“Kynbætur eru erfðafræðilegar tækniframfarir”
09.01.2012
Fagráð í nautgriparækt hélt síðasta dag nóvembermánaðar 2011 ráðstefnu um kynbætur nautgripa. Þar voru mjög góð erindi flutt um efnið og þeim varpað beint á vængi internetsins, þannig að þeir sem ekki höfðu tök á að koma í eigin persónu gátu fylgst með erindunum og umræðunum heima eða í fjarfundarútsendingu sem sum búnaðarsambönd buðu uppá. Í þessum pistli ætla ég að rifja upp það helsta sem fram kom í erindunum.
Ágúst Sigurðsson fór yfir erfðaframfarir í íslenska kúastofninum síðustu 30 árin, sem hann og Jón Viðar Jónmundsson hafa skoðað. Þar kom í ljós að erfðaframfarirnar eru eins og vænta má og gott betur ef við horfum til árangurs af reyndum nautum. Ef hins vegar við tökum öll heimanautin með í dæmið þá er árangurinn ekki eins mikill og við vildum sjá, þar sem heimanautin eru að jafnaði mun lakari en stöðvarnautin. Síðasta áratuginn eru erfðaframfarir 0,11 í heildina, en 0,15 ef heimanautin eru tekin út. Þannig að við sjáum hversu mikil neikvæð áhrif notkun þeirra hefur á erfðaframfarirnar. Notkun heimanauta kemur ekki aðeins niður á erfðaframförum í þeim fjósum þar sem þau eru notuð, heldur í öllum fjósum á landinu, þar sem heimanautin minnka ræktunarstofninn og svigrúm kynbótastarfsins. Skyldleikarækt minnkar líka erfðaframfarirnar og þarf að gæta þess þegar kúnum er haldið að nota ekki of skyld naut á þær. Skyldleikarækt er þó minni hjá okkur en í nágrannalöndunum. Það er mikilvægt að viðhalda erfðabreytileikanum, hann er eldsneyti ræktunarstarfsins. Í íslenska kúastofninum er til staðar umtalsverður erfðafjölbreytileiki.
Undirrituð kynnti ræktunarmarkmið íslenska kúakynsins. Umræður varðandi erindið snerust mikið til um skap kúnna, líkt og oft verður með umræður bænda um ræktun kúa. Það getur verið erfitt að dæma kýrnar þar sem misjafnt er á milli bænda hvað þeim finnst gott eða vont skap. Í kjölfar ráðstefnunnar munum við láta hanna dómskala sem felst í því að bændur dæma sjálfir skap kvígnanna nokkrum vikum eftir burð.
Í erindi Baldurs Helga Benjamínssonar um endingu kúnna kom fram að mikil afföll verði af gögnum út af notkun heimanauta og óættfærðum gripum. Þegar endingin er skoðuð koma fram skýr áhrif afurða á endingu. Kýr með lága hæstu dagsnyt hafa tilhneigingu til að tapa lífinu fyrr en aðrar. Einnig kom fram að eftir því sem kýr eru stærri endist þær skemur. Einnig hafa þættir sem tengdir eru júgurgerð mikil áhrif á endingu kúnna.
Athyglisvert erindi var hjá Þóroddi Sveinssyni um blendingsrækt, þar sem m.a.kom fram að framlegð Limousin blendinga er 4 sinnum meiri en hreinna íslenskra nauta. Með blendingsrækt sé hægt að laga veikleika erfðahóps með styrkleikum móterfðahópsins.
Margrét Ásbjörnsdóttir komst að því að umtalsverður erfðafjölbreytileiki er í íslenska kúastofninum og að hann er nokkuð sambærilegur við nágrannalöndin.
Þorvaldur Kristjánsson skoðaði þróun skyldleika í kúastofninum og komst að því að það er minni skyldleikaræktarhnignun í íslenska stofninum en í öðrum kúakynjum. Ástæðan er að takmarkað magn sæðis er sent í dreifingu úr hverju nauti. En á síðustu árum hefur dregið úr erfðabreytileika. Með því að takmarka magn sæðis úr hverju nauti erum við auðvitað að minnka dreifingu bestu nautanna, en höldum niðri skyldleikanum í leiðinni.
