Metan og matvælaöryggi
15.06.2011
Matvælaöryggi er orð sem heyrist oftar og oftar. Og skal engan undra því fólki fjölgar með ógnarhraða, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Og því þarf stöðugt að fæða fleiri munna.
Við Íslendingar flytjum gríðarlegt magn af mat til landsins. Áhugavert væri að sjá hvort sá matur sem framleiddur er hér á landi myndi duga til að fæða alla þjóðina. Á það gæti reynt ef heimsstyrjöld skellur á, eða þá ef eyjan Ísland einangrast af öðrum orsökum – til dæmis ef samgöngur á sjó og lofti til og frá landinu stöðvast.
Tvær stéttir framleiða nánast allan mat hér á landi; bændur og sjómenn. Og framleiðsla þessara stétta er algjörlega háð tiltekinni vöru: Olíu. Til þess að veiða fisk þarf olíu á skip. Og til þess að flytja fiskinn til og frá höfnum þarf olíu. Hið sama gildir um okkur bændur. Heyskapur og aðföng eru fullkomlega háð olíu. Og sömuleiðis þurfum við að koma vörunni til og frá býli.
Með öðrum orðum: Fæðuframboð hér á landi er háð olíu og innflutningi á matvælum. Því er vart hægt að kalla okkur sjálfbæra þjóð.
Olíuverð er í sögulegu hámarki. Og sumir vísindamenn spá því að olíulindir jarðar gangi til þurrðar áður en langt um líður. Hvar stöndum við þá? Hvernig ætlum við að framleiða mat hér á landi ef við höfum ekki lengur efni á olíu, eða þá ef hún er einfaldlega ófáanleg?
Þessum spurningum þurfum við ekki að svara ef við framleiðum okkar eigin orku. Og þar getur metan leikið lykilhlutverk. Bændur framleiða mikið af hráefni sem gæti nýst til framleiðslu á metani, svo sem búfjáráburð og hey, auk þess sem nota má grisjunarvið frá skógrækt sem stóreykst á komandi árum. Einnig fellur til mikið af hráefni frá þéttbýlissvæðum, til dæmis plöntuleifar og seyra sem er í flestum tilfellum urðað. Hvers vegna ekki að nýta það til fulls?
Í fyrirlestri sem Jón Guðmundsson hjá Landbúnaðarháskóla Íslands hélt á ráðstefnu á Hótel Héraði í mars kom fram að framleiðsla á metani geti vel orðið arðbær fyrir íslenska bændur.
Með því að byggja upp úrvinnslustöðvar á stöðum sem liggja vel við hráefnisöflun víða um land ætti þess ekki að vera langt að bíða að framleiðsla á metani verði almenn, en til að svo megi verða þarf að fá stjórnvöld til að leggja fjármagn í rannsóknir og uppbyggingu vinnslustöðva. Við bændur ættum að geta nýtt okkur metan sem eldsneyti, en einnig getum við nýtt hráefni frá búunum til vinnslunnar sem skilar til baka mjög góðum áburðarefnum. Þannig getum við bændur orðið þátttakendur í að skapa innlendan orkugjafa sem myndi skapa okkur mikið öryggi til framtíðar. Þar fyrir utan eru umhverfislegir kostir metans augljósir því með notkun á því minnkum við notkun á jarðefnaeldsneyti og drögum þar með úr losun á gróðurhúsalofttegundum.
Til þess að auka matvælaöryggi okkar þurfum við að auka orkuöryggi okkar. Það getum við meðal annars gert með framleiðslu á metani. Margt bendir til þess að möguleikar á aukinni metanframleiðslu á Íslandi séu umtalsverðir og af henni geti verið verulegur ágóði.
Stjórnvöld, sveitarfélög og atvinnulífið eru hér með hvött til þess að hjálpa okkur við að láta þennan draum rætast.
Jóhann Gísli Jóhannsson, Breiðavaði.