Af lánamálum á vori
01.06.2011
Það hefur verið skilyrðislaus krafa Landssambands kúabænda frá falli bankanna haustið 2008 að öll þau bú sem voru rekstrarhæf fyrir hrunið, væru það áfram og leiðréttur yrði sá forsendubrestur sem þarna varð. Tæplega verður þó sagt að greiðlega hafi gengið við úrlausn þessara mála á því rúmlega tveimur og hálfa ári sem liðið er frá hruninu.
Segja má að í grófum dráttum sé hægt að flokka þann vanda sem skuldugir bændur hafa staðið frammi fyrir eftir hrunið í tvennt. Annarsvegar þá sem þurft hafa á sértækri skuldaaðlögun að halda, en miklir kraftar hafa farið í úrvinnslu mála þess hóps síðustu misseri, með mis miklum árangri þó. Einna lengst eru þessi mál komin hjá Arion banka, sem segja má að hafi haft frumkvæði hvað þetta varðar. En af 64 kúabúum, í viðskiptum við bankann, sem greind hafa verið í rekstarvanda hefur góður helmingur lokið sértækri skuldaaðlögun. Í flestum tilfellum virðist að með þessum úrlausnum hafi tekist að tryggja rekstrarhæfi þessara búa , þó yfir liggi áhyggjur um að í einhverjum tilfellum sé einungis um stundarfrið að ræða uns biðlánin falla í eindaga. Hinsvegar eru það svo þeir bændur sem haldið hafa rekstrarhæfi búa sinna og staðið í skilum með afborganir lána, en sitja uppi með brogaðan efnahagsreikning vegna útblásins höfuðstóls lána sinna. Þessum aðilum hefur flestum staðið til boða einhverskonar greiðslujöfnun, sem vissulega hefur gert stöðuna bærilegri til skemmri tíma. Það á hinsvegar við um báða þessa hópa að ekki hefur verið unnið út frá því að leiðrétta forsendubrestinn sem varð við bankahrunið, heldur einungis að gera vonda stöðu lífvænlegri.
Nýlega fóru af stað endurútreikningar á gengistryggðum lánum bænda sem eru í viðskiptum við Landsbanka Íslands. Grundvöllur þeirra byggir á lögum nr. 151/2010 sem kveða á um endurútreikning erlendra lána til einstaklinga, heimila og fyrirtækja sem samþykktar voru á Alþingi 22. desember síðastliðinn. Hjá sumum fjármálafyrirtækjum, t.d. Landsbankanum falla bændur, sem eru með rekstur og íbúðarhúsnæði á eigin kennitölu, í þann flokk sem lögin ná til. Bændum sem komið hafa rekstri sínum fyrir í einkahlutafélögum hefur hinsvegar ekki boðist þessi úrlausn enn sem komið er.
Landssamband kúabænda veit dæmi þess að höfuðstóll erlendra lána hjá Landsbankanum hafi lækkað allt að 55% í kjölfar endurútreikninga, allt eftir aldri og stöðu lánanna. Slíkir endurútreikningar hefðu augljóslega mikil jákvæð áhrif á efnahagsreikninga búanna, ekki síst hjá þeim búum sem hafa farið í gegnum sértæka skuldaaðlögun og eru með biðlán á gjalddaga innan þriggja ára. Svo virðist sem þessi leið við endurútreikning gengistryggðra lána sé sú sem næst hefur komist því að leiðrétta þann forsendubrest sem varð við bankahrunið. Það eru því mikil vonbrigði að allar lánastofnanir skuli ekki sjá ástæðu til að ganga sjálfviljugar þessa sömu braut. Ólíðandi er að ekki sé unnið á samræmdan hátt að þessum málum meðal fjármálafyrirtækja.
Þá tók stjórn Landsbankans nýverið þá ákvörðun að endurgreiða skilvísum viðskiptavinum bankans 20% af greiddum vöxtum á tímabilinu 31. desember 2008 til 30. apríl 2011, eins og fram kom í tilkynningu á heimasíðu bankans þann 26. maí s.l. Að mati Landssambands kúabænda er sú aðgerð Landsbankans einnig mikilvægt skref í þá átt að leiðrétta þann forsendubrest fjárskuldbindinga sem til varð í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins árið 2008, ekki síst hjá þeim aðilum sem skulda í íslenskum krónum, sem að öðru leiti hafa hingað til setið óbættir hjá garði. Hér er eindregið skorað á aðrar fjármálastofnanir að grípa til viðlíka aðgerða gagnvart viðskiptamönnum sínum nú þegar, enda grundvallar krafa að allir landsmenn sitji við sama borð í þessum efnum.
Reyndar er umhugsunar efni hverju það sæti að einungis einn viðskiptabanki skuli ganga svo ákveðið fram í leiðréttingu á stöðu viðskiptamanna sinna. Það að um er sé að ræða ríkisbanka getur ekki talist nein afsökun í þessu efni. Sem dæmi er forsaga tveggja helstu viðskiptabanka bænda Arion banka og Landsbankans næsta lík. Forverar þeirra, Búnaðarbankinn og Landsbankinn gamli, báðir ríkisbankar, voru einkavæddir á svipuðum tíma, báðir flugu hátt á útrásartímanum og brotlentu með svipuðum bravör með fárra klukkustunda millibili. Báðir voru endurreistir af íslenska ríkinu, endurfjármagnaðir og sendir út í lífið að nýju með halaklippt lánasafn gömlu þrotabúanna. Eini munurinn er sá að Arion banki var afhentur kröfuhöfum gamla þrotabúsins, en Landsbankinn er rekin á ábyrgð skattgreiðenda. Um ekkert af þessu höfðu viðskiptamenn og skuldarar bankanna neitt að segja, eða gátu með einhverju móti séð fyrir. Ráðstöfun hinna nýju banka var á ábyrgð íslenskra stjórnvalda og skal því ekki trúað, að óreyndu, að með þeim aðgerðum hafi verið stefnt að ójöfnuði meðal lánþega.
Sigurður Loftsson
Formaður Landssambands kúabænda