Frjósemi er sá þáttur í kynbótunum sem hvað minnstur árangur hefur náðst í að bæta, þó svo að undanfarin 10 ár sé aðeins farið að horfa til betri vegar. Baldur Helgi Benjamínsson kynnti nýjungar í sviði frjósemismála. Þar kom fram að erlendis er verið að vinna að því að gera sæðið langlífara, þannig er hægt að koma í veg fyrir tvísæðingar og minnka kostnað við sæðingar. Einnig eru til hjálpartæki við beiðslisgreiningu, sem sérstaklega er þægilegt að nota í kvíguhúsunum og vert fyrir söluaðila rekstrarvara að flytja slíkt inn til að selja okkur. Þeir ekki síður en bændur þurfa að hugsa til þess að framlegðin sé sem best á búunum. Bú með litla framlegð hefur ekki ráð á að endurnýja tækjakostinn hjá sér.
Magnús B. Jónsson ræddi um kynbætur fyrir frjósemi. Þar kom glögglega fram að heimanautanotkun tefur framfarir, þar sem gögnin sem við höfum á að byggja verða minni. Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á fjárhagslegt tap af notkun heimanauta, þá hefur notkun á þeim ekki minnkað. Það er alveg stórmerkilegt.
Grétar Hrafn Harðarson ræddi um velferð kúa í lausagöngufjósum. Þar kom m.a. fram að lýsingu er víða áfátt, sem hefur mikil áhrif á afurðir og frjósemi.
Í erindi Daða Más Kristóferssonar kom fram að því sterkari sem fóðrunin er því meira virðast kynbæturnar skila búinu og því stærri sem búin eru því skilvirkari verða þau. Notkun heimanauta dregur hins vegar úr framleiðni búanna, metið kynbótagildi heimanauta er 89,7% en kynbótanauta 99,6%. Óreyndu nautin eru að jafnaði betri og ættu menn að nota þau meira en reyndu nautin. Í erindi sínu komst Daði þannig að orði að kynbætur væru tæknilegar erfðaframfarir, sem undirritaðri finnst skemmtilega að orði komist. Sérstaklega ef litið er til þeirra bænda sem finnast vélar og tæki skemmtileg bústjórnarverkfæri. Með því að víkka út tækniframfarahugsun bænda og möguleika til árangurs á öllum sviðum, getum við náð meiru út úr búrekstrinum .
Lokaerindið var um framtíðar ræktunarmarkmið í íslenskri nautgriparækt. Það flutti Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir. Það erindi var verulega áhugavert þar sem velt var upp möguleikum á því hvernig við getum staðið að ræktun mjólkurkúa. Hún veltir fyrir sér kostum í stöðunni, sem geta verið fjórir: byggja áfram á íslenska kúakyninu, styrkja íslenska kúakynið með innblöndun skilgreindra erfðaþátta úr erlendum kynjum, skipta um kúakyn eða flytja inn nýtt kúakyn til blendingsræktar með því íslenska. Þessi litli pistill getur ekki gert grein fyrir allri þeirri umræðu sem þessum þáttum fylgja. Við þurfum að taka góðan tíma og umræðu um þessa valmöguleika. En hvaða möguleika svo sem við veljum þá byggir það samt allt á því að bændur taki virkan þátt í ræktunarstarfinu.
Stuttu eftir ráðstefnuna fundaði Fagráð í nautgriparækt m.a. um nýtt kynbótamat. Þar voru að koma til dóms naut fædd árið 2005. Þau sem fengu vilyrði fyrir áframhaldandi notkun eru langflest undan Stíg. Bændur þurfa því að huga vel að skyldleika gripanna þegar þeir halda kúnum. Það er áhyggjuefni að ekki skuli fleiri en eitt naut í árganginum skila verulega góðum dætrum. Hvað þennan árgang varðar þá komu langflest naut inn á stöð undan þessu nauti, þar sem flestar nautsmæðurnar voru sæddar með honum. Við getum varla farið að handstýra því hvaða naut bændur nota á kýrnar sínar. Við þurfum öll í sameiningu hins vegar að sjá til þess að um sé að velja nokkur góð naut, þannig að nautsfeður næstu kynslóða séu ekki of skyldir.
Á ráðstefnunni var talað um nokkra möguleika til styttingar ættliðabilsins og meiri valmöguleika á skoðun sæðisins. Allt kostar það peninga. Eru bændur tilbúnir til að borga meira fyrir sæðið og ræktunarstarfið og taka betur þátt í starfinu? Eða þurfum við að sætta okkur við að geta ekki nýtt allan stofninn og geta ekki nýtt þá möguleika sem tæknin býður upp á?
Guðný Helga Björnsdóttir, formaður Fagráðs í nautgriparækt og varaformaður Landssambands kúabænda