðarhækkunum í vinnslunni.
Mjólkurverð til bænda hækkaði síðast þann 1. febrúar s.l. um 3,25 kr/ltr eða 4,56%. Sú verðbreyting byggði á hækkun kostnaðar verðlagsgrundvallar frá 1.des. 2009 til 1. des. 2010 að frádregnu viðhaldi, afskriftum, vöxtum og launum. Við þá verðlagningu var litið svo á að um áfangaleiðréttingu væri að ræða til að mæta miklum hækkunum á aðföngum vegna búrekstar. Aðrir þættir yrðu endurskoðaðir síðar, launaliður samhliða eða í kjölfar kjarasamninga og vaxtaliður þegar komin væri raunsannari mynd á skuldastöðu búanna. Þá lá einnig fyrir að enn frekari hækkanir á aðföngum voru í farvatninu sem væntingar stóðu til að fengjust leiðréttar. Ef teknar eru saman þær tvær verðleiðréttingar sem náðst hafa á þessu ári, 1. febrúar og 1. júlí, auk þeirra hækkana sem komu af mjólkursamningi hafa bændur þá fengið sem nemur 8,9 kr/ltr. móti kostnaðarhækkunum í rekstri sínum. Hækkun breytilegs kostnaðar í verðlagsgrundvelli kúabús tímabilið 1.des 2009 til 1. júní 2011 er hinsvegar 10 kr/ltr. Raunin er því sú að enn vantar uppá að með þessari hækkun sé verið að leiðrétta launalið bænda þrátt fyrir að allflestir kjarasamningar séu í höfn. Sé skoðaður framreikningur verðlagsgrundvallar frá 1.september 2008 til 1. júní 2011 sést að enn vantar sem nemur u.þ.b. 8 kr/ltr. til að bændur hafi náð fram fullri leiðréttingu það tímabil.
Sá er þetta ritar hefur oft lýst þeirri skoðun sinni að endurskoða þurfi verðlagsgrundvöll kúabús enda flestar grunnforsendur hans orðnar býsna gamlar, en um tilurð grundvallarins segir eftirfarandi í 8.grein búvörulaga. „Ákvörðun um lágmarksverð mjólkur skal byggjast á gerð verðlagsgrundvallar fyrir bú af hagkvæmri stærð, með framleiðsluaðstöðu þar sem tekið er mið af opinberum heilbrigðis- og aðbúnaðarkröfum og hagkvæmum framleiðsluháttum. Áætlað vinnuframlag skili endurgjaldi hliðstæðu og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni.“ Í lok 8. gr. segir síðan „Við kostnaðarútreikninga skulu beinar greiðslur ríkissjóðs til framleiðenda teljast til tekna og koma til lækkunar á verði þeirra afurða sem beinar greiðslur taka til“.
Reyndar er það svo að niðurstaða verðlagsgrundvallar á hverjum tíma er stöðumynd ákveðinar stærðar búrekstrar við ákveðnar aðstæður. Þannig er tæpast ástæða til annars en ætla að mælingar Hagstofu Íslands á verðþróun aðfanga gefi raunsanna mynd af hækkunarþörf búanna vegna breytilegs kostnaðar. Aðrir þættir eru meira umdeilanlegir og eðlilegt að séu endurskoðaðir í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í greininni.
Hitt er svo annað mál með hvaða hætti útreikningar verðlagsgrundvallar eru notaðir við ákvörðanir um lágmarksverð til bænda og ekki óeðlilegt, þegar horft er til ákvæða búvörulaga, að upp vakni spurningar um hversu á því er haldið í meðförum Verðlagsnefndar. Tæplega getur talist óeðlilegt að ef grundvöllurinn þyki sýna raunsanna mynd af afkomu greinarinnar að ákvarðanir taki í sem ríkustum mæli mið af því. Eigi hinsvegar verðþróunin að taka mið af einhverju öðru s.s. væntu verðþoli, kjarasamningum eða öðrum þáttum og í því augnamiði þurfi að tína úr verðlagsgrundvellinum einstaka liði eða tímabil svo þeir falli að ákvörðuninni, hlýtur sú spurning að gerast áleitin hvort ástæða sé til að halda framreikningi hans áfram í óbreyttu formi.
Nú er það mjólkurverð til bænda sem Verðlagsnefnd ákveður svokallað lágmarksverð, það þýðir í raun að mjólkuriðnaðinum er heimilt að greiða hærra verð. En nefndin ákvarðar jafnframt hámarks heildsöluverð mikilvægustu vöruflokka mjólkurafurða. Þessir vöruflokkar taka til sín ríflega 60% þeirrar mjólkur sem innvigtuð er og eru því um leið ráðandi í verðlagningu annara afurða. Þessi staða takmarkar mjög alla möguleika iðnaðarins í þessu efni og setur jafnframt miklar skorður á allan sveigjanleika í verðlagningu.
Vissulega verður að teljast talsverð vonbrigði að ekki skuli hafa náðst lengra í að leiðrétta mjólkurverð til bænda að þessu sinni. Það var þó mat fulltrúa bænda að ekki yrði lengra komist nú og að aðrir kostir væru verri í stöðunni. Ekkert hefur þó verið útilokð um frekari leiðréttingar á árinu og verður unnið að því hér eftir sem hingað til.
Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda.