Kúabændur bera sameiginlega ábyrgð á markaðnum
03.06.2016
Í febrúar sl. var nýr búvörusamningur undirritaður af fulltrúum bænda og ríkisins. Samningurinn er nú til umfjöllunar á Alþingi og er háður samþykki þess. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess að samningurinn, hornsteinn íslensks landbúnaðar, fái farsæla afgreiðslu í þinginu. Fari svo, tekur hann gildi 1.1. 2017 og gildir í 10 ár. Í honum er stefnumörkun um breytingar og er stefnt að því að greiðslumarkið fjari út á samningstímanum, bæði sem viðmiðun fyrir beingreiðslur og kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði. Núverandi B- og C- greiðslur verða greiddar á alla innvegna mjólk, óháð greiðslumarki. Upphæðin í hverjum mánuði deilist jafnt á alla innvegna mjólk í þeim mánuði. Það eitt og sér mun leiða af sér breytilegt verð á mjólk til framleiðenda. Þetta er nýmæli, því bændur hafa búið við tiltölulega fyrirsjáanlegt verð á innveginni mjólk í tæpa þrjá áratugi í formi lágmarksverðs, sem ákveðið er af opinberri nefnd, auk beingreiðslna.
Eitt verð er forsenda fyrir nægu hráefni
Hvert mun þessi breyting leiða íslenska mjólkurframleiðslu? Er þetta fyrsta skrefið í þá átt að borga eitt verð fyrir alla mjólk sem berst mjólkuriðnaðinum? Eru aðrar leiðir færar í nánustu framtíð fyrir íslenska mjólkurframleiðslu, ætli hún að sinna og uppfylla þarfir íslenskra neytenda fyrir mjólkurvörur og halda sem flestum kúabúum starfandi vítt og breytt um landið? Í einu verði á mjólk til mjólkurframleiðenda felast tækfæri fyrir mjólkuriðnaðinn til að sækja fram og takast á við ógnanir sem felast í aukinni samkeppni vegna innflutnings á mjólkurvörum og afla nýrra markaða erlendis og þar með stækka íslenska mjólkurframleiðslu, sé rétt á málum haldið. Eitt verð á mjólk til framleiðenda er forsenda þess að mjólkuriðnaðinum berist á komandi árum nægjanlegt hráefni til að geta sinnt markaðsstarfi með það að markmiði að sækja fram á nýjum mörkuðum; sívaxandi innanlandsmarkaði og áhugaverðum, vel borgandi mörkuðum erlendis. Verði farin sú leið að greiða tvö verð, eitt fyrir innanlandsmarkað og annað fyrir útflutning, þá er nær öruggt að það magn sem iðnaðurinn hefur úr að spila til útflutnings verði svo sveiflukennt að útilokað verði að stunda öflugt markaðsstarf. Sem dæmi má nefna, að á árunum 2010 til 2012 var árlega flutt út smjör til Bandaríkjanna úr um 600.000 til einni milljón lítra mjólkur. Það eru þrjú til fimm meðal bú. Samkvæmt útflutningsskýrslum Hagstofunnar, var skilaverðið sambærilegt eða betra en á innanlandsmarkaði. 2013 lagðist útflutningur á smjöri til Bandaríkjanna af vegna skorts á hráefni og hefur legið niðri síðan. Hvert gæti þessi útflutningur verið kominn í dag?
Bændur standa sameiginlega að markaðsstarfi
Það er mikið rætt um framtíð mjólkurframleiðslunnar á Íslandi. Hún hafi tækifæri til að sækja fram og afla nýrra markaða á forsendum ímyndar um hreinleika og hollustu; landið er það ríkasta í heim af ferskvatni, fúkkalyfjanotkun í landbúnaði hér er ein sú minnsta í heiminum. En hvernig ætlum við að nýta okkur þessa möguleika? Svarið er væntanlega með auknu markaðsstarfi en það gerist ekki án þess að leggja eitthvað á sig og það kostar fjármuni. Hver á að bera kostnaðinn og hver getur það? Við reiknum með að sá sem sér um markaðsstarfið borgi en varan sem verið er að makaðssetja á að standa undir kostnaðinum og venjulega ber framleiðandinn og sá sem kaupir vöruna kostnaðinn, þ.e. neytandinn. Við öflun nýrra markaða fyrir mjólkurvörur fylgir óhjákvæmilega kostnaður sem leggja þarf út fyrir í upphafi og enginn annar getur greitt en sá sem framleiðir vöruna, þ.e. mjólkurframleiðendur. Þennan kostnað verða mjólkurframleiðendur allir að bera í upphafi, ef við meinum eitthvað með því það séu tækifæri á markaði bæði innanlands og erlendis sem beri að nýta. Um leið og þetta er sagt er augljóst að annað kemur varla til greina en að það sé greitt eitt verð fyrir alla innlagða mjólk.
