Beint í efni

Tímamót í verðlagningu mjólkurafurða?

07.06.2012

„Ekki þarf í það að sjá
-þér ég aftur gegni –
ég er bóndi, allt mitt á
undir sól og regni.
 
Þó að einhver þykkist mér,
það er smátt að tapi.
Veðuráttin aldrei fer
eftir manna skapi.“Þessar ljóðlínur Klettafjallaskáldsins úr kvæðinu Eftirköst koma upp í hugann  þegar bændur vítt og breitt um landið hafa lokið við að yrkja jörðina, sá og bera á fyrir uppskeru komandi sumars. Víst er það svo að þrátt fyrir alla heimsins tækni og þekkingu, þá á bóndinn nú sem fyrr afkomu sína að verulegu leyti undir veðurfarinu og því verður ekki  auðveldlega breytt .

 


En hverjir eru raunverulegu möguleikar stéttarinnar til ásættanlegrar afkomu?  Undirritaður er þeirrar skoðunar að afkoma greinarinnar verði á komandi árum vart tryggð með verðákvörðunum verðlagsnefndar búvöru. Raunveruleikinn er því miður sá að í verðbólgu undangenginna ára er sú tollvernd sem verndað hefur innlenda mjólkurframleiðslu um langa hríð vart svipur hjá sjón frá því sem áður var. Ástæðan er sú að tollarnir eru að stærstum hluta föst krónutala sem haldist hefur óbreytt frá því GATT samningarnir tóku gildi árið 1995. Er nú svo komið að tollverndin er nánast að engu orðin hvað ostinn varðar . Verðlagning á mjólkurdufti til iðnaðarframleiðslu er komin að endamörkum hvað verðþol áhrærir. Af mjólkurframleiðslu þeirri sem þarf til framleiðslu þessara tveggja vöruflokka hefur nálega helmingur mjólkurframleiðenda sitt lífsviðurværi. Þeir vöruflokkar þar sem einhvert svigrúm er til verðhækkana á markaði eru drykkjarmjólk og viðbit. Stíga þarf þó varlega til jarðar í þeim efnum, til að mynda höfum við undanfarin ár glímt við stöðugan samdrátt í sölu drykkjarmjólkur. Kaupendahópur þessa vöruflokks er að stórum hluta barnafólk sem frá bankahruni hefur þurft að taka á sig kjararýrnum sem nemur tugum prósenta og veskið er af þeim sökum galtómt hjá ansi mörgum.


 


Sú hagræðingu í úrvinnslu mjólkurafurða sem áunnist hefur á liðnum árum hefur leitt til þess að þær hækkanir sem orðið hafa á framleiðendaverði mjólkur hafa ekki að nærri öllu leyti komið fram á neytendamarkaði. Öllum má þó ljóst vera að í hagræðingu í vinnslunnar eru allir stærstu bitarnir búnir, enda er svo komið að 51% rekstrarkostnaðar Mjólkursamsölunnar ehf fer í hráefniskaup frá mjólkurframleiðendum. Umbúðir og íblöndunarefni um 20% og af þeim tæplega 30% sem eftir standa er lang stærsti hlutinn fastur kostnaður í formi húsnæðis og launa,  þ.e. ef ætlunin er að einhver starfsemi sé í gangi. Það er því er morgunljóst að áframhaldandi hagræðingarmöguleikar vinnslunnar eru óverulegir.Fyrir liggur að kvótakerfið verður lagt af innan ESB árið 2015.  Flestir þeir sem grannt hafa fylgst með þróun mála í mjólkurframleiðslu á heimsvísu telja að þá muni framleiðslan aukast umtalsvert, sem klárlega mun leiða til lækkunar á heimsmarkaðsverði mjólkur. Í mínum huga er enginn vafi um að verðþróun mjólkurvara hér á landi mun, af  síauknum þunga, taka mið af því framleiðendaverði sem greitt er í þeim löndum sem umsvifamest eru í útflutningi mjólkurvara. Vegna alls þessa stöndum við því að mínu mati á tímamótum í verðlagsmálum mjólkurafurða og vart verður undan því vikist að horfa í eigin rann um hvað betur megi fara í okkar rekstri.


 


En hvað er helst til ráða? Er þetta kannski allt saman vonlaus barátta?  Er nokkur von til þess að við hér við ysta haf verðum nokkru sinni í færum til að standast þessum kollegum okkar snúning? Ég er þess fullviss að ef rétt er á málum haldið þá eru hér verulega vanýttir möguleikar til stóraukinnar framleiðslu nautgripaafurða. Mér er til efs að nokkur frumframleiðslu atvinnugrein í landinu búi yfir jafn miklum möguleikum til framleiðniaukningar og nautgriparæktin gerir. Það þarf nefnilega ekki að vera neitt lögmál að framleiðslukostnaður hér á landi sé miklu hærri en í nágrannalöndum okkar. Vissulega þurfum við heldur vandaðri byggingar og sumrin eru styttri og kaldari, sem óneitanlega skerðir talsvert möguleika okkar hvað fóðuröflun snertir.  Þrátt fyrir þann annmarka þá hefur allnokkur fjöldi búa hér á landi sýnt fram á að hægt er að vera nánast sjálfbær hvað fóðurþarfir til mjólkurframleiðslu varðar. Algengt verð á ræktunarlandi er margfalt hærra þar ytra og sú launakrafa sem til dæmis dönsk mjólkurframleiðsla þarf að standa undir er fyrir verkafólk í fjósi um 2.500 kr.á klst og 4.500/klst. fyrir stjórnanda.


 


En hverjir eru þeir þættir þar sem helst er að leita fanga varðandi lækkun framleiðslukostnaðar? Til skemmri tíma litið þá eru nokkur atriði þar sem augljóslega má ná umtalsverðum  árangri. Afar slök nýting er almennt hér á landi á tækjum og vélbúnaði til fóðuröflunar, notkun verktaka og samnýting véla er langt frá því að vera viðlíka almenn og gerist og gengur í grannlöndum okkar. Sú gríðarlega offjárfesting í tækjum, tólum og búnaði sem hefur viðgengist um langt árabil er eitthvað sem engin von er til að nokkurt afurðaverð geti borið uppi til lengdar. Meðalaldur fyrsta kálfs kvígna við burð er samkvæmt skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar 29,4 mánuðir. Marg oft hefur verið bent á að eðlilegt viðmið við fyrsta burð sé 24 mánuðir, ekki ólíklegt að árlegur kostnaðarauki greinarinnar vegna þessa sé á bilinu 2-300 milljónir. Að mati sérfræðinga nemur árlegur kostnaður  vegna júgurbólgu um 1.200 miljónum. Afurðatap vegna ýmissa efnaskiptasjúkdóma er ennfremur umtalsvert og ekki ólíklegt að það hlaupi á einhverjum parhundruðum milljóna. Ríflega fjórðungur framleiðenda nær ekki að framleiða upp í eigið greiðslumark og verður þannig af  tekjum sem eru talsvert á annað hundrað milljónir kr. árlega. Þá flokkuðust einungis um 60% innlagðar mjólkur í úrvalsflokk, sem í dag er greitt fyrir 1,55 kr aukalega pr. líter og verðfelling vegna óviðunandi gæða voru á liðnu ári um 30 milljónir kr. Innihald verðefna (fitu% og prótein%) mjólkur er hjá mörgum framleiðendum of lágt með tilheyrandi tekjutapi viðkomandi aðila, ásamt því að leiða af sér verulega óhagkvæmni í mjólkurflutningum og vinnslu. Á síðasta ári var flutt inn nautakjöt fyrir tæplega hálfan milljarð króna, eða sem nemur um fimmtungi af heildarmarkaði. Æskilegt væri að íslenskir bændur næðu að sinna þessum hluta markaðarins. Með markvissu átaki bænda og viðeigandi fagaðila ætti að vera hægt að ná verulegum árangri hvað alla þessa þætti varðar.Til lengri tíma litið þá er afar nauðsynlegt að komast út úr kvótakerfinu, sá gríðarlegi kostnaður sem greinin ber vegna viðskipta með greiðslumark er eitthvað sem gengur ekki upp til lengdar. Eina raunhæfa leiðin út úr þeim ógöngum er aukinn útflutningur mjólkurvara og afnám lögbundins lágmarksverðs til mjólkurframleiðenda. Veruleg lækkun framleiðslukostnaðar er  alger grunnforsenda þess að útflutningur mjólkurafurða geti nokkru sinni orðið arðbær. Nauðsynlegt er ennfremur að leita allra leiða til að viðhalda þeim stuðningi sem búgreinin nýtur af hálfu hins opinbera. Síðast, en ekki síst, þá verður ekki hjá því komist að laga helstu gallana á okkar ágæta kúastofni. Ég er þeirrar skoðunar að enginn einn þáttur spili jafn stórt hlutverk til lækkunar framleiðslukostnaðar og innflutningur erfðaefnis, eins og sýnt hefur verið með rannsóknum. Það er borin von að nautgriparæktin í landinu geti nokkru sinni staðist erlenda samkeppni ef framleiðslugripirnir búa ekki yfir áþekkum eiginleikum hvað varðar afköst, vaxtarhraða, fóðurnýtingu og vinnuþörf og þeir gripir sem væntanlegir samkeppnisaðilar hafa yfir að ráða.


 


Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey 2.