Beint í efni

Stærri sneið af engri köku?

13.06.2014

Á dögunum tilkynnti einn af innflytjendum dýralyfja hér á landi, að fyrirtækið hefði afturkallað markaðsleyfi fyrir lyf sem notað er gegn magnesíumskorti í búpeningi hér á landi. Lyf þetta, Magnesíum súlfat, er því ekki lengur fáanlegt hér á landi. Markaðsleyfið hafði verið í gildi í hartnær átján ár, eða frá því 1. júlí 1996. Skýringar fyrirtækisins á afturköllun markaðsleyfisins voru þær, að vegna síaukinna krafna opinberra aðila sé ekki lengur gerlegt að halda úti markaðsleyfi. Í stað þess lyfs sem fyrir var á markaði er nú komið annað, Sedaman vet., sem virðist algerlega hliðstætt hvað varðar styrk og efnasamsetningu en er þrisvar sinnum dýrara en það sem fyrir var. Kostnaður bænda vegna meðhöndlunar á magnesíumskorti þrefaldast því í einu vettfangi. Það munar um minna. Markaðsleyfishafi nýja lyfsins er finnska lyfjafyrirtækið Orion.


 

Það vekur athygli þegar gildandi gjaldskrá fyrir markaðsleyfi, árgjöld og önnur gjöld fyrir lyf og skyldar vörur er skoðuð, að kostnaður vegna lyfja fyrir manneskjur og dýr er sá sami. Nú er vel þekkt að gjaldskrár af þessu tagi eiga að endurspegla raunverulegan kostnað viðkomandi stofnunar, í þessu tilfelli Lyfjastofnunar, vegna eftirlits og annarra þátta. Það vekur óneitanlega undrun að sömu kröfur séu gerðar til lyfja fyrir fólk og lyfja fyrir búfé. Ein afleiðing af þessu er að hér á landi er nokkuð um að dýralyf séu sk. undanþágulyf, sem eru lyf sem ekki hafa markaðsleyfi hér á landi en Lyfjastofnun hefur veitt heimild fyrir á grundvelli rökstuddrar umsóknar frá dýralækni. Notkun undanþágulyfja er þó á persónulegri ábyrgð dýralæknis, sem ekki getur talist æskilegt fyrirkomulag. Skilyrði fyrir slíkum undanþágum er að viðkomandi lyf hafi markaðsleyfi í minnst einu af aðildarríkjum EES.


 


Rannsóknir hafa sýnt að lyfjanotkun í landbúnaði hér á landi er mjög lítil, miðað við önnur lönd. Það er keppikefli greinarinnar að viðhalda þeirri stöðu. Af skýrslu Landlæknisembættisins um Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi 2012, sem kom út fyrir ári síðan, má ráða að umfang dýralyfjamarkaðarins hér á landi sé einungis um 2% af heildar lyfjamarkaði hér á landi. Framangreint dæmi um dýralyf sem verið hefur á markaði í tvo áratugi með ágætum árangri, en er fellt af markaði af því er virðist vegna opinnberra krafna, bendir til að þær kröfur þurfi endurskoðunar við, eða að þær taki ekki tillit til aðstæðna; af lyfinu verða amk. ekki greidd nein gjöld fyrir markaðsleyfi framar. Minni sneið af einhverri köku hlýtur að smakkast betur en stærri sneið af engri köku./BHB