Beint í efni

Nokkur lykilatriði um stöðu holdanautamálsins

01.06.2015

Þann 29. apríl sl. fór fram 1. umræða um stjórnarfrumvarp til breytinga á lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra, sem hefur það markmið að mynda farveg fyrir innflutning á erfðaefni holdanautgripa. Innflutningur Angus og Limousin gripa árið 1994 byggði á heimild ráðherra til að veita undanþágu frá banni við innflutningi á dýrum og erfðaefni þeirra. Í raun nær það bann nú orðið einungis til nautgripa, hrossa og sauðfjár. Auk flutningsmanns, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tóku sex þingmenn þátt í umræðunni og var hún yfirveguð og málefnaleg. Í kjölfarið var frumvarpið sent til atvinnuveganefndar og hefur hún haft það til meðferðar síðan.


 

Eins og marg oft hefur komið fram, hafa þær leiðir sem til þessa hafa verið farnar við innflutning á holdanautum reynst ákaflega tímafrekar, gífurlega kostnaðarsamar og óskilvirkar. Í framangreindri umræðu um málið á Alþingi komu fram hugmyndir að kostnaði við rekstur einangrunarstöðvar, ef farin væri svipuð leið og fyrir rúmum 20 árum. Þær gera ráð fyrir kostnaði á bilinu 120-140 milljónir króna. Í eitt skipti. Til að setja þá tölu í samhengi, þá er þetta álíka upphæð og árlegt framlag úr mjólkursamningnum til kúasæðinga. Sú starfsemi er einn helsti hornsteinn kynbótastarfs íslenska kúastofnsins og væri í hættu ef þeirra framlaga nyti ekki lengur við. Þá má nefna að rekstur Nautastöðvar BÍ kostar um 70 milljónir króna á ári. Óvarlegt er að gera ráð fyrir að rekstrarkostnaður einangrunarstöðvar fyrir holdanaut yrði verulega lægri. og því afar hæpinn efnahagslegur grundvöllur fyrir slíkum rekstri um alla framtíð. Þá er ótalið það mikilvæga atriði, að ef ráðast á í innflutning fósturvísa þarf að sækja gjafamæðurnar út fyrir einangrunarstöðvarnar í Noregi. Það leiðir af eðli máls að á einangrunarstöðvunum sem þessum eru bara haldin naut, enda er sæði skilvirkasti flutningsmáti erfðaefnis sem til er.


 


Fjöldi holdakúa er um 1.700 hér á landi og hefur þeim farið hægt fjölgandi undanfarin ár. Slík stofnstærð er langt innan þeirra marka sem þarf til að stunda sjálfstætt kynbótastarf og afkvæmaprófanir. Forsenda framfara í greininni er að hún fái aðgang að öflugu kynbótastarfi í nálægum löndum. Til að aðgengi að kynbótastarfi sé raunverulegt, þurfa bændur að eiga þess kost að geta sætt kýr sínar með sæði úr reyndum nautum með þekkt kynbótagildi fyrir helstu eiginleika. Beint aðgengi er því algert lykilatriði í málinu.


 


Í áhættumati sem norska Veterinærinstituttet vann að beiðni LK, er lagt mat á áhættu sem myndi fylgja því að flytja inn djúpfryst nautasæði frá Geno í Noregi, inn á öll nautgripabú á Íslandi. Tekið er tillit til allra skráðra sjúkdóma/sýkinga á lista OIE, alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar, auk fleiri þekktra sjúkdóma í nautgripum. Alls er um að ræða tæplega 50 sjúkdóma. Áhættumat MAST tók til 16 sjúkdóma.


 


Noregur er laus við alla sjúkdóma á skrá OIE sem geta borist með sæði, að garnaveiki undanskilinni, en síðasta skráða tilfellið þar í landi var í einni kú árið 2010. Eftirlitsáætlun með garnaveiki hefur verið við lýði í Noregi síðan 1996, þar sem tekin hafa verið sýni á 50 búum á ári, úr fimm gripum á hverju þeirra. Þá prófar GENO öll kynbótanaut vegna garnaveiki fyrir sæðistöku, tvisvar sinnum. Öll naut sem koma til framhaldsnotkunar, úrvalsnautin, eru síðan prófuð tvisvar sinnum á ári eftir það. Niðurstaðan er sú, að líkurnar á því að nautgripaafbrigði garnaveiki flytjist með sæði frá Noregi í íslenska nautgripi séu hverfandi litlar. Aðrir sjúkdómar í áhættumati eru Salmonella spp., smitandi öndunarfærabólga (BRSV), veiruskita, bovine parainfluenza 3 virus og Neospora caninum. Niðurstaðan varðandi alla þessa sjúkdóma er að líkurnar á að þeir flytjist með sæði frá Noregi í íslenska nautgripi séu hverfandi litlar.


 


Í áhættumatinu er einnig farið í gegnum hvaða kröfur nautkálfarnir þurfa að uppfylla, til að vera teknir inn á nautastöðvar Geno í Noregi. Í tilfelli holdanauta eru um 80 álitlegir nautkálfar keyptir árlega af bændum. Þeim er fyrst í stað komið fyrir á rannsóknarstöðinni að Staur í Hedmark. Við komuna þangað fer fram ítarleg skoðun á þeim, staðfesting á ætterni með DNA prófi, bólusetning gegn hringormi (ringworm) og öndunarfærasjúkdómum og skimun gegn fjölda sjúkdóma, þ.m.t. berklum, garnaveiki, smitandi fósturláti, smitandi hvítblæði, smitandi barkabólgu, smitandi slímhúðarpest, kampýlobaktersýkingu í æxlunarfærum og fósturláti í kúm. Af sjálfu leiðir að niðurstöður þessara prófa allra skulu vera neikvæðar. Að afloknum svipfarsmælingum (áti, vexti, fóðurnýtingu, ómmælingum á bakvöðva o.s.frv.) eru 15 naut sem teljast áhugaverð til framhaldsnotkunar flutt á nautastöðina Halsteingård við Þrándheim, þar sem sæðistaka fer fram. Að lokinni sæðistöku eru nautin seld bændum á uppboði. Í fyllingu tímans er upplýsingum um afkæmi nautanna safnað saman í skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar. Á grunni þeirra er kynbótagildi nautanna metið og ákvarðnir teknar um notkun þeirra.


 


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði á liðnu hausti starfshóp um innflutning erfðaefnis holdanautgripa og útbúnað einangrunarstöðva, sem m.a. undirritaður átti sæti í. Því miður náðist ekki samstaða um niðurstöður hópsins og skilaði hann til ráðherra tveimur álitum þann 1. apríl s.l. LK hefur frá upphafi þessa máls lagt ríka áherslu á eðlilegar smitvarnir  í öllu ferlinu og nauðsyn þess að viðhalda heilbrigði íslensku búfjárstofnanna. Á þeim forsendum, auk framangreindra niðurstaðna áhættumatsins og hvernig staðið er að sóttvörnum í Noregi, byggði sá er þetta ritar tillögur sínar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um meðferð á innfluttu sæði og útbúnað einangrunarstöðva. Því fer fjarri að í þeim tillögum sé gert ráð fyrir einhverri lausung í meðferð hins innflutta sæðis, þar sem öll þau bú sem heimild fá til að nýta það þurfa að uppfylla strangar kröfur um aðbúnað og eftirlit


 


Forsenda þess að búskapur með holdanautgripi vaxi og dafni hér á landi og nýti landkosti, er að bændum sem búgreinina stunda verði gefinn kostur á að koma upp hreinum stofnum gripa. Þeim stofnum verði viðhaldið með reglulegum innflutningi erfðaefnis, þannig að bændur njóti þeirra kynbótaframfara sem eiga sér stað í nálægum löndum. Það mun gera bændur betur í stakk búna til að uppfylla þarfir ört stækkandi markaðar fyrir úrvals nautakjöt, byggja upp aðstöðu og bæta afkomu sína til frambúðar. Beinn innflutningur erfðaefnis, með þeim varúðarráðstöfunum sem framangreindar tillögur gera ráð fyrir, er eina raunhæfa leiðin að því markmiði.


 


Með von um batnandi sumartíð


Sigurður Loftsson formaður LK