Beint í efni

Hvernig er hægt að auka nautakjötsframleiðsluna?

13.06.2013

Samkvæmt nýjustu tölum um framleiðslu og sölu á nautakjöti á innlendum markaði, er salan síðastliðna 12 mánuði rúmlega 4.200 tonn og hefur hún aldrei verið meiri. Innflutningur á nautgripakjöti síðustu 12 mánuði var rúmlega 180 tonn, sem ígildir um 270 tonna af skrokkum. Í heild má því ætla að stærð nautakjötsmarkaðarins sé um þessar mundir nálægt 4.500 tonn.


 

Á sama tíma og markaðurinn fer stækkandi, hefur ásetningur nautkálfa til kjötframleiðslu heldur farið minnkandi frá 2010, er hann náði hámarki. Samkvæmt upplýsingum úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar virðist þróun ásetningsins vera komin í jafnvægi, samdráttur í slátrun ungkálfa undanfarna mánuði styðja þá kenningu. Ásetningurinn þyrfti þó nauðsynlega að aukast til að fylgja eftir aukningu í eftirspurn, auk þess sem fyrirséð er að þeir bændur sem harðast hafa orðið fyrir barðinu af völdum kals þetta vorið, munu tæplega geta sett jafn mikið á og þeir hefðu gert að öðrum kosti. Þá er er ótalin sú grundvallar forsenda sem er mat hvers og eins framleiðanda á afkomunni af þessari framleiðslu.


 


Samkvæmt skýrsluhaldsgögnum má ætla að 19-20 þúsund ungnaut séu í eldi á hverjum tíma. Til þess að bregðast við aukinni eftirspurn eftir nautakjöti er því afar mikilvægt að vel sé hugað að fóðrun og aðbúnaði þessara gripa, til að auka vaxtarhraða og bæta flokkun. Í ágætri grein Þóroddar Sveinssonar lektors við Landbúnaðarháskólann, sem birtist í Bændablaðinu í nóvember sl. kemur fram að meðal eldistími gripa hér á landi sé 25 mánuðir og fallþunginn að jafnaði 240 kg, sem þýðir að þungaaukning er að jafnaði 0,6 kg/dag. Í nálægum löndum er meðal eldistími nautkálfa af mjólkurkúakyni 16 mánuðir og fallþunginn 280-300 kg; vöxturinn er því 50% hraðari en hér gerist.


 


Í greininni er einnig tekið dæmi af nautakjötsframleiðslu bænda á Kvíabóli í Köldukinn, þar sem eldistíminn er að jafnaði 20 mánuðir og fallþunginn rúmlega 250 kg. Vaxtarhraðinn er því 775 g/dag eða 30% meiri en að jafnaði hér á landi. Þessi árangur næst með sterku eldi; góðum heyjum, steinefnabættu byggi og fiskimjöli. Þrátt fyrir að þarna sé nokkru til kostað við fóðrunina, er afkoma framleiðslu sem byggir á sterku eldi mun betri en af veiku eldi sem (of) margir stunda. Betri afkoma byggir á mun styttri eldistíma og þar með miklu minna viðhaldsfóðri sem engum afurðum skilar, auk þess sem sterka eldið skilar betri flokkun og þar með meiri tekjum. Þá má ná með þessum hætti meira kjötmagni út úr sömu aðstöðu og svipuðum vinnutíma, en annars væri.


 


Ýmis önnur atriði má tína til sem geta orðið til að auka framleiðsluna. Þéttleiki í stíum er atriði sem huga verður að; viðunandi vaxtarhraði næst ekki nema þokkalega rúmt sé á gripunum. Fyrirkomulag brynningar er annað atriði. Víða eru í notkun brynningarventlar sem eru tæplega nógu afkastamikilir, sérstaklega þegar líða tekur á eldistímann.


 


Nýlega mælti fagráð í nautgriparækt með því að þróunarsjóður nautgriparæktarinnar styrki átaksverkefni Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins um „Eflingu búrekstrar nautakjötsframleiðenda með markvissri ráðgjöf“. Markmið þess verkefnis er að bregðast við skorti á ráðgjöf til nautakjötsframleiðenda, auk þess sem stefnt er að markvissri uppbyggingu þekkingar á sviði nautakjötsframleiðslu, til að styrkja rekstrargrundvöll framleiðslunnar.


 


Vinna starfshóps sem ráðherra skipaði í mars sl. til að koma með tillögur um aðgerðir til eflingar nautakjötsframleiðslu hér á landi er langt komin. Hópnum var ætlað að koma með tillögur um hvernig standa skuli að endurnýjun erfðaefnis holdanautastofna hér á landi, setja fram tillögur að bættu kjötmati og móta tillögur um hvernig auka megi fagmennsku í greininni. Skýrslu hópsins er að vænta mjög fljótlega.


 


Afar mikilvægt er að íslenskir nautgripabændur nýti þá möguleika sem felast í aukninni eftirspurn eftir nautakjöti á innlendum markaði./BHB