Meira magn eða færri bú?
Hver verður sviðsmyndin í þróun á fjölda búa ef við reiknum með að halda okkur einungis við innanlandsmarkað, leggjum enga vinnu eða fjármuni í markaðstarf og treystum á að stjórnvöld verði okkur hliðholl í stuðningi og tollvernd? Árið 2015 var fjöldi þeirra sem lögðu inn mjólk 636 og hver þeirra lagði inn að meðaltali um 230.000 lítra af mjólk. Árið 2012 var fjöldinn 668 og meðalinnlegg um 187.000 lítrar af mjólk. Á þessu einungis þriggja ára tímabili hefur innleggjendum fækkað u.þ.b. um 5% en innleggið vaxið u.þ.b. um 23%. Nú er spurningin hvort á að gefa eftir; meðalinnlegg á bú eða fjöldi framleiðenda, verði einungis miðað við innanlandsþarfir. Það eru nánast engar líkur á að bústærðarþróunin muni standa í stað, það eru engar líkur á að að þeir sem fara í framkvæmdir á búum sínum muni byggja fyrir færri en 60 kýr, verkefni fyrir einn mjaltaþjón. Einn mjaltaþjónn annar vel 55 kúm og ef meðal innlegg á hverja kú er á bilinu 6000 l til 7000 l þurfum við 400-450 mjaltaþjóna til að framleiða 150 milj. lítra mjólkur. Við getum svo velt fyrir okkur á hve mörg bú þarf til að framleiða þessa mjólk; sum bú verða með einn, önnur með tvo og jafnvel fleiri. Nú um stundir er mjólkurframleiðslan um 13% meiri en innanlandssala á þeim efnaþætti sem meira selst af. Að mínu mati eiga kúabændur að stefna að því að framleiðslan sé á hverjum tíma að lágmarki 15-20% umfram innanlandsþörf og á því magni eigum við að taka sameiginlega ábyrgð. Sé ætlunin hinsvegar að sinna einungis innanlandsmarkaði mun innflutningur mjólkurvara vegna t.d. tollasamninga leiða til þess að markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu skerðist og framleiðendum fækkar. Samdráttur í framleiðslu mjólkur innanlands mun gera hana og vinnsluna óhagkvæmari sem þýðir annað hvort hærra verð til neytenda eða lægra verð til framleiðenda. Hærra verð til neytenda veikir samkeppnistöðu gagnvart influtningi. Sem sagt við eigum hættu á að missa hluta af markaði til erlendrar mjólkurframleiðslu og að íslenskir neytendur hafi ekki tryggan aðgang að innlendum mjólkurafurðum.
Afkoman er í okkar höndum
Framtíð mjólkurframleiðslu á Íslandi mun ráðast af samkeppnishæfni við innflutning á mjólkurvörum og velvilja stjórnvalda hverju sinni, fyrst og fremst í formi tollverndar. Vegna legu landsins og smæðar greinarinnar er tollverndin alger hornsteinn í starfsumhverfi mjólkurframleiðslunnar. Hagkvæmni greinarinnar mun fyrst og fremst ráðast af ákvörðunum sem bændurnir sjálfir taka á búum sínum og þær ákvarðanir eru oftast byggðar á ytri skilyrðum sem þeir starfa í. Verðið sem fæst fyrir hvern mjólkurlítra hefur mikil áhrif á afkomuna en segir samt ekki allt. Það er tilhneiging til þess í miklum mun milli kostnaðar og þess sem fæst endanlega fyrir vöruna á markaði að ekki sé gætt ýtrustu hagkvæmni við framleiðsluna. Umtalsverður hluti af þeirri framleiðsluaukningu sem orðið hefur á undanförnum misserum, er vegna nýrrar þekkingar; bændur nýta nýja þekkingu til að framleiða meira magn með svipuðu aðfangamagni. Það gefur því auga leið, að í þeim aðstæðum sem uppi hafa verið hér á landi eru miklir möguleikar til að auka hagkvæmni í mjólkurframleiðslunni. Þar liggur lykillinn að aukinni samkeppnishæfni sem er forsenda þess að spyrna við innflutningi mjólkurvara og sækja fram.
Helgavatni í júní 2016
Pétur Diðriksson varaformaður